Í fréttum er þetta helst....

Færslur: 2014 Júní

14.06.2014 18:17

Tími til kominn eða hvað?


Ég er hér enn...... það er kominn júní og í janúar færslunni sagði ég að árið 2104 yrði rosalega gott og skemmtilegt. Ég verð nú víst að viðurkenna það að það hefur verið mjög mjög mjög hæðótt svo restin af árinu hlýtur að verða frábær emoticon emoticon

Ástæða fyrir engum skrifum kemur í næstu færslu, hún er í vinnslu svo ég ætla að "updeita" ykkur aðeins í þessari um í "fréttum er þetta helst" sl. 5 mánuði.

Fyrst er nú að nefna drengina mín fallegu sem ég er endalaust stolt af og eru mér gleðigjafar alla daga hvað sem gengur á. Þeir stunduðu skólana sína og áhugamál af kappi í vetur og á köflum sá ég þá bara ekki heilu dagana, eða mér leið þannig allavega.
Bjartmar lærði að prjóna og prjónaði orm sem varð jafnstór orminum sem Sigurgeir prjónaði um árið.Hann, Bjartmar ekki ormurinn, er í fótbolta og fórum við á Goðamót á Akureyri í mars. Hann fór bara með hópnum og svaf hjá þeim, í fyrsta skipti sem hann sefur einhvers staðar annars staðar en hjá mér eða pabba sínum síðan hann fékk hjartavandamálið sitt. Ég fór auðvitað á það en samt ekki fyrr en á laugardagsmorgni því árshátíðin hjá Blönduskóla var á föstudagskvöldinu. Goðamótið gekk fínt og þeir unnu eitthvað og töpuðu líka einhverju.

Við hittum Hróðmar í apríl. Hann hafði farið til Boston til að hitta lækninn hans Bjartmars, eða hitti hann frekar í ferðinni, fór nú ekki sérstaka ferð til þess en þeir ræddu um mál Bjartmars og í samráði við okkur munum við fara með hann til Boston eftir 1-2 ár og þá á að reyna að laga þetta í eitt skipti fyrir öll. Annaðhvort verður þetta þá lagað og hann fer ekki aftur á töflur eða það lagast ekki og þá verður hann á töflum áfram. Hann er svo sem að fá hraðtakt öðruhvoru en það lagast þegar hann tekur töfluna sem hann tekur á hverjum morgni.

Nú hann var á reiðnámskeiðum hjá Neista í vetur og það gekk ljómandi vel. Fagrajörp var bara úti í vetur svo hann fékk afnot af Glettu og þeim gekk svona ljómandi vel saman. Þau tóku svo þátt í æskulýðssýningunni sem var í byrjun maí og það var rosalega flott og gaman hjá þeim og okkur.
Svo skall á sauðburður og auðvitað tók hann þátt í honum, hér er hann með einu flekkóttu lömbin sem fæddust.


Auðvitað græjuðum við aðeins fyrir sauðburð þó svo við höfðum ekki hugmynd um það hvernig hann myndi þróast, vissum auðvitað að kindurnar myndu bera..... annað var bara rennt blint í sjóinn með. Smíðuðum sem sagt nokkrar grindur og strákarnir kunnu alveg tökin á þessum verkfærum emoticon


Bjartmar kláraði skólann með glæsilegum einkunnum.....


og tónlistarskólann þó svo heimanámið hefði mátt vera meira...... þegar maður er kominn á miðstig og skólinn ekki búinn fyrr en um 14 og fótbolti þar á eftir er einhvern veginn ekki mikill tími fyrir klarinett æfingar heima fyrir eða það vill svolítið sitja á hakanum en allt hefst þetta þó.
Nú af Sigurgeiri er það að frétta að hann var hér "heima" í vetur í dreifnáminu. Ég fæ því ekki með orðum líst hve dásamlegt var að hafa hann heima. Veit svo sem ekkert hvort hann er sammála mér en allavega hefur hann ekki kvartað, best að vera á Hótel mömmu auðvitað en það var góður hópur sem var hér heima í dreifnáminu. Þau gerðu margt sér til skemmtunar fyrir utan skóla, þó er ég nú viss um að skólinn var líka skemmtilegur á köflum eins og allt annað. En það er auðvitað svolítið mikið stökk úr 10. bekk í framhaldsskóla og maður þarf að hafa sig allan við. Skólinn gekk ágætlega en hugurinn er í verknám svo stefnan er tekin á vélstjóranám næsta vetur.

Eftir jólin setti leikfélagið á Blönduósi upp sýningu og tóku krakkarnir í dreifnáminu þátt í því. Sigurgeir var með og mér fannst hann aldrei vera heima en útkoman var mjög góð og skemmtileg.

Á vordögum keypti hann sér bíl og við tökum rúntinn öðru hvoru á honum. Fínasti bíll þó mér finnist nú Skodinn minn betri :)
Ég held það sé alltof lágt undir þennan bíl svo hann, Sigurgeir, verður bara að vera heima í dreifnáminu í vetur, hehe emoticon
Hann  hjálpaði svo auðvitað til í sauðburði þó svo prófin hafi ekki verið búin fyrr en 16. maí en allt hefst þetta á endanum.


Framundan hjá honum er að fara og vinna í Miðhúsum og eitthvað hjá mér svona ef allt er komið í klessu hjá mér emoticon emoticon

Nú af mér er það að frétta að veturinn var frekar erfiður en ég ætla ekki að kvarta um það hér. Örugglega búin að kvarta nóg við mann og annan, en hann var það bara.
Ég held vandamálið hjá mér að ég er alltaf svo bjartsýn og held alltaf að allt sé ekkert mál en ég er svo fyllilega búin að komast að því að allir hlutir taka sinn tíma og eru kannski flóknari og/eða erfiðari en ég reiknaði með en maður lærir endalaust. Bústörfin gengu stundum frekar brösulega og ég varð oft á tíðum frekar ráðþrota sem ég er sjaldan. Ég kann ekkert á vélar en er nú að læra ýmislegt á þær og um þær, eða eins og einn sagði við mig, hvað þetta er nú ekkert mál að rúnta með 1 valtara á milli bæja þú sem rúntar stanslaust með fólk sem kann ekkert að keyra. Mér fannst sem sagt miklu meira mál að fara með valtara á milli bæja heldur en að keyra með krakka alla daga, allan daginn emoticon  Valtarinn komst á milli bæja og ég valtaði túnið hjá mér og á næsta bæ líka.

Nú hestamálin eru auðvitað ekki eins og ég vil hafa þau. Fór eiginlega ekkert á hestbak í vetur þó hann Háfeti minn sæti hafi verið inni þá var ég bara of upptekin eða of þreytt til að fara á hestbak, það hefur ekkert skánað í vor enda kannski sauðburður nýbúinn og rétt búið að járna þessi 4 sem eru fram í S-Brekku. Þau eru feit og fín en þyrftu nú frekari brúkun.
Ég hætti í stjórn Neista í vetur og ákvað að koma ekki nálægt neinu á vegum félagsins þetta árið. Ég var eiginlega búin að fá alveg nóg af þessu stússi sl. 6 ár en það var mjög ánægulegt að Neisti fékk Hvatningarverðlaun USAH og ég tel mig auðvitað eiga mikinn þátt í þeim :) Æskulýðsstarfið hjá Neista hefur verið afar gott og það var mjög gaman og gefandi að vera þátttakandi í því en einhvern tímann fær maður nóg og það var akkúrat í vetur enda búin að vinna fyrir félagið í 6 ár og tími til að nýtt fólk tæki við taumunum.
Mér finnst rosalega gaman að sjá að þeir sem voru í knapamerki 4 í fyrra héldu áfram í knapamerki 5 en ætla að klára það á næsta ári. Rosalega gaman að fylgjast með þeim, sjá frétt á heimasíðu knapamerkjanna 2013.

Ég er svo upptekin af sjálfri mér og minni vinnu í vetur að ég hef ekkert farið og varla haft tíma til að hitta nokkurn mann (nema til að kvartaemoticon). Það þarf að sjálfsögðu að lagast og hlýtur að gera það þegar bústörf og önnur störf eru komin í einhverja rútínu.

Sauðburður gekk vel og ég hafði gaman af honum, eins og alltaf, allavega eftir á emoticon
Það þurfti ekki að sitja yfir hverri kind og draga frá þeim lömbin eins og er víða á bæjum, þær gerðu þetta bara alveg sjálfar og ég var afskaplega glöð með það. Þær eru góðar mæður og mjólka vel og passa óskaplega vel uppá lömbin sín. Veðrið var einstaklega heppilegt fyrir sauðfjárbændur og ekkert eins gaman og þegar hægt er að setja út snemma og gróðurinn er kominn vel af stað.  Er búin að marka 301 lamb en það er 1 kind eftir að bera.

Framundan er sláttur þar sem ég lét bera á 15. maí en þá kom verktaki úr Skagafirði og ég eins og hinir stórbændurnir fékk hann til að bera á fyrir mig og það tók hann ekki nema 3 tíma. Ég hefði örugglega verið 3 vikur að bera á sjálf  emoticon emoticon

Framundan er líka að koma fénu á heiðina emoticon emoticon  Það er alltaf jafnspennandi að sjá það fara frjálst til fjalla.

Framundan er sumarið og sumarið er tíminn, er það ekki...... emoticonemoticon


  • 1
Flettingar í dag: 334
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 641608
Samtals gestir: 98128
Tölur uppfærðar: 23.2.2018 09:57:59

Tenglar