Í fréttum er þetta helst....

Færslur: 2013 Október

29.10.2013 09:00

"Basl er búskapur" eða "búskapur er basl"


Aldrei lognmolla í kringum mig, ýmislegt sem manni dettur í hug og sumt af því verður að veruleika emoticon

Síðastliðin vika var bæði skemmtileg og ekki eins skemmtileg. Byrja á því ekki eins skemmtilega en á þriðjudag þá fékk ég að vita að hurðin í hlöðuna sem átti að koma í október kemur ekki fyrr en í lok nóvember.... verð að vona að veðrið verði sæmilegt fram að því. Á miðvikudag fékk ég leiðindabréf en segi frá því seinna. Málin sem maður fær uppí hendurnar eru bara til að vinna í þeim og ganga frá þeim. Hvernig sem þau fara þá þýðir ekkert að eyða tíma í að ergja sig á þeim, það er tímasóun og gerir ekkert nema að draga úr manni gleðina og því nenni ég ekki, vil frekar vera jákvæð og glöð.

Föstudagur var skemmtilegastur því þá skrifaði ég undir leigusamning að rekstri á sauðfjárbúi hér fram í sveit. Þar með erum við tekin við búrekstri og munum hlaupa eftir kindum næstu árin.
Þetta var auðvitað ekki þannig að það gerðist allt í síðustu viku, búið að vera að vinna í þessu í allt sumar. Hef verið að fara frameftir allt sl. ár að aðstoða en spurði í vor hvort hann vildi ekki bara leigja mér. Síðan þá hefur þetta verið að þokast í þessa átt. Ég hef verið í kindastússti þar í allt haust, þ.e. þegar á þurfti að halda. Fór og tók frá líflömb 10. október og þessar urðu fyrir valinu en gimbrarnar eru 33. Grátt þykir mér afskaplega fallegur litur og móbotna er sú eina kollótta og kolótta er líka sú eina kolótta. Móra gamla stalst inn í aðra kró með gimbrarnar sínar svo það var ekkert verið að taka þær frá henni.

  

  


Framundan er því "Basl er búskapur" eins og danski þátturinn um ungu hjónin sem flytja í sveitina nema auðvitað að ég er hvorki ung né hjón :)
Strákagreyin lenda því bara í baslinu með mér.... annars tel ég það vera forréttindi að eiga heima í sveit.... ekki svo að ég sé að flytja akkúrat núna en það verður árið 2014 og þá eru ekki nema 20 ár síðan ég flutti úr sveitinni og var síðast í sauðburði hjá sjálfri mér ....19.10.2013 09:45

Gæðastund


Við Bjartmar skruppum útí Hrútey einn haustmorguninn, höfðum ekki komið þar lengi en það er nauðsynlegt að koma þar á hverju hausti því haustlitirnir eru dásamlegir, sérstaklega þegar það er ekki búið að koma rok og feykja öllu laufinu í burtu :)Skruppum síðan uppí Kúagirðingu að kíkja á hestana, Tindur kom auðvitað um leið og hann sá bílinn, ath. hvort við værum ekki örugglega með brauð :)
Þeir fóru uppí Kúagirðingu 25. september og verða þar þar til annað kemur í ljós :) Ekki beint í mesta grasinu en fallegt er þarna  :)

19.10.2013 09:16

Notaleg helgi


Allar helgar eru auðvitað notalegar en þessi var alveg sérstaklega góð og skemmtileg.
Fyrstu helgina í október brunuðum við Saumó-systur í Húsafell og
áttum þar alveg dásamlega góða helgi. Borðuðum mikið, fórum í göngutúra, hlógum, spjölluðm og prjónuðum og gerðum það sem maður gerir í sumarbústöðum, hafa það notalegt og vera saman. Ekkert er mikilvægara en að eyða tíma með fjölskyldu og vinum. Takk fyrir frábæra samveru.

19.10.2013 09:01

Nýrri bíll og fyrsti nemandinnn á hannÞá var það blessaður bíllinn minn..... fór með hann í skoðun í lok september og hann fékk endurskoðunarmiða, aldrei fengið það áður. Það var komin tími á skipti enda keyrður 280.000 km á 7 árum, keypti hann í lok sept 2006 og nokkuð margir sem hafa keyrt hann þó það sé búinn að vera sami eigandi frá upphafi. Væri gaman að vita hvað margir hafa tekið próf á hann.Þá var að bruna á Akureyri og skipta. Fór á mánudegi, það var mánudagur til mæðu :)
Þeir fundu allt að gamla greyinu, þ.e. bílnum, ég skyldi hann eftir og fór á þeim nýja heim sem er að sjálfsögðu Skodi, 4x4 station, svo ég komi öllu draslinu fyrir í skottinu :)

Að skipta um bíl tekur auðvitað marga daga, það þarf að fara með gamla bílinn og láta taka græjurnar úr honum, fara og skipta um bíl og fara svo með þann nýja og láta setja græjur í hann. Þetta hafðist samt fyrir afmælisdaginn hans Sigurgeirs, allt með ráðum gert svo hann var auðvitað fyrsti nemandinn minn á nýjum bíl. Hvað annað. Hann var í staðlotu á Sauðárkrók svo ég mátti gjöra svo vel að drífa mig þangað. Hann fékk ökutíma í afmælisgöf, er það ekki vel gert hjá mér emoticon emoticon emoticon
18.10.2013 23:18

Verapamil


Þessar mættu aftur á svæðið 26. sept. við mjög litla hrifningu heimilismeðlima.


Við Bjartmar skruppum suður 13. september í eftirlit hjá Hróðmari og fengum fína skoðun, hann þurfti ekki að koma aftur fyrr en eftir ár. Þetta "hjartadæmi" hans heitir Belhassen Ventricular Tachycardia ef einhver langar að fræðast "googla" um það.

Nú það liðu 13 dagar. 26. sept vakna ég við það að hann hristist allur í rúminu. Hlusta hann og hjartað er á skrilljón en þar sem hann hefur alltaf farið strax niður aftur fór ég bara að sofa aftur. Bjartmar vaknaði ekkert við þetta. Um morguninn kemur hann fram og er afskaplega lassaralegur og fór bara inní sófa og lagðist þar og ég er ekki alveg sátt við það og hlusta hann. Finnst hann vera með alltof hraðan takt og hringi í Begga og hann kemur með mæli, mælist í 160 svo ég fór með hann uppá sjúkrahús og þar er hann mældur aftur og settur í línurit. Jú í 160 er hann og þá er hringt í Hróðmar sem segir að hann eigi að taka 1 verapamil og sjá til eftir einn og hálfan tíma. Förum þá aftur og við förum aftur uppeftir og þá er hann orðinn fínn. Hringt í Hróðmar og hann segir að hann þurfi að fara aftur á þessar töflur. Þær
voru síðast teknar 18. júní 2012 og vorum við auðvitað að vona að þær kæmu ekki aftur hingað. Engin suðurferð sem er jú jákvætt.... en töflur .... jæja :(

Við vitum svo sem ekki meir, jú við vitum að hann er með þennan Belhassen Ventricular Tachycardia sem er mjög sjaldgæft í börnum og Bjartmar eina barnið á Íslandi sem er með þetta. Hann er á Verapamil sem er ekki ætlað börnum en heldur þessu niðri. Hve lengi, veit ekki, hvað veður gert, veit ekki en allt kemur þetta í ljós einhvern tímann svo bara að vera róleg þangað til :)

11.10.2013 20:51

Aftur í göngur


Jæja hvert var ég komin......

Já aðalréttirnar voru búnar...... við nenntum ekki á Laxárdalinn en ég fór fyrir Valla bróðir í Víðidalsfjallið 20. september þar sem hann var úti á sjó.

Það var frábært veður en alls ekki frábært færi. Drulla upp fyrir haus. En það hafðist allt og gekk vel.

Hér eru þeir Maggarnir, Hnjúks og Miðhúsa, á leið uppí Víðidalsfjall frá Hnjúki. Þeir eru með hjálmana sína ..... :)
Fallegt var fjallið
....og strákarnir líka :)
Maggi á Hnjúki, Maggi frá Sveinsstöðum og Biggi í Uppsölum.Og stóðið komið niður.
08.10.2013 08:45

Göngur í ágúst


Við vorum ekki fyrr komin heim frá Danmörku en það var spáð ógeðslegu veðri sem þýddi það að það voru settar á göngur viku fyrr en gert var ráð fyrir. Sigurgeir var byrjaður í nýja skólanum sínum og var farinn á Sauðárkrók en fékk frí og fór í fjallið fyrir afa sinn. Ég fór hins vegar á Sandinn fyrir Syðri-Brekku. Aldeilis gaman. Hef ekki farið í göngur í 20 ár og þetta var ágætis upprifjun og allt gekk þetta vel því veðrið var geggjað gott sem betur fer.

Þar sem öllu skipulagi gangnanna var breytt sem er ekkert smámál og fólk þarf að breyta öllu skipulagi, sínu sem og göngunum sjálfum þá var öllum hestum keyrt upp á heiði. Biggi fór á flutningabílnum með fullan bíl af hestum og aðrir komu með sína hesta á hestakerrum. Keyrt var fram að upptökum eða þar sem maður kemur norður af Sandinum.


Við riðum fram að Grettishæð en ekki var farið í Fljótsdrög þar sem það var ekki tími til þess. Hér erum við "stelpurnar" ég, Hátíð og Hugrún komnar fram að Grettishæð.og smalað var norður sandinn..... ákaflega fallegt :) Ég upplifði þessa auðn alveg uppá nýtt, fannst þetta alltaf ljótt og leiðinlegt en það er bara ef maður hugsar svo. Þarna er maður einn með sjálfum sér og hestunum, fjallasýn í allar áttir og fegurðin er bara fólgin í því hvernig maður hugsar. Allavega fannst mér þetta dásamlegt.Dagur tvö.... á leið norður að girðingu. Þessar tvær voru búnar að fá nóg af forarpyttum enda alls ekki vanar slíku, Hátíð hefur aldrei séð slíkt hvað þá þurft að fara yfir það og Hugrún lítið sem ekkert, allavega ekki með mann á bakinu. Hátíð var alveg farin að neita að fara yfir svo það þurfti nokkra lagni við að fara yfir alla mýrarpyttina á leið út að girðingu. Á endanum elti ég næsta mann og þá gekk þetta.
Við þetta hugsaði ég sem svo hvurslags meðferð er þetta eiginlega á djásnunum mínum en komst að þeirri niðurstöðu að þetta er örugglega miklu betra og hollara heldur en heilu veturnir "fram og niður" eða endalausar keppnir helgi eftir helgi eftir helgi. Svo þetta var nú bara gott fyrir þær og mig :)
Féð komið norður fyrir girðingu og fallegi Vatnsdalurinn framundan....og við fengum þoku í smástund á leiðinni niður en það hafðist allt :)
Haukagilsheiðarmenn komu niður á fimmtudeginum og það var réttað fyrir hádegi á föstudegi, Grímstunguheiðarféð kom í réttina eins og vant er um hádegi á föstudag og það var réttað eftir hádegi.
Miðhús fyllti 3 dilka og Eiður keyrði því öllu heim á föstudeginum, var búinn um 1 um nóttina.Hestarnir mínir að hvíla sig á meðan réttað var. Þeim var svo keyrt í Miðhús og voru settir inn þar sem ógeðsveðrið kom akkúrat þegar réttin var búin og það hellirigndi alla nóttina.
Sveinsstaðaréttin var á sínum stað nema bara á laugardegi. Þá var líka kominn snjórinn sem spáð var nema sem betur fer örugglega minna af honum.Alltaf jafn gaman að ganga heim eftir fénu.....og alveg dásamlegt að sjá það þegar það er komið heim :)
07.10.2013 16:00

Sumarfríið í Danmörku í ágúst


Ég byrjaði á þessari færlsu 7. sept og nú er allt í einu kominn 7. október.... ég veit eiginlega ekki hvað verður um hvern dag.... eða mikið ofboðslega hef ég mikið að gera eitthvað..... ég þarf reyndar að vera í sérstökum skrifgír til að skrifa hérna inn og honum hef ég ekki verið í, bæði vegna þess að það er stundum eitthvað annað sem ég er að spá í og ég hef kannski bara tíma á kvöldin til að skrifa en þá slokknar bara alveg á mér af því ér  morgunmanneskja, ekki kvöldmanneskja....

en hér koma fréttir...  emoticon emoticon emoticon  byrjum á ágúst :)

Sumarið þaut hjá og komið haust. Mér finnst sem ég hafi bara verið úti að aka í allt sumar en sé samt að ég/við hef nú gert heilmikið skemmtilegt.

Sl. vetur ákvað ég marga hluti sem ég vildi gera, þar með talið að heimsækja fólk í útlöndum sem mér þykir vænt um og hef ekki hitt lengi, á stefnuskránni eru m.a. Noregur, Þýskaland, Danmörk, Bretland, Mexikó, USA: Boston, New York, San Francisco....

Þannig að í vor ákvað ég að við færum í frí saman, ég og strákarnir. Ég hef ekki farið í frí með þeim síðan sumarið 2008 þar sem sumrin hafa farið í kennslu að mestu og mér fannst tilvalið að halda uppá að Sigurgeir væri búinn með grunnskólann og á leið í framhaldsskóla, Bjartmar var 10 ára í sumar og ég var hætt í æskulýðsnefnd Neista svo það var margt að halda uppá. Þá var auðvitað bara spurningin hvert ætti að fara. Fyrir valinu varð Danmörk, bæði vegna þess að ég var orðin svolítið sein að panta flug og líka vegna þess að mig var lengi búið að langa að hitta vinafólk mitt þar.

Svo strax eftir hestaferðina í ágúst var haldið til Danmerkur sem var frábært. Við flugum til Kaupmannahafnar 16. ágúst og hittum Malenu þar og vorum hjá henni í 2 daga. Yndislegur tími. Fór í fyrsta skipti á fótboltaleik og það á afmælisdaginn minn og verð nú að segja það að ég mun nú ekki gera aftur.... hjálpi mér hvað það var leiðinlegt, vissi það svo sem, þó það væru skoruð mörk.  Mér fannst nú eiginlega skemmtilegra að horfa á dráttarvélarnar með slóðann ;)

  


Nema hvað ég fékk allavega afmælisköku sem Malene gerði fyrir mig og það var frábært.Svo var það Tívolí daginn eftir sem var hreinasta snilld. Var auðvitað drulluhrædd um að Bjartmar fengi hraðtakt í einhverjum af þessum tryllitækjum sem strákarnir fóru í en hann fór í hverja rússíbanaferðina á fætur aðra og ekkert mál. Áttum aldeilis frábæran dag þar.  
  


Sylvester, Malene, Sigurgeir, Anders, Snorre og Bjartmar :)


og við gömlurnar :)
Þetta er ótrúlega sniðugt tæki, skil ekki af hverju sé ekki búið að setja þetta upp á Íslandi þar sem við erum svo nýungagjörn. Þetta var í Tívolí, ekki í Lególandi. Maður skilar sem sagt glösum sem maður kaupir í garðinum, þ.e. kókglösum og öðrum "einnota" glösum en þau eru ekki úr plasti heldur harðplasti. Maður skilar glösunum og fær 5 dkr fyrir. Algjör snilld og sparar þvílíkt og annað eins rusl.
  

Alveg dásemdardagur í Tívolíinu og eftirminnilegur.

Um kvöldið tókum við lest til Horsens og Arís náði í okkur á lestarstöðina. Áttum frábæra daga hjá þeim Arísi og Sigga fram á föstudag. Þau lánuðu okkur bílinn og við keyrðum hingað og þangað, aðallega þangað þ.e. á Billund svæðið.
Tókum því rólega á mánudeginum og svo í Lególand á þriðjudeginum. Hva maður verður nú að fara bæði í Tívolí og Lególand fyrst maður er í Danmörku á annað borð.
 
 


Fórum líka í http://www.givskudzoo.dk/ þar sem maður keyrir í gegnum hluta af dýragarðinum. Alveg frábært.

   

Það fyndna við þessa garða alla var að það var hægt að fá sér eitthvað að borða á hverju horni og þau eru mörg í Tívolí og Lególandi en það var einn matsölustaður opinn í dýragarðinum. Við höfðum orð á því við afgreiðslukonu hvað það væri margt fólk í Lególandi og hún sagði nú þetta vera svona 1/3 af því sem væri á sumrin.... og við urðum steinhissa, okkur fannst margt en það er þá ekki hægt að þverfóta þar á sumrin. Eins gott að koma þegar skólarnir eru byrjaðir annars þarf maður að bíða í röð klukkutímum saman. En við skemmtum okkur vel og hittum frábæra Blönduósinga líka.

Við fórum heim á föstudegi úr góðu veðri í rigningarkulda, þurftum meira segja að fara úr flugvélinni "úti" á velli :)Það tók heilan dag að komast heim. Við tókum strætó frá Horsens til Billund og við héldum að hann ætti að taka klukkutíma en hann var tvo tíma á leiðinni, það gerði svo sem ekkert til við þurftum þá ekki að bíða neitt á flugvellinum. Svo var að fljúgja heim, sem tók ótrúlega stuttan tíma og svo auðvitað að keyra á Blönduósm. Allir dauðþreyttir en ánægðir og ég er svo glöð að hafa drifið mig í þetta frí með strákana. Allt gekk vel, við hittum dásamlegt fólk sem tók svo vel á móti okkur og hugsaði svo vel um okkur að manni hlýnar um hjartarætur. Við strákarnir gerðum marga skemmtilega hluti og munum eiga svo margar góðar minningar um þessa góðu ferð. Takk fyrir okkur kæru vinir í Danmörku :)

Myndir eru í myndaalbúmi.


  • 1
Flettingar í dag: 334
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 641608
Samtals gestir: 98128
Tölur uppfærðar: 23.2.2018 09:57:59

Tenglar