Í fréttum er þetta helst....

Færslur: 2012 September

29.09.2012 10:06

Hestar heim og að heiman


Allir hestarnir okkar komnir í hausthagana.

Drógum undan og slepptum hestunum fram í Vatnsdal um síðustu helgi.
Systurnar, Gígja og Gletta, komu hins vegar af fjalli sl. laugardag og voru flottar eftir sumarið.
Þær fóru bara í Þingeyrar og verða þar þar til annað verður ákveðið emoticonSigurgeir tók Tígul sinn heim úr réttinni og kenndi honum sitt lítið af hverju sl. viku. Fórum með hann í Miðhúsahrossin í gær þar sem hann verður í vetur og þar til hann verður taminn meira.Nú er sól og dásamleg haustblíða.....


11.09.2012 21:02

og svo voru réttirnar....


Réttirnar voru á sínum stað alveg eins og öll hin árin, það sem var öðruvísi var að Sigurgeir fór í göngur í Víðidalsfjallið fyrir afa sinn og fékk vægast sagt ógeðslegt veður sem gerði það að verkum að ég var að farast úr áhyggjum frá hádegi til kl. 19.00 þegar hann mætti fyrir framan mig skælbrosandi og það var bara gaman og ekkert kalt.


Mikið ofboðslega var ég fegin en ég klæddi hann líka MJÖG vel, gleymi því seint þegar ég var í göngum og var ekki nógu vel klædd og varð ofboðslega kalt.

En honum fannst gaman og hann vildi bara fara aftur.

Veðrið á föstudeginum var sem sagt ömurlegt en mjög gott bæði laugardag og sunnudag.
Þessi orkubolti var endalaust duglegur og dró margar kindur.
Fallega kindin þeirra Beggu og Eiðs kom úr Víðidalsfjalli en ekki úr Sveinsstaðaréttinni og er hér komin heim með hrútinn sinn.


Fórum að sjálfsögðu í Sveinsstaðaréttina og rákum heim eins og fyrri ár og fengum dásamlega fallegt veður.
Það er ekki hægt að segja það sama um veðrið daginn eftir, þ.e. í gær mánudag.
...þannig að hestarnir voru settir inn þar sem þeir höfðu það gott.11.09.2012 08:37

Hestafréttir


Það má auðvitað ekki gleyma að skrifa um hestana en það fæddist folald 15. ágúst.
Var búin að grínast með það við Gunnar að það myndi fæðast á afmælisdaginn minn en hann hélt nú að það myndi fæðast 15. Ég hélt nú ekki, fæ svo sms 15. um að það sé fætt folald. Spyr hvort það sé brúnn hestur, nei það er ekki brúnn hestur og ég yrði bara að koma að skoða. Fer niður á tún með Helgu og segi við hana, jæja þá er þetta bara bleikálótt meri, nei segir hún og þá sé ég að það er brúnt og veit þar að leiðandi að það er meri þar sem það var ekki brúnn hestur.
Folaldið ákvað sem sagt að skyggja ekki á afmælisdaginn minn og hafa sinn eigin fæðingardag. Hún er undan Hyllingu frá Blönduósi og Vita frá Kagaðarhóli og ég er ekki búin að finna nafn á hana ennþá......
Toppa gamla var hins vegar felld, hún var búin að vera ómöguleg í afturfótunum í allt sumar svo það var ekki gerandi annað en að fella hana. Elsku kerlingin var nú ekki mikið notuð seinni ár og var skilin ein eftir heima þegar eitthvað var farið. En hún var óskaplega mikil dúlla og þær Fagrajörp miklar vinkonur. Alltaf svo hræðilega leiðinlegt að þurfa að fella hestana sína sem maður er búin að hafa svo mikla ánægju af en svona er þetta líf víst.
Hér er Bjartmar að knúsa hana.
06.09.2012 21:00

Hringferðin


Ég á yndislega vini í Boston, þau sem við gistum hjá í sumar (sjá fréttir í júní). Í vor ákváðu þau, ásamt örðum hjónum (karlarnir eru bræður) að koma og heimsækja Ísland. Höfðu samband og spurðu hvort ég gæti keyrt þau þessa daga sem þau ætluðu að vera, treystu sér ekki að keyra á íslenskum vegum enda fólk um áttrætt. Ég hélt það væri hægt þar sem þau kæmu eftir afmælið mitt og Beggi var í fríi til mánaðarmóta ág. - sept.
Ég skipulagði því ferðina þeirra og sótti þau á flugvöllinn eldsnemma á mánudagsmorgni 20. ágúst.

Dagskráin var stíf og var í þessum dúr.
20. ágúst - komu til landsins og tókum það frekar rólega. Morgunmatur hjá Albert og Jóhönnu á Álftanesi. Gist á Bröttugötu 3b.
21. ágúst - skoðuðum Hörpuna og sáum sýningu sem ég man ekki hvað heitir, skoðuðum Hallgrímskirkju, Perluna og gengum upp og niður Skólavörðustíginn og um miðbæinn. Gistu á Bröttugötu 3b.

Á Kaffi Loka, fengum okkur rúgbrauðsís sem þótti magnaður :)

22. ágúst - Hellisheiðavirkjun, Þingvellir, Geysir, Flúðir og gistum á Sólheimahjáleigu.

á Þingvöllum

23. ágúst - Eyjafjallastofa, Safnið á Skógum, Skógarfoss, Dyrhólaey, Vík, Skaftafell, Jökulsárlón. G
istum í Hólmi í Hornafirði hjá Guðrúnu vinkonu minni.

   Bea og Dan við Skógarfoss


24.  ágúst - Bátsferð á Jökulsárlóni, Stokksnes, Höfn og sund á Höfn, gistum í Hólmi.25. ágúst - Austfirðirnar keyrðir, Álftafjörður, Djúpavík, Eggin í Gleðivík, Steinasafn Petru, gist á Útnyrðingsstöðum.26. ágúst - Káranhnjúkavirkjun, gengið upp að Hengifossi, Gestastofan við Klaustur. Gist á Eyvindará.27. ágúst - Dettifoss, Hljóðaklettar, Ásbyrgi. Gist á Húsavík28. ágúst - Mývatn í slyddu. Fuglasafn Sigurgeirs, Kröfluvirkjun, Námaskarð, Dimmuborgir og kaffi í Vogafósi. Gist í Sveinbjarnargerði.29. ágúst - Akureyri, Ísinn í Holtseli, göngutúr í Kjarnaskógi, Iðnaðarsafnið.


Stelpurnar að hlaupa upp kirkjutröppurnar við Akureyrarkirkju.

30. ágúst - Safnasafnið, Listasafnið, Bláa Kannan, Kjarnaskógur, Kaffi Kú, keyrt á Blönduós og gist hér heima.

Dan og Bea, Amy og Adam við Safnasafnið.


31. ágúst - Blönduvirkjun, farið á hestbak, fjósið í Miðhúsum.

Sigurgeir, ég, Bea á Hátíð og Bjartmar á Fögrujörp.

1. ágúst - farið til Reykjavíkur
2. ágúst - brottför.

Upp úr stendur, frábær ferð, frábært fólk, heppin með veður og við eigum svo ótrúlega fallegt land.
Skemmtilegast þótti mér að koma í Eyjafjallastofu sem er ótrúlega skemmtileg og vel upp sett og myndbandið sem maður fær að sjá er svo áhrifaríkt. Mikið upplifelsi að koma þar. Fuglasafnið hans Sigurgeirs á Mývatni er líka frábært, ótrúlega skemmtilega sett upp og flott.
Gestastofan á Þingvöllum kom mér á óvart, þar eru sjónvarpskjáir sem þú getur lesið bókstaflega allt um Þingvelli, virkilega flott, skemmtileg og fróðlegt.

Dettifoss, Hljóðaklettar, Ásbyrgi, bátsferð á Jökulsárlón allt geggjað.

Frábært að sjá Hellisheiðarvirkjun og algjörlega magnað að koma aftur í Blönduvirkjun eftir 20 ár. Hef ekki komið þar síðan virkjunin var tekin í notkun en ég vann á skrifstofunni hjá Landsvirkjun árið 1989-1992.

Frábært að hitta Ingunni Gísla, Guðrúnu og Magnús í Hólmi og Sigurbjörgu Sigurbjörnsdóttur á Egilsstöðum ásamt öllu því skemmtilega fólki sem við hittum.

Það sem mér fannst ekki eins frábært var auðvitað að það var ekki hægt að þverfóta fyrir ferðamönnum, sérstaklega ekki á Suðurlandi og á Mývatni, aðrir staðir voru skárri. Ég veit það á að vera frábært að fá allt þetta fólk en sorry ég er bara ekkert hrifin af því enda er ég bara heima hjá mér á sumrin.
Harpan er forljótt hús, alltof stórt og hrátt og skil bara ekki hvernig hægt var að byggja svona stóran ljótan, illa byggðan kassa......
Róbótafjós er heldur ekki spennandi, vélrænt og óbóndalegt ....... ég ætla ekki að tjá mig um það hér......


Í heildina frábær ferð með frábæru fólki, held ég hafi alveg uppgefið það á þessari dagskrá enda keyrðum við 2.000 mílur eða um 3.220 km sem er nú vel af sér vikið á 2 vikum. Þeim fannst þetta frábært, landið geggjað og allt skemmtilegt sem við fórum, körlunum fannst samt virkjanirnar áhugaverðastar en konunum, landið, loftslagið, litirnir og allt það frábært.
Ég lá í rúminu allan mánudaginn, alveg uppgefin.

Myndir komnar í albúm.


05.09.2012 17:00

"Afmælið"


Eins og allir vita átti ég afmæli, það kom meira segja fram í Mogganum og fór greinilega ekki fram hjá neinum á Blönduósi emoticon

mynd tekin 17. ágúst 2011

Ég er endalaust þakklát, hrærð  og glöð yfir því fólki sem sá um að afmælið varð svo eftirminnilegt og skemmtilegt, það gáfu allir vinnuna sína. Ég er líka endalaust þakklát, hrærð og glöð yfir þeim sem gáfu sér tíma í að koma og njóta dagsins með mér. Það er ómetanlegt að eiga svona dásamlega gott fólk að og mig langar endalaust til að þakka þeim öllum fyrir og mun því knúsa það og kyssa í tíma og ótíma þegar ég sé það :o)

Nema hvað, mig langaði auðvitað að halda upp á afmælið mitt en langaði ekki í hefðbundið afmæli frekar en fyrri daginn, þar sem yrðu endalausar ræður um hvað ég er frábær, ég veit það alveg, það þarf ekkert að segja mér það emoticon.  Ég braut því heilann um það í vor hvernig ég gæti haft það. Það var svo margt sem ég spáði í í vetur þegar Bjartmar var sem oftast á spítalanum hvernig maður forgangsraðar og hvað það er í raun sem skiptir mig máli, þ.e. strákarnir mínir, fjölskylda og vinir. Þetta skiptir mig öllu máli, ekki hvort ég komist í einhverja keppni eða í próf í knapamerkjum eða að komast hitt eða þetta, ekki dót og ekki stórt hús (myndi alveg vilja vera í minna húsi).
Það var því tvennt sem mig langaði að gera, hafa einhverja skemmtun fyrir fjölskyldu mína og vini og afþakka afmælisgjafir.
 
Eftir miklar "pælingar" langaði mig að halda styrktartónleika fyrir Neistann, styrktarfélag hjartveikra barna. Vissi það á eigin skinni, sérstaklega þegar maður er sjálfstæður atvinnurekandi, að það er dýrt að vera með veikt barn heima og fara til útlanda með það og ég veit að það er fullt af fólki sem þarf að fara og vera í lengri tíma með börnin sín og það er kostnaðarsamt.

Það voru 3 manneskjur sem gerðu það að verkum að afmælisskemmtunin varð að veruleika.
Byrjaði á því að koma að máli við góðan vin minn og nágranna Skarpa, Skarphéðinn Einarsson og spurði hann hvort hann gæti sungið nokkur lög fyrir mig í afmælinu mínu því mig langaði að halda styrktartónleika fyrir hjartveik börn, ekki fyrir mig þó það liti auðvitað þannig út þar sem ég væri að fara til útlanda með Bjartmar. Hann sagði strax JÁ. Næst var að tala við vinkonu mína Gullu, Gunnlaugu Kjartansdóttur og spyrja hana hvort hún gæti græjað kjötsúpu í afmælinu mínu og það kom strax JÁ. Síðan talaði ég við vinkonu mína Sillu, Sigurlaugu Markúsdóttur og spurði hana hvort hún gæti hjálað Gullu og það koma líka strax JÁ, svo þá var það allt klárt.

Þar sem mig langaði líka óskaplega mikið til að hafa hesta á þessari skemmtun þá talaði ég auðvitað við krakkana sem voru með mynsturreiðina á æskulýðssýninguna í vor og það var auðsótt mál hjá þeim og foreldrum þeirra. Jóhanna mín besta á Reykjum átti 4 börn, Sólrúnu, Ásdísi, Hákon og Stefán (2 af þeim sem voru í vor komust ekki svo Jóhanna og Grímur auðvitað lánuðu mér öll börnin sín), hin voru Sigurgeir, Harpa Hrönn, Magnea Rut og Sigurður Bjarni.

Þannig að afmælishátíðin var "on" og ég þurfti ekki að gera neitt þar sem aðrir sáu
um það emoticon
Þessu fólki, ásamt Angelu minni bestu Berthold, Bergþóri mínum Gunnarssyni, frábæru tónlistarfólki; Skarphéðinn Einarsson, Benedikt Blöndal, Haukur Ásgeirsson, Guðbjartur Sindri Vilhjálmsson, Anna Sigríður Valgeirsdóttir, Helga Dögg Jónsdóttir, Stefán Ólafsson, Guðmundur Karl Ellertsson, Fannar Viggósson, Þórður Rafn Þórðarson, Magnús Sigurðsson, bræðurnir í Hólabæ Bjarni og Rúnar, Höskuldur Sveinn Björsson, Pálmi Gunnarsson og Friðrik Brynjólfsson, get ég engan vegin þakkað nóg fyrir ótrúlega dásamlega flotta skemmtun og hvað þið lögðuð mikið á ykkur til að gera þennan dag frábæran, tónleikarnir voru 2 tímar af frábærri tónlist og skil ekki hvað við þurfum að draga hingað á Húnavöku einhverja fræga og Vestmannaeyjar hvað, hér eigum við frábæra tónlistarmenn.
Krakkarnir stóðu sig líka glæsilega, fyrst fóru þeir Bjartmar og Hlíðar í þrautabraut og síðan stóru krakkarnir í mynsturreiðinni. Alveg ótrúlega fljót að ná hlutunum og gerðu þetta glæsilega, takk takk fyrir.
Veitingarnar hjá Gullu, Sillu og Angelu voru líka frábærar og allir saddir og glaðir. Takk takk takk.

Ég má heldur ekki gleyma Sigga Jó, Sigurði Jóhannessyni hjá SAH Afurðum fyrir að lána mér eldhúsaðstöðuna þar og ýmislegt sem mig vantaði fékk ég að láni. Vörumiðlun sem lánaði tónlistarmönnunum bílinn og Hödda, Herði Ríkharðssyni, umsjónarmanni Reiðhallarinnar að fá Reiðhöllina lánaða. Algjörlega frábært og kærar þakkir fyrir.

Ég get heldur engan vegin þakkað þeim, sem komu og nutu þessarar frábæru atriða, næganlega fyrir komuna og hve rausnarleg þau voru, því þau gáfu tæplega 300.000 kr. í söfnunina sem er algjörlega dásamlegt. Kærar þakkir fyrir, ég er enn að njóta þessa dags í huganum og mun gera lengi.

Kærar þakkir fyrir mig dásamlega fólk.

Ég skora á ykkur tónlistarfólk að hafa þessa tónleika aftur um jólin, ég skal sko koma (það má samt sleppa 1. laginu emoticon ).
Gulla, Angela og Silla sáu um allt sem heitir matur og fólk.


Skarpi, Benni, Guðbjartur, Rúnar, Höskuldur, Kalli, Anna Sigga, Stefán,
Bjarni, Haukur, Helga Dögg og Þórður.


Benni Blöndal, Bjarni, Anna Sigga, Helga Dögg, Þórður Rafn, Skarpi og Haukur.


Strákarnir í Svörtu sauðunum, Höskuldur, Bjarni, Rúnar, Pálmi og Friðrik.


 Bjartmar og Fagrajörp alltaf flott.


Hlíðar og Skjóni


Krakkarnir í mynsturreiðinni,
Stefán, Sigurgeir, Sólrún, Magnea, Ásdís, Harpa Hrönn, Hákon og Sigurður Bjarni.


Dagurinn var sko aldeilis ekki búinn, þegar við vorum búin að ganga frá stormuðum við fjölskyldan, þ.e. ég, systkini mín, mamma, Maggi og fjölskyldur okkar í Þingeyrar og grilluðum og höfðum það ofboðslega skemmtilegt. Það er svo gaman að geta komið saman og notið samverustundarinnar.


Ótrúlegt en það er mynd af mér, takk sætusaumósystur fyrir flotta úrið


strákarnir að grilla, Albert, Gummi, Óskar, Höskuldur og Sibbi á bakvið....


og kisa var vinsæl, Helga Guðrún, Þórdís, Steinar, Bjartmar og Elvar.


Þannig að dagurinn var ógleymanlegur og algjörlega frábær í alla staði, takk endalaust fyrir mig.

Myndir eru komnar í myndaalbúm.03.09.2012 19:35

Fótbolti og hestaferð um miðjan ágústLoksins fótboltaleikur sem Bjartmar komst á, en Króksmótið var laugardaginn 11. ág og við fórum auðvitað á það, mikil og góð stemming, bæði hjá liðinu og þeim sem fylgdu með :o)Hin árlega hestaferð sem vera átti á Suðurlandi í 3 daga smækkaði aðeins og var 1 dag heima í héraði.
Veðrið var fúlt svo það endaði með því að við fórum 12. ágúst kringum Hópið sem var alveg frábært.

Á sunnudeginum fóru þeir feðgar á Sauðárkrók en ég tók hestana frá Þingeyrum að Sveinsstöðum þar sem lagt var upp.Mjög svo skemmtileg leið, veðrið var frábært og félagsskapurinn alltaf jafnskemmtilegur.


Myndir í albúmi.

  • 1
Flettingar í dag: 334
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 641608
Samtals gestir: 98128
Tölur uppfærðar: 23.2.2018 09:57:59

Tenglar