Í fréttum er þetta helst....

Færslur: 2011 Október

31.10.2011 11:00

Ups & downs


Svolítið mikið ups and downs hér á bæ, byrja nú á ferðalagi Bjartmars á sjúkrahús til Reykjavíkur aðfaranótt laugardagsins 22. október. Beggi hringir um 3 leytið og segir að Bjartmar sé kominn með hraðtakt. Ég hendist yfir á náttbuxunum og hlusta hjartað og það var greinilegt alveg á skrilljón. Hann hringir á sjúkrahúsið og lendir á Akureyri sem hringir í lækninn á Blönduósi og læknirinn á Blönduósi hringir í Begga, þvílík leið.... jæja við niðureftir og takturinn yfir 200 svo í sjúkrabíl suður, þ.e. B-in fóru með bílnum. Ég fór heim skipti um föt, náði í Sigurgeir og við suður á bílnum mínum þar sem ég vildi ekki verða aftur bíllaus í Reykjavík.
Þeir voru komnir uppúr 6 á Lansann og honum gefið lyf sem átti að lækka taktinn en það var nú bara tímaeyðsla, hringt í hjartalækninn og hann var kominn upp úr 7, þá vorum við Sigurgeir löngu komin og Bjartmar var svæfður og stuðaður til að koma hjartslættinum sem stóð í 210 allan tímann í réttan takt. Það hafðist í 4 stuði. EKKI GOTT. Bjartmar var sprækur sem lækur, eins og hann sagði þegar hann vaknaði og við vorum fram yfir hádegi á spítalanum en fórum þá heim.
Vá hvað ég var þreytt marga daga á eftir. Við eigum tíma hjá Hróðmari 3. nóv. og fáum þá væntanlega að vita eitthvað meira um þetta mál þá.

Fór í Miðhús á miðvikudag að hjálpa við að ómskoða lömbin, þau komu mjög vel út miðað við að langt er liðið á haustið og þau kannski ekki eins góð eins og fyrir mánuði eða svo. Gimbrarnar hans Eiðs komu vel út og voru auðvitað settar á, það var svo sem aldrei spurning :)Um helgina fórum við saumósystur í Flóðvang og höfðum það ofboðslega notalegt og kósí. Borðuðum og prjónuðum allan daginn og langt fram á nótt og nutum þess að vera í rólegheitum og spjalla. Frábært og takk takk fyrir skemmtilega helgi (myndir í albúmi).
Það er svolítið mikið tómlegt hérna í húsinu en hún Salka kellingin fór til feðra sinna á föstudag og var jörðuð fram í Miðhúsum í gær á Lækjarbakkanum við hliðina á Trýnu gömlu. Það er því mikil sorg búin að vera hér og verður áfram.


20.10.2011 08:45

Leti


Það kallast nú bara leti að skrifa ekki eitthvað hér inn, svo sem nóg að gera þ.e. í öðru en í kennslunni.
Fyrst að kindum, er búin að fara nokkuð víða að stússast í kindum, alltaf gaman að komast í það. Fer í Miðhús á morgun þar sem það á að skoða lömbin og það verður gaman að fylgjast með því. Ætli kindastússi mínu sé þá ekki lokið þetta haustið þar sem Eiður verður búinn í fjárkeyrslunni eftir viku og verður þá eitthvað heima.

Af hestum er það að frétta að ég fór með Hyllingu til Vita frá Kagaðarhóli í byrjun september þar sem hún kom geld frá Gammi, var búin að vera hjá honum síðan í byrjun júní og mér ekkert sérstaklega skemmt yfir því þannig að hún fékk að fara til Vita í Kagaðarhól og viti menn, sótti hana sl. helgi, 15. okt, og þá var hún sónuð með 3 vikna fyli. Frábært, ég fæ þá gæðing í afmælisgjöf næsta ár emoticon

Drógum undan hestunum og ég fór með þá í hagagöngu fram í Vatnsdal, þar verða þeir fram til áramóta þegar við tökum þá alla inn aftur. Það hefði verið ágætt að eiga 5 hesta kerru sl. helgi þá hefði ég ekki þurft að fara 4 ferðir fram eftir en hafði svo sem ekkert annað að gera.

Snævar Njáll frændi, Dad Rocks!
var að spila á Iceland Airwaves tónleikunum og það var glæsilegt hjá honum, hefð alveg viljað skreppa en nennti því ekki þar sem flestir tónleikar eru bara hálftíma. Hlýtur að koma aftur og spila á Blönduósi.
En það kom frétt á
Vísi um tónleikana hans og auðvitað á Húnahorninu
og á Rjóminn.  Hér er Weapons með honum og svo bara "gúggla" hannemoticon  


04.10.2011 08:07

Afmælisprins


Ekki mikið um afmælisdýrðir á 14 ára afmælisdegi stærri prinsins míns á sunnudaginn. Við vorum samt svo heppin að fá yndislega vini okkar úr Hveragerði í heimsókn og þau fengu kökur. Frábært að fá þau í smá kaffi, takk takk fyrir að gefa ykkur tíma :)

Nú dagurinn snerist auðvitað um hross, við slepptum tryppunum. Þau voru búin að vera inni í viku og Tígull orðinn svo spakur og góður og teymist um allt svo það var um að gera að koma honum í sveitina aftur.
Afmælisprinsinn, sæti, besti og Tígull.Komum við í Miðhúsum á leiðinni heim og fengum "afmæliskaffi" þar. Bara frábært.

Nú í síðustu viku fékk ég sms frá Eið hvort ég vildi koma með honum í Dýrafjörðinn. Ég júhú það vildi ég, vissi nú eiginlega ekki hver af öllum fjörðum væri Dýrafjörður.
Fórum eldsnemma á þriðjudagsmorgni og veðrið var algjörlega dásamlegt.

Nú ég fékk að keyra, hef ekki keyrt vörubíl í 15 ár en þetta er nú svo sem ekki flókið og það er ekki mikil umferðin á Vestfjörðum.


Ég keyrði allt Djúpið á leiðinni vestur og aðeins styttra á leiðinni heim, leist t.d. ekkert rosalega vel á að keyra einbreitt malbik með fullfermi svo ég slapp við það.

Ofboðslega fallegt í Dýrafirðinum, Þingeyri er sem sagt við Dýrafjörðinn emoticon
Á Mýrum þar sem við tókum fé og hittum yndislegt fólk.

 
Vegirnir á Ströndum og Vestfjörðum eru hins vegar ekkert til að hrópa húrra yfir og það er árið 2011. Það eru ennþá malarvegir og þar að leiðandi einbreiðar brýr og blindhæðir


og fáránlegar aðkeyrslur.....


og svo eru líka kaflar með einbreiðu ömurlegu malbiki sem er ekki einu sinni vegur, miklu verri en malarvegirnir. Ótrúlegt að fólk fái ekki mannsæmandi vegi.

Ferðin var frábær og virkilega gaman að koma á Vestfirðina þó það væri stutt stopp. Veðrið á leiðinni vestur var frábært og haustlitirnir eftir því. Takk Eiður minn "litli bró" að taka mig með. Það var magnað.
  • 1
Flettingar í dag: 334
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 641608
Samtals gestir: 98128
Tölur uppfærðar: 23.2.2018 09:57:59

Tenglar