Í fréttum er þetta helst....

Færslur: 2010 Apríl

30.04.2010 20:56

Apríl 2010

April 27, 2010

Sitt lítið af hverju

Jæja hér streymir hver dagur fram hjá, eins og áður og ég ekkert að standa mig í þessu .....

Það er eitthvað svo ansi margt núna...

Æta samt að byrja á flottu strákunum mínum sem stóðu sig svo vel á sumarskemmtun Grunnskólans en eins og alltaf þá er hér skemmtun á sumardaginn fyrsta og krakkarnir í 1. - 7. bekk sjá um heimatilbúin skemmtiatriði.
Bjartmar og hans bekkur fóru með Guttavísur og voru svo flott. Hann söng þetta hástöfum fyrir kallana í knapamerkjunum á miðvikudagskvöldinu og fór létt með það. Ég man aldrei nema fyrsta erindið.
Hér eru þau öll :o)

Krakkarnir í Sigurgeirs bekk tóku nokkur vel valin atriði úr skólalífinu og voru ótrúlega flott, svo gaman að sjá hvað þeim dettur í hug að búa til og gera.

Nú ég mætti á skemmtunina í nýjustu afurð Fanneyjar systur minnar, hún er snillingur í prjóni. Hún mætti hingað með þennan kjól um daginn og spurði hvort ég gæti notað hann, ég hélt það, hún hélt kannski að ég vildi annan lit (tekur greinilega enga stund að prjóna annan) en ég hélt ekki, hvítur er svo sem ekki uppáhaldsliturinn minn en je minn þvílíkur kjóll :o) Takk Fanney besta systir :o)

Nú ég held svei mér þá að annað snúist algjörlega um hesta, ég má bara alls ekki vera að því að vinna fyrir mér lengur þar sem annaðhvort er ég á námskeiði eða strákarnir, knapamerkjapróf, skipulag, bréfaskriftir, fundir, sími og annað sem viðkemur hestum.....

Kallarnir í knapamerkjunum fóru í próf 21. apríl og það gekk glymrandi vel. Allir glaðir (sjá www.neisti.net) og virkilega gaman. Þá eru 20 manns búin að taka próf, 10 konur og 10 karlar. Spurning um að hafa keppni milli kvenna og karla ......

Fór á sýninguna Fákar og fjör á Sauðárkróki og varð svo sem ekkert rosalega hrifin, finnst eins og ég sé búin að sjá þetta 100 sinnum alltaf sama fólkið og hestarnir, spurning af hverju ég var þá að fara....

Dívurnar úr V.-Hún standa alltaf fyrir sínu, ótrúlega flott atriði og búningar, hraði, mýkt, frábærlega útfært og bara gaman að horfa á þær þó ég sjái þær á hverju ári og oft á ári.

En Æskan og hesturinn er um næstu helgi á Sauðárkróki og það er mæting þar, æfingar hjá krökkunum á miðvikudag og fimmtudag. Vonandi verður veðrið gott, það verður allt svo erfitt eins og við vitum ef veðrið er ekki gott en þetta verður bara gaman. Þá held ég að sýningahaldi vetrarins sé lokið og það er í sjálfu sér ágætt, það tekur bara eitthvað annað við :o)

Nú svo má nú ekki gleyma honum Brún litla sem fæddist í gær.
Það var mail frá Gunnari í gærmorgun;
"hver er nú hlaupandi um túnið kl 7 á mánudagsmorgni í glampandi sól og logni?
- einhver sem ég sá ekki í gær."
Við Bjartmar drifum okkur frameftir eftir skólann hans, Sigurgeir valdi að vera heima í vatnsbyssuslag. Á leiðinni var ég að hugsa um að skíra "hana" Sóldísi af því á mailinu stóð "sólin".

En, sem sagt, Hylling sem er bleikálótt átti "bara" brúnan hest. Pabbin Glymur frá Innri Skeljabrekku er sko flottastur "ever" og er móvindóttur en á vef Eiðfaxa fann ég;

Litur afkvæma

Vindóttur/mó 33.33%
Aðrir litir 21.00%
Brúnn/milli- 15.25%
Rauður/milli- 14.12%
Vindóttur/jarp- 9.04%
Rauður/ljós- 7.34%

sko brúnn var nú ekki alveg á óskalistanum en flottur er hann samt :o)

Hér er hann með mömmu sinni....

og svo er hann svo mikið krútt :o)


Posted by Selma at 09:48 PM | Comments (2)

April 17, 2010

B-in suður

Já já Bjartmar fékk enn einn hraðtaktinn, eins gott að maður er bara heima hjá sér á kvöldin.

Er eitthvað að dunda við að setja myndir inná Neistasíðuna á miðvikudagskvölið þegar ég heyri að Bjartmar er kominn fram á gang og bullar einhverja vitleysu. Hann vaknar aldrei á kvöldin og fer þaðan að síður fram á gang. Fer til hans og hann fer á klósettið og ég mátti ekki halda á honum fyrr en hann fer aftur uppí rúm sem ég og geri og finnst hann fullkaldur. Fer og næ í mælinn og mæli hann og þá er hann í 175. Hringi í Begga sem kemur og fer með hann uppá sjúkrahús þar sem tekið er hjartalínurit, alltaf að taka línurit segir Hróðmar. Gefum honum hjartapillu sem við héldum auðvitað að myndi slá á þennan hraðtakt en nei ekkert gerist og læknirinn sagði suður með hann ef ekkert myndi gerast. Þeir fóru suður, ekki hægt að skilja Sigurgeir einan eftir heima. Takturinn hafði ekkert lækkað á leiðinni og var kominn yfir 200 þegar suður var komið. Fékk súrefni þar og þurfti svo mikið að gubba af því að hann rembist svo mikið að þá fór takturinn niður. Þeir hittu svo Hróðmar á fimmtudagsmorgunn og nú á að fara að gera eitthvað.......

Og nú er Bjartmar bara sprækur sem lækur :o)

Af öðru þá gekk æskulýðssýningin snilldarvel, það var frábærlega gaman og flott sýning og allir voru ánægðir. Fullt af myndum eru á myndaalbúmi Neista.

Bjartmar trúður, litlu krakkarnir voru trúðar :o)

Sigurgeir, kúreki, í sveiflu :o)

Ég fór í próf í Knapamerki 1. stig á mánudagskvöldið og það gekk bara vel, við voru 13 sem fórum í próf og öllum gekk bara vel. Voðalega gaman.

Nokkrir í próf hjá mér á miðvikudag og þau gengu vel, á fimmtudag var sprungið á mér svo ég gerði bara ekki neitt.....

Posted by Selma at 09:06 AM | Comments (0)

April 09, 2010

Gærdagurinn

Gærdagurinn var langur sem endranær þegar sýning er framundan og var á þá leið að Bjartmar var á æfingu kl. 17.30 til 18.30 og svo var Sigurgeir á æfingu frá 19.30 til 20.30 og ég var í bóklegu prófi í knapamerki 1 kl. 19.30 og er að fara í verklegt próf í því á mánudaginn.
Á morgun er svo æskulýðssýning Hestamannafélagins Neista og þar taka um 40 börn þátt. Rosalega gaman að undirbúa það. Nokkrar myndir sem ég tók eru á myndaalbúmi Neistasíðunnar.

Posted by Selma at 02:32 PM | Comments (0)

Óboðinn

Þessi gerði sér lítið fyrir og bauð sjálfum sér sæti fyrir páska við litla hrifningu mína...

en strákarnir fóru út og fluttu hann í snjóhús....

og voru úti að færa til snjó í marga klukkutíma og komu rennblautir inn.

Við fórum og æfðum okkur berbakt á Hrók og Fögrujörp. Rosalega gaman og Bjartmar fór síðan í hnakk og reið tölt og brokk á honum eins og ekkert væri...Bjartmar fékk Hrók lánaðan til að vera á sýningunni sem er á laugardaginn og einnig til að fara með á sýninguna Æskan og hesturinn sem verður á laugardaginn 1. maí á Sauðárkróki.

Annars voru páskarnir bara SNJÓR og leti, varla hægt að fara út úr húsi fyrir snjó nema bara uppí hesthús :o)

Bræður í rólegheitum eftir páskaeggjaát :o)

Bjartmar með flotta hattinn sinn sem hann fékk í happdrætti á Húnavöllum.

Posted by Selma at 09:11 AM | Comments (0)

April 01, 2010

Hlökk komin inn

Veit einhver hvert tíminn fer, hann fer allavega framhjá mér einhvern veginn.......

Alltaf nóg að gera greinilega. Ég er enn að að jafna mig á prinsessuhelginni í Hestheimum, held við stelpurnar í Knapamerki 1, mínum hóp, séum næstum því búnar að ákveða að fara bara næsta vetur eina helgi, þetta var svo frábært :o)
Knapamerkjapróf framundan svo það er eins gott að fara að æfa sig til að hafa þetta allt á hreinu, kannski maður komist eitthvað á hestbak um páskana, ekki fer ég á skíði allavega....

Um síðustu helgi, á laugardaginn, fórum við og náðum í Hlökk til Angelu, ætlaði að vera búin að ná i hana fyrir löngu en beið greinilega eftir því að Beggi væri búinn að koma flottu nýju fínu kerrunni sinni á götuna :o)

og hér erum við komnar heim í hesthús.....

hún fékk að sjálfsögðu svítu fulla af sagi og hálmi og strákarnir eru búnir að vera að klippa hana og kemba alla vikuna :o)

Á laugardagskvöldið fór ég á Ræktun 2010 á Sauðárkróki því þar var Hátíð mín í atriði. Sigurður Rúnar Pálsson var á henni og voru þau bara flott. Gaman að sjá hve mikið hún hefur breyst á þessum mánuði sem hún er búin að vera á Flugumýri hjá Páli Bjarka, hann segir að hún eigi bara eftir að bæta sig helling :o)

Ég fór að knúsa hana eftir sýningu og það var auðvitað bara dásamlegt...

Æfingar fyrir æskulýðssýninguna hjá Neista eru byrjaðar og í nógu að snúast þar. Er bara gaman að sjá og fylgjast með þessu öllu en það eru um 40 börn sem taka þátt. Svo gaman :o)

Ég ætla sko að vera heima um páskana með tærnar uppí loft ......


  • 1
Flettingar í dag: 334
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 641608
Samtals gestir: 98128
Tölur uppfærðar: 23.2.2018 09:57:59

Tenglar