Í fréttum er þetta helst....

Færslur: 2009 Desember

26.12.2009 22:14

Desember 2009

December 25, 2009

Jólakortin rafræn í ár

Ætlaði nú að vera búin að skrifa hér fyrir löngu en það er svo margt annað sem gera þarf.

Byrja á jólakortnum. Mikið búin að velta fyrir mér núna fyrir jólin þetta með jólakortin. Af hverju senda jólakort með póstinum þar sem flestir eru alltaf í tölvunni hvort sem er og maður hittir marga daglega á fésinu og sér allar myndir af börnunum þar, meira segja löngu áður en þau eru fædd...... Skiptir nokkru máli að fá kveðju í gegnum tölvupóst eða í umslagi sem dettur inn um lúguna hjá manni. Ég get alveg prentað út það sem kemur í tövupóstinn minn :o)
Mér finnst eins og hér áður fyrr hafi maður verið að senda jólakort þar sem maður hitti fólk ekki eins oft. Jæja nema hvað ég ákvað að senda jólakortin rafrænt og styrkja frekar eitthvað gott málefni. Var fyrir löngu búin að ákveða að styrkja Þuríði Hörpu og ákvað svo að styrkja Matthildi litlu líka.
Í gær þegar ég las jólakortin mín sem mér fannst æðislegt að fá, hugsaði ég mikið er nú gaman að sitja hérna í sófanum og lesa þessi kort og skoða myndirnar en ég er samt afar stolt að hafa tekið þá ákvörðun að hafa styrkt þessa tvo sterku einstaklinga og lagt mitt af mörkum. Baráttukveðjur til þeirra beggja.

En að örðu....
....um síðustu helgi fórum við strákarnir auðvitað í jólatrjáaleiðangurinn okkar í Gunnfríðastaðaskóg að "höggva" jólatré. Notuðum reyndar sagir og það tók næstum allan daginn enda þurftu þeir báðir að saga og svo tókum við tré fyrir Begga líka þar sem hann var á vakt á sjúkrabílnum og komst ekki frá.
Hér er sagað......

við völdum okkur blágreni að þessu sinni þar sem okkur þótti furan alltaf stór og ekki vildum við saga ofan af þessum stóru og fallegu trjám. Hér rogumst við með tréin í pökkun til hans Páls Ingþórs....

Á sunnudag heimsótti ég góða vinkonu mína sem ég hef ekki heimsótt lengi og hvað það var yndislegt og alltaf hugsar maður af hverju fer maður ekki oftar í heimsókn það er svo frábært að heimasækja vini sína. En það er líka frábært að þegar maður fer loksins í heimsókn þá er eins og maður hafi verið þar skömmu áður af því það skiptir ekki máli hvort maður kemur vikulega eða árlega vinir eru alltaf vinir manns. Ég var svo glöð að hafa drifið mig og átti frábæra stund og strákarnir spurðu, hvenær förum við aftur til Þórunnar og Bigga :o)
Takk takk fyrir okkur.

Nú Sigurgeir spilaði með Lúðrasveitinni í Samkaup á Þorláksmessu og það var flott hjá þeim.
Tréið okkar var skreytt á þorláksmessukvöld......

og svo var afar notalegur dagur í gær, bara kósý og krúttlegt allt saman......
þeir bræður afar ánægðir með allt sem þeir fengu.....

og svo spiluðu þeir feðgar.....

og við Bjartmar púsluðum 260 kubba spili, sem hann fékk frá ömmu sinni, eins og ekkert væri :o)

Posted by Selma at 09:13 PM | Comments (0)

December 24, 2009

Gleðileg jól

Okkar allra bestu óskir um gleðileg jól
og hafið það sem allra best.

Posted by Selma at 12:54 PM | Comments (0)

December 14, 2009

Jóla jóla

Fyrstu jólin í nýju húsi en er nú samt ekkert að missa mig í jólastússi. Ég er sem betur fer ekki föst í einhverjum hefðum sem ekki má breyta en er þó með tvennt sem mér þykir afar vænt um og set alltaf upp einhvers staðar á góðum stað. Annars vegar er það stjarna sem ég keypti þegar ég vann uppí Blönduvirkjun. Þar var skagfirðingur sem bjó þessar stjörnur til og seldi, ég keypti auðvitað eina. Hún hefur fylgt mér í öll hús (sem eru nú ekki fá) síðan 1990 svo hún er að verða 20 ára, hef bara einu sinni skipt um seríu í henni....

Hins vegar er það þessi jólafjölskylda sem Vigdísi á Hofi bróderaði og gaf mér fyrir u.þ.b. 20 árum. Eiginlega er þetta það jólalegasta sem ég hef eignast um ævina. Bara flottast og þykir mér afar vænt um þessa fjölskyldu og passa vel uppá hana eins og stjörnuna.


Nú ég fékk þá flugu í hausinn um daginn að kaupa bara filmu í eldhúsgluggana og sleppa þessu gardínudóti sem byrgir alla glugga. Fékk stráin hennar ömmu sem Guðrún Lilja frænka mín allra besta hannaði og setti í gluggana hjá sér, reyndar er blásið gler hjá henni en alls ekki filma. Ætla ekki að hæla uppsetningunni enda varð hún mjög flókin fyrir mig, stráin fuku auðvitað út í veður og vind og ætlaði ég aldrei að koma þeim í gluggan og er þar að leiðandi ekkert svakalega sátt við útkomuna en hún dugar eitthvað, spurning um að fá frekar blásið gler einhvern tíman í framtíðinni :o)
En flott eru stráin hjá henni Guðrúnu. Amma elskaði þessi strá og það gerum við Guðrún líka :o)

Guðrún er algjör snillingur, það sem henni dettur í hug framkvæmir hún. Fékk hjá henni um daginn einiberjalyng og bláberjalyng til að senda í útlandið. Endilega kíkið á þessa síðu. Algjör snilld.

Nú önnur síða sem er algjörlega búin að bjarga jólunum eru prjónaðar jólakúlur. Haldiði ekki að ég sé að dunda við að prjóna slíkar, mamma fær eina eða tvær í ár. Algjörlega frábærar og gaman að prjóna :o)

Ótrúlegt hvað rennur út úr höfðinu og höndunum á sumu fólki :o)

Posted by Selma at 08:35 PM | Comments (0)

December 10, 2009

Áfram með Reykjavíkurferðina.......

Svo ég haldi nú áfram með Reykjavíkurferðina þá komu strákarnir suður á laugardag með pabba sínum og ég aulaðist í búðir með þeim, eitthvað lítið til af betri fötum á þá. Ekki að mig hafi langað til að vera í búðum því það er nú bara eitt af því leiðinlegasta sem ég geri tala nú ekki um þegar allir ákveða að fara sama daginn ......
Búðaráp gekk ágætlega en við Bjartmar fórum nú heim til mömmu þegar búið var að finna föt á þá, hinir fóru eitthvað......

Á sunnudag bauð Gummi bróðir til veislu. Kallinn varð fimmtugur og hélt smá teiti í Kefas kirkjunni. Fórum fyrst í messu og svo var matur og tertur á eftir. Svo notalegt og flott hjá kallinum, takk takk fyrir okkur.
Hér er hann, Ólöf, Jóhann, Sibbi og Þórdís og Hulda.

Ég keyrði svo heim á sunnudagskvöld, gott að hafa krús á bílnum.
Var í sófanum mestallan mánudaginn :o)
Á þriðjudag voru svo jólatónleikarnir hjá Tónlistarskólanum sem voru skemmtilegir að vanda.
Bjartmar og Björn Ívar spiluðu á blokkflauturnar sínar og það var svo flott og skemmtilegt hjá þeim. Gaman að sjá svona litla polla spila á hljóðfæri.

Sigurgeir spilaði með sinni hljómsveit .....

Í gær var ég á Króknum að kenna og svo var próf og það gekk auðvitað glimrandi vel :O)

Hnéið alveg ótrúlega mikið betra svo kannski ég fari bara í að taka til............

Posted by Selma at 08:46 AM | Comments (0)

December 08, 2009

Nýtti tímann vel í R.

Veit ekki alveg hvernig ég hugsaði mér mig eftir þessa hnéaðgerð, held endilega að ég hafi misskilið eitthvað einhvers staðar. Ég held ég hafi haldið að ég myndi bara hlaupa um eftir þetta en það er morgunljóst að það geri ég alls ekki. Eitt gott við þetta að maður hefur löglega afsökun á öllu draslinu út um allt hús :o)
Aðgerðin gekk vel, það var rétt sem læknirinn hélt að þetta væri, rifinn liðþófi og hann var lagaður. Ég fékk þessa súperþjónustu í Reykjavík. Jóhanna mágkona mín keyrði mér í aðgerð og Albert bróðir náði í mig úr aðgerð og svo var ég bara á Hótel Mömmu og lá þar flöt í 2 daga. Sá að það sama gerðist hjá henni og hér heima þegar strákarnir kalla: mamma..... þá hleyp ég :o) þetta endar sem sagt ekki við einhvern ákveðinn aldur :o)

Þar sem læknirinn sagði að ég gæti keyrt eftir 2 daga gerði ég það bara og fór á Skrikvagnakynningu hjá Ökukennarafélaginu.


Loksins loksins loksins er að koma upp ökugerði hér á landi og er það samstarf Ökukennarafélagsins og Forvarnarhúss og verður það á Kirkjusandi.
Nú eftir áramótin taka nýjar reglur um ökunám en þeir sem hefja ökunám 01.01.2010 skulu sækja sérstakt nám í ökugerði og er þessi námsþáttur kallaður áhættuvarnarakstur. Með þeim búnaði sem settur er undir bílinn er hægt að stjórna því hversu gott veggrip bíllinn hefur og hægt að lýkja við aðstæðum svo sem eins og hálkuakstri eða aðstæðum þar sem bíllinn getur misst veggripið svo sem þegar bílnum er ekið of hratt í beygju. Búið er að kaupa tvo skrikvagna sem eru þessir bílar að oafn og er ætlunin að vera með færanlegt forvarnahús og skrikvagn og bjóða upp á þennan námsþátt sem víðast um landið.
Eitthvað sem ég vildi að hefði komið fyrir löngu en ég fór sem sagt og kynnti mér þetta á föstudaginn ásamt öðrum ökukennurum og fórum við í æfingaakstur á skrikvagni, nema ég fylgdist bara með hinum og síðan fórum við uppí forvarnahús og sáum búnaðinn þar.
Við Heiða að fylgjast með....

Hákoni að reyna að setja rétta kubba á rétta staði með áfengisgleraugum. Ótrúlegt að sjá breytinguna á honum þegar hann var með þessi gleraugu.

Stal þessum myndum af heimasíðunni hans Grétar, Ekill.is og endilega kíkið á myndirnar þar. Takk Grétar :o)

Um afmælið hans Gumma og tónleika kemur á morgun.

  • 1
Flettingar í dag: 334
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 641608
Samtals gestir: 98128
Tölur uppfærðar: 23.2.2018 09:57:59

Tenglar