Í fréttum er þetta helst....

Færslur: 2009 Október

31.10.2009 22:11

Október 2009

October 27, 2009

Svartir ruslapokar

Var að velta fyrir mér hvernig allir svörtu ruslapokarnir hefðu litið út eftir ferðina vestur. Ætli þeir komist aftur heim heilir og höldnu....
Einu sinni sagði rútubílstjóri mér að þeir væru frekar leiðinlegir niðrí farangursrýminu. Þeir væru oft götóttir eftir töskuhnjaksið þegar þeir kæmu út.

En allavega greinilega ekkert að gerast hér. Einhvern vegin finnst mér alltaf vera mánudagur og svo föstudagur og ég hef ekki hugmynd um það hvað verður um tímann.
Sigurgeir er í skólabúðum á Reykjaskóla og þau áttu að vera á Efstu-vistinni. Minnir mig á gamla misgóða daga en það var vetur nr. 2 sem ég var þar með Gunnu vinkonu minni. Líður samt þannig að ég hafi ekki verið í klíkum skólans, þótti fremur lummó á yngri árum og hvorki reykti né drakk sem ég geri ekki enn sem betur fer. Flutti af Sundlaugarvistinni (fyrsti veturinn) yfir á Vesturvistina fyrstu vikuna og fékk inni hjá vinkonu minni Möggu Jakobs sem hefur verið vinkona mín æ síðan. Síðasta veturinn (vetur 3) var ég svo á Sundlaugarvistinni með áðurnefndri Gunnu og Ernu Hreins á herbergi og það var frábær vetur.

En þetta var útúrdúr..........

Ég fór á Akureyri í síðustu viku og kenni næstum því öllum krökkunum mínum sem eru þar. Gisti meira segja hjá Jóhönnu og Valla og það var yndislegt, sem og kenna krökkunum. Hitti Börn ökukennara í kaffi á Brúnni eins og næstum því alltaf þegar ég fer til Akureyar. Frábært.

Fórum í afmæli til Arnheiðar (20 ára) og Hilmars (10 ára) á Eyvindarstöðum á sunnudaginn og það var æðislegt. Horfði á restina af leiknum Liverpool og Man. United með krökkunum og fannst það eiginlega rosalega gott á Man. United að tapa. Finnst þeir eitthvað svo montnir, held sko alls ekki með þeim, ef ég héldi með einhverjum þá er það Arsenal síðan einhvern tímann í denn af því mér fannst það svo flott nafn.

Bjartmar á að mæta hjá Hróðmari á föstudag svo við skjótumst suður, stoppum bara stutt, helst að losna við að fá svínaflensuna.......

Posted by Selma at 09:32 PM | Comments (0)

October 18, 2009

Handavinnuhelgin mikla

Já handavinnan felst í sláturgerð :) og nú er frystikistan full af slátri.Ótrúlegt en satt þá finnst strákunum (og mér) slátur ofboðslega gott og ég hefði það oftar í matinn ef ég myndi eftir því á miðjum degi að ég ætlaði að hafa slátur í matinn.

Talandi um slátur þá skil ég engan veginn þessa langflutninga á grey lömbunum til þess eins að vera drepin og étin.
Er það virkilega hagkvæmt að keyra bíla héðan vestur og austur alla daga eftir lömbum. Hefði haldið það í þessari hagræðingu allri og umhverfisvænu tali þá væri það ekki mjög gáfulegt að keyra alla leið á Vestfirði dag eftir dag eftir þessum greyjum og láta þau standa marga klukkutíma á bíl. Tveggja til þriggja hæða bílar bruna hér fram og aftur allt haustið fullir af fé. Sé þessa hræðilegu 3ja hæða bíla úr Skagafirðinum og hugsa alltaf hvað skildu þessi grey lömb vera búin að vera lengi á bílnum. Eiður bró, sem er með 2ja hæða bíl, var t.d. að fara alla leið á Suðurlandið, sem er miklu styttra en á Vestfirðina, í dag að ná í fé til að fara með í sláturhúsið á Blönduósi. Er ekki sláturhús á Selfossi. Væri ekki bara gáfulegt hjá þessum bændum að slátra bara í sinni heimabyggð. Á Vestfjörðum er að vísu búið að loka öllum sláturhúsum en ég held svei mér þá að það væri samt common sens að opna þau aftur þannig að það sé ekki verið að keyra með þessi grey langar leiðir, ég tala nú ekki um olíueyðsluna alla og umhverfismengunina. Þetta er reyndar búið að vera svona keyrsla í mörg ár og MÉR hefur alltaf þótt þetta fáránleg vitleysa. Minnir mig á það þegar hross voru flutt til Belgíu til þess eins að vera drepin þar.

En allavega er ég búin að gera slátur úr grey lömbunum sem ferðust langar leiðir til þess eins að ég gæti borðað þau :/

Bíllinn minn er að fara enn og aftur í viðgerð í fyrramálið. Nú er það tímareimin en hann er búinn að fara í tvær rúðuskiptingar á þessu ári, ný kúpling og mótorfestingar og auðvitað fullt af smuri. Svo nú hlýtur hann að vera sem nýr og ég get farið á Akureyri á miðvikudaginn að kenna :o)

Posted by Selma at 08:27 PM | Comments (2)

October 13, 2009

1.027 km

Jáms skrapp aðeins 1.027 km laugardag og sunnudag. Þar sem ég komst ekki til Vestmannaeyja á Landsmót Lúðrasveita þá dreif ég
mig í Landeyjarnar svo ég sæi allavega Eyjar :)
Fór í Sperðil til Þrastar og Ingu og sá þar alveg aldeilis svakalega flottan
hund, Arnarstaða Ask.....

Askur er undan Kolgrími sem var undan henni Trýnu minni heitinni sem er albesti hundur sem ég hef átt og kynnst. Mikið vildi ég eignast aðra eins Trýnu einhvern tímann. Kolgrímur lék í músamyndinni ef þið munið eftir henni.
Þorri er líka undan áðurnefndri Trýnu og á heima í henni Ameríku og var að gera það gott á sýningu þar.

Þetta er sem sagt þegar ég fer í hundana........

Sá líka fullt af fuglum í túni þar, held bændur hér yrðu ekkert rosalega glaðir ef allir þessir fuglar lægju í túnunum þeirra....


Kom við á Selfossi og sá litla sæta frænda minn hjá Erlu Rut og Ásgeiri. Svo óskaplega fallegur lítill prins. Innilega til hamingju aftur.

Posted by Selma at 08:19 PM | Comments (1)

October 09, 2009

Fyrsta, eina og síðasta

Já fyrsta, eina og allra síðasta móthjólapróf ársins var sl. miðvikudag í 0 gráðu hita. Ekki beint spennandi en við Hafdís ætluðum sko báðar að klára þetta þennan dag og það tókst með glæsibrag hjá henni. Ég gerði svo sem ekki neitt nema að keyra á eftir henni og hafa áhyggjur af því að hún væri að drepast úr kulda.
Með þessu prófi líkur mótorhjólakennslu minni sem og prófum því ég seldi mótorhjólið mitt og keypti mér hesthúsbíl í staðin. Ekki húsbíl heldur stationbíl sem má verða drullugur og ég þarf ekki að hafa áhyggjur af hestalykt eða hárum eða skít og get tekið Sölku í skottið :) Var orðin svolítið leið á því sl. vetur að þrífa bílinn eftir hesthúsferðir og fyrir ökukennslu. Fer einhvern veginn ekki saman. Svo nú á ég tvo bíla....

Stefnan var Landsmót Lúðrasveita um helgina í Vestmannaeyjum en því var sem betur fer frestað og verður í vor. Voru samt miklar vangaveltur í skólastjóra og fararstjórum á miðvikudagskvöld hvað ætti að gera en við ákváðum að fara ekkert og svo kom auðvitað á daginn að Vestmannaeyingar frestuðu mótinu og Herjólfur fer hvergi enda snarvitlaust veður.
Best að vera heima undir sæng í svona veðri :)

Posted by Selma at 11:06 AM | Comments (0)

October 05, 2009

Takk fyrir

Ég var eitthvað svo utan við mig um helgina að ég gleymdi að þakka ykkur fyrir kæru vinir að fylgjast með okkur á ferðalaginu. Mikið gott að hafa stuðning og vita að fólk vill fylgjast með okkur. Kærar þakkir fyrir, mér þykir mjög vænt um þessar færslur hjá ykkur, bæði hér og á fésinu :)

Setti inn myndir í myndaalbúmið,
verðið bara að biðja um aðgangsorðið :)

Posted by Selma at 01:14 PM | Comments (2)

October 04, 2009

Gott að vera heima

Mikið er gott að vera komin heim, það eru nú alveg 4 dagar síðan, maður er enn að ná sér eftir að hafa ekki sofið neitt á leiðinni heim í fluginu, var svo fljót heim, 4 tíma og korter að hún var rétt komin í loftið þegar hún var komin heim :)

Fórum niður í bæ á miðvikudag og hittum Elfu og Egil, fórum í North End á svakalega gott kaffihús....

tókum myndir af okkur "downtown"

og flugum svo heim um kvöldið.

Vorum komin til mömmu uppúr 7, vorum sem sagt á Reykjanesbraut þegar Erla Rut eignaðist litla prinsinn þeirra Ásgeirs innilega
til hamingju :)
Lögðum okkur hjá mömmu og sváfum fram að hádegi. Hittum Hróðmar uppúr 14 og hann sagði okkur bara það sama og John Triedman hafði sagt okkur, Bjartmar okkar er bara sérstakur drengur og Hróðmar ekki áður fengið barn sem ekki er hægt að finna fljótlega lausn á hvað er að.
Svo það sem John brenndi getur verið lausnin en við vitum það ekki fyrr en einhvern tímann, annað hvort er þetta komið í lag eða ekki :)
John útskýrði þetta fyrir okkur með þessari teikningu sem við skildum vel en get svo sem ekki útskýrt það í orðum, er ekki vel að mér í innviðum hjartans, en hann brenndi einhverja línu þar sem krossarnir eru.

Hér er mynd af þeim strákunum, þegar John kom að hitta Bjartmar sagði Bjartmar bara hi John, enda ekki búið að segja honum að hann ætti kannski bara að segja Hi Dr. Triedman :)

og hjúkrunarkonan sem ég man ekki hvað heitir

fannst hann nokkuð skondinn, varð algjörlega brjálaður þegar átti að taka nálarnar úr honum og hann vildi gera það sjálfur, loksins þegar hann fékkst til að hún gerði það fann hann ekki fyrir því og það kom þessi furðusvipur á hann að þetta væri búið.
En hann tók allavega af sér alla plástra :)

Bjartmar verður áfram á lyfi, minnkaði það um helming að vísu og ef hann fer aftur í hraðtakt þá á sjúkrahúsið í hjartalínurit. Svo er bara að sjá hvað gerist.

Þannig að það var nú ýmislegt gert í Boston, meira segja voru skólabækurnar teknar með og við lítinn fögnuð þurfti að læra eitthvað.....
Sigurgeir að gera dagbók, búinn í stærðfræðinni ....

og Bjartmar að æfa skriftina í lok ferðar ...

Var löt í kökubakstri á afmælinu hans Sigurgeirs en gerði karamellusúkkulaðistangir og bakaði í gær því Sigurgeir bauð afa sínum og Höllu í kaffi í snjókomunni. Afar notalegt. Fórum á fésið og sýndum þeim myndir af litla langafaprinsinum. Þeim fannst það svo skemmtilegt að Halla ætlar að kaupa sér tölvu :)

Veðrið hefur svo sem ekki verið neitt til að hrópa húrra yfir síðan við komum heim og ég ætlaði að nota daginn í gær og hengdi út þvott...

sem endaði bara inni á snúru :/

en við drifum okkur í að púsla í gærkvöldi, keyptum 300 kubba púsluspil í "dótabúðinni" á krepputorgi á leiðinni heim, nenntum ekki í dótabúðir í Boston og þeir voru ekki lengi að koma sér af stað í þessu púsli :)

Posted by Selma at 02:27 PM | Comments (2)

  • 1
Flettingar í dag: 334
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 641608
Samtals gestir: 98128
Tölur uppfærðar: 23.2.2018 09:57:59

Tenglar