Í fréttum er þetta helst....

Færslur: 2006 Október

31.10.2006 20:16

Október 2006

October 28, 2006

Skolast til

Sagði í síðustu færslu að við værum að fara til ljósmyndarans 26. en það var reyndar bara í gær. Ég fór hins vegar að vinna í Reykjavík 26. og skemmti mér mjög vel við það að sjá Bimmana spóla upp Kambana og komast upp seint og illa meðan Skodinn minn bara fór án þess að blása.

Og talandi um ferð og veður þá komu Verena og Sven hingað aftur á fimmtudagskvöld eftir hringferðina miklu. Ég dáist nú að þeim þar sem þau fóru hringinn á 5 dögum á Kia Picanto sem er alveg svakalega lítill og kannski ekki beint vænlegur til að ferða á Möðrudalsöræfum og öðrum heiðum á þessum árstíma. Nema hvað alla leið komust þau og svolítið "vont" veður á öræfunum og svo aftur hér uppí sveitum á fimmtudeginum, annars ekkert mál. Sé ekki alveg fyrir mér að nokkrum Íslendingi hefði dottið þetta í hug á þessum tíma árs á þessum bíl nema kannski Valla bróður sem ferðaðist á Ford Ka 3 vetur á milli Reykjavíkur og Vatnsdals.

Fórum til Hörpu Hrundar í gær og það gekk svona flott. Bjartmar var svona að mestu til í allt svo þetta var bara gaman. Hlakka til að fá myndirnar.

Farin að stunda sundferðir aftur eftir 2 vikna hlé þar sem ég er ekki alveg orðin góð í bakinu. Fórum öll í dag á Selfoss. Ég ætla að vera sprellispræk í Danmerkurferðinni.

Strákarnir fundu diskinn með "Brilljantín og bítlahár" sem var sýnt á Blönduósi fyrir nokkrum árum og tekinn uppá disk. Sigurgeir spilar með á klarinettið með laginu Diana sem Baldur Valgeirs söng. Nóturnar eru í nótnabókinni hans og það bara heljarninnar fjör hérna. Ég held ég hafi farið á allar sýningarnar, þær voru vægast sagt frábærar.

Posted by Selma at 02:05 PM | Comments (0)

October 25, 2006

Gleraugu

Jams, búin að fá mér lesgleraugu og prófaði að lesa með þeim í gær og fékk dúndrandi hausverk svo þau eru bara á hillunni í dag.
Augnlæknirinn sagði að ég væri með góða sjón miðað við "aldur" sem er bara gott. Hann mældi líka gláku en hún er í ættinni og þar var ekkert sjáanlegt. Mjög fegin því.

Nú ég kíkti á þessi blessuðu samræmdu próf á vefnum í morgun þar sem við sáum umfjöllun í blöðunum í morgun um íslenskuprófið og drykkjusiði músanna. Sko ég verð nú að segja það að ég á ekki til orð og ætla því ekki að tjá mig um það meira hér, en kommon maður þetta eru nú 9 ára gömul börn, hver semur þetta eiginlega. Ég er allavega ekki búin að tala mikið um drykkusiði og áfengt öl og að drekka hóflega við Sigurgeir. Allavega svona í mjög stuttu máli finnst mér þessi próf alveg FÁRÁNLEG og ekki bætir þetta nú. Þau mæla ekki neitt og brjóta bara börn niður sem ekki ráða við þetta og örugglega hin líka. Mér dettur í hug lagið litlir kassar allir eins.

Nema hvað, það styttist óðfluga í Danmerkurferð með stelpunum, get nú eiginlega ekki beðið en þar sem ég hef orðið vör við að tíminn líður aðeins of hratt þá veit ég að 16. nóv. verður kominn hér áður en ég sný mér við svo ég verð bara róleg.

Á morgun förum við til ljósmyndarans, Hörpu Hrundar, sem mér leist svo rosalega vel á, spurning verður bara hvort Bjartmar verður fáanlegur til að fara í aðra peysu en þá sem hann fékk í afmælisgjöf frá Jóhönnu og Albert. Hann sækir hana í þvottavélina ef því er að skipta.

Posted by Selma at 10:56 AM | Comments (0)

October 22, 2006

Tíminn líður hratt

Hvernig stendur á því að tíminn líður svona hratt.....

Við gamla fólkið höldum áfram að hitta lækna :)
Ég er reyndar útskrifuð úr sjúkraþjálfun með því skilyrði að ég fari í sund eða geri eitthvað, hmmmmm segi ég nú bara.
Beggi verður eitthvað áfram því ekki skánar hann nógu hratt.

Fórum öll til tannlæknis í síðustu viku og það kostaði litlar 50þ kr. Pottþétt að maður fer ekki þangað á næstunni. Reyndar vildi tannsinn endilega fara að skipta út þessum "ljótu" tönnum mínum og setja eitthvað flottara. Ég var alveg hjartanlega sammála þar til hann sagði mér að stykkið kostaði 75þ. Ég sagði honum að ég væri nýbúin að kaupa mér bíl og gæti því bara alls ekki fengið 6 stk nýjar tennur fyrir 450þ. Það verður bara að bíða betri tíma ......

Já og svo er það auglæknirinn á morgun, ég sé ekki neitt þegar ég er að lesa. Það mætti halda að maður væri kominn yfir fertugt :)
Maður fer bara í allsherjar klössun.

Við fengum gesti í gær sem elduðu fyrir okkur. Verena sem var í Miðhúsum í nokkrar vikur og kærastinn hennar komu og gistu og þar sem þau borða ekki kjöt eða fisk gat ég alls ekki eldað handa þeim og því urðu þau bara að elda handa sér sjálf og okkur þá í leiðinni.
Það var auðvitað ekkert mál og læt ég eina mynd af þeim skötuhjúum við eldamennskuna fylgja hér með :)

Svo verð ég auðvitað að setja inn mynd af peysunni sem mamma prjónaði á Verenu. Geðveikt flott peysa og ég sé það í hendi mér að ég verð að biðja hana um að prjóna 1 stk á mig. Hún er búin að prjóna húfuna.......

Hér er svo mynd af Bjartmari að hjálpa til við að laga kerruna, hann var mjög duglegur við það, eiginlega aðeins um of stundum ....

og svo af þeim strákunum að mála, þeir sátu lengi og dunduðu við þetta og út komu 2 listaverk :)

Fórum í dag að heimsækja Guðrúnu Lilju og Jón Ásgeir sem búa á frábærum stað út undir Gróttu, geggjað útsýni og frábært fólk að heimsækja.
Nú bara svo þið vitið það líka þá vann Guðrún Lilja Sjónlistaverðlaunin 2006 og verkin hennar eru algjört æði. Ég ætla að fá mér þetta þegar ég verð aðeins ríkari. Mér finnst þetta svo fallegt, minnir mig á hillu sem amma og afi á Sandi áttu.

Annars allt við það sama......

Posted by Selma at 09:07 PM | Comments (2)

October 13, 2006

Hylling fylfull :)

Fórum í Oddhól í gær að sækja Hyllingu sem var hjá Grun. Fórum fyrst í Miðengi til að fá lánaða kerru því þó hann Beggi minn eigi nú hestakerru þá er hún nú bara inní bílskúr öll í henglum, þarf aðeins að lappa uppá hana segir hann og því varð úr að ég hringi í Helgu mína allrabestu og fæ lánaða kerruna hennar. Beggi heldur bara áfram að gera við sína :) eða kannski fáum við nýju flottu hestakerruna hennar Helgu lánaða næst. Við lentum nefninlega á eftir henni í heimreiðinni þegar við vorum að skila kerrunni. Hún var að koma með þessu flottu kerru úr Reykjavík sem hún hafði fjárfest í, frá Vélaveri auðvitað, allar kerrur þaðan núna. Bara flott.

Vorum komin í Oddhól um hálf fjögur og hittum þar fyrir Sylvíu og Árna. Spjölluðum lengi við þau og sá þar geðveikt fotta gráa meri undan Grun. Væri nú alveg til í að eiga hana :)
Fórum með Hyllingu í sónarskoðun á Hellu og það er fyl í henni svona ca 35-40 daga gamalt. Hlakka bara til. Sagði nú dýralækninum að kannski væri best að drífa hana bara í þjálfun fram á vetur og gefa henni svo smá frí í sumar þar sem hún á ekki að kasta fyrr en í byrjun ágúst. Sýna hana svo á síðsumarsýningu :) jæja nei kannski fær hún bara frí, nóg er nú samt.

Allavega fórum upp í Neðra-Sel með hana og settum hana á túnið hjá Hlökk og fleiri hrossum. Húsráðendur voru á leið til USA svo ekki komumst við í kaffi þar. Tók nokkrar myndir af mínum eðaldrengjum og eðalhrossum sem fylgja hér með.

Sigurgeir og Hylling

Þær mæðgur komnar saman og svo er hann Orrasonur á bakvið,
vildi nú ekki sýna sig

og svo er hún nú gamla alltaf best :)

Já sem sagt hestamennskan okkar byggist eingöngu á að flytja hross á milli bæja þannig að það verður gott þegar kerran verður komin í stand og ég efast ekki um að hún muni líta út eins og glæný þegar hún kemur út úr skúrnum (skápnum, nei djók).


Í dag er Benni að koma í heimsókn á meðan Guðrún skreytir einn sal eða svo. Sigurgeir gat ekki beðið og var að spá í hvort hann kæmi ekki bara beint í skólann þegar hann kæmi á svæðið. Hélt kannski ekki en það verður frábært að hafa hann hérna í heimsókn........

Posted by Selma at 10:03 AM | Comments (0)

October 12, 2006

Komin heim

Kom heim í gær eftir vel heppnaða ferð norður, það fóru fimm í próf í gær á nýja flotta Skodanum mínum og allir náðu auðvitað, svo sem aldrei spurning um annað. Þá eru bæði frændsystkini mín sem verða 17 á þessu ári komin með próf.

Verð að segja það en skil ekki alveg hvað ég var að gera á Focus, þvílíkt sem þessi Skodi er MIKIÐ betri bíll og fer betur með mann :) Focus var góður en þessi er svo miklu betri í alla staði.

Ég gisti víða, byrjaði á Eyvindarstöðum þar sem ég fór bara beint að kenna Arnheiði á morgnana, á mánudeginum gisti ég svo í Miðhúsum og hjá Valla og Boggu á þriðjudagskvöldinu þar sem ég þurfti að fara að kenna kl. 7 á miðvikudagsmorguninn. Allt gekk þetta vel, takk fyrir mig. Ekki mikið um kaffiferðir á aðra bæi en verður næst. Kom reyndar við á Reykjum í Hrútafirði á leið heim og drakk mikið kaffi, alltaf gaman að koma þar, frábært fólk og geðveikt útsýni.

Svo nú er ég bara þreytt hér heima, alveg með hangandi haus. Strákarnir fíluðu sig í botn að vera einir heima og Beggi er búinn að fá niðurstöður úr myndunum, brotin er gróin saman en bara vitlaust gróin sem þýðir það að það tekur einhvern tíma fyrir nýja örvefi og vöðva að myndast í kringum brotið á ný svo þetta tekur einhvern meiri tíma. Hann má samt fara að vinna svona 2-3 tíma á dag :)

Posted by Selma at 10:15 AM | Comments (1)

October 05, 2006

Græjurnar komnar í

Þá eru græjurnar komnar í, fór í gær með bílinn og allt klappað og klárt, var nú svo sem ekki alveg að sjá það sjálf að þær myndu passa þarna inn en jú jú allt í besta. Fór til mömmu á meðan og fékk húfu hjá henni. Hún prjónaði nefninlega húfu á mig svona svipaða og þeirri sem mig langaði svo í á Hvanneyri í sumar og kostaði 3.200 kr. en held þessi hafi verið aðeins ódýrari, eigum bara eftir að fá lagðinn sem stendur uppúr henni :)

Svo er að drífa sig í að kenna og setja nagladekkin undir þar sem ég/við erum á leið norður á morgun. Það var glæra hálka á Hellisheiðinni í morgun og mig langar ekkert til að skauta útaf á mínum nýja fína bíl, hann er reyndar með spólvörn :)
Beggi fór í myndatöku í bæinn og sagði að það væri mjög hált og einhverjir hefðu skautað útaf.

Gleymdi alveg að segja ykkur að þeir hjá Heklu Selfossi eru alveg æðislegir, það fylgdi þessi himneski konfektkassi með bílnum sem ég stelst í þegar enginn sér til........

Posted by Selma at 08:50 AM | Comments (0)

October 03, 2006

Langflottastur

Skodi var það :) ef einhver skildi vera að farast úr forvitni. Alveg magnaður bíll og græjurnar verða settar í annaðkvöld. Vá ég tími eiginlega ekki að kenna á hann en verð víst að láta mig hafa það :) þar sem einhver mánaðargreiðsla kemur ......

Mér finnst hann langflottastur að framan og svo auðvitað að innan :)
Hann er silfurgrár en ekki gulllitaður eins og þessi sýnist vera. Þeir eru reyndar brúnleitir, ekki gulllitaðir.

Nema hvað minn maður þ.e. Sigurgeir kom heim úr skólanum í dag og sagði að hann ætti að mæta á hljómsveitaræfingu kl. 17.00. Var nú ekki alveg að skilja þetta svo ég hringdi í eina mömmuna og jú jú nokkrir í hans bekk höfðu sótt um æfingahúsnæði í íþróttahúsinu og fengu það til að æfa í hljómsveit. Jams ekkert nema flott. Áttu að mæta kl. 17 til að taka til í herberginu og svoleiðis og svo hafa þeir þennan sal 4 daga í viku frá 17 - 19. Það kann nú enginn neitt sérstaklega mikið á hljóðfæri, Sigurgeir reynar búinn að læra á klarinett á þriðja ár. En hvað með það, æfingin skapar meistarann og það á að spila á trommur, bassa, gítar, hljómborð og Dagný Lísa á að syngja. Algjör snilld.

Eg má ekki gleyma að segja hverjir duttu hér inn í síðustu viku. Sigga hringir, ég hvái, hvaða Sigga ert þú? já það myndi enginn spyrja hvaða Rikki ert þú ef maðurinn minn væri að tala við þig. Sigga og Rikki með litlu snúlluna hana Söru, komu hér við á leið heim úr Reykjavík og það var alveg meiriháttar. Mikið er langt síðan ég hef séð þau og þau eiga heima rétt hérna austan megin við mig, þ.e. í Landeyjunum, það er ekkert langt þangað. Takk, takk takk.

Já og svo loksins fékk Beggi tíma hjá lækni og hann á að fara í myndatöku á morgun, LOKSINS. Læknirinn sagði honum að það gæti verið að eitt brotið væri ekki ennþá gróið og þess vegna væri hann ennþá svona slæmur. Frábært eða hitt þá heldur, en það kemur þá LOKSINS í ljós á morgun.

Framundan er kennsluferð norður á nýja fína bílnum ......

Posted by Selma at 08:53 PM | Comments (1)

October 02, 2006

Annar í afmæli

Jebbs, annar í afmæli í dag eða réttara sagt er dagurinn í dag. Man það eins og það hafi gerst í gær :)

Fjölskylda og vinir komu í gær og áttum við notalega stund saman. Í dag komu svo strákarnir úr bekknum hans og var það hin besta skemmtun. Þeir voru voðalega glaðir að fá snúðana mína, þeir voru líka bestir í fyrra eða það sagði einn þeirra. Og þeir kláruðu þá alla. Frábært að þeim finnst þeir góðir. Gerði líka súkkulaðiköku eða pallbíl og fyllti pallinn af nammi, ógeðslegt en nammið kláraðist og þeir fengu sykursjokk og fóru út á eftir. Sigurgeir hringdi líka í ömmu sína og pantaði kleinur því hún bakar heimsins bestu kleinur :) og þær komu í hús í gær

Hér eru nokkrar myndir


  • 1
Flettingar í dag: 334
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 641608
Samtals gestir: 98128
Tölur uppfærðar: 23.2.2018 09:57:59

Tenglar