Í fréttum er þetta helst....

Færslur: 2006 Ágúst

31.08.2006 20:05

Ágúst 2006

August 28, 2006

Tekið til í garðinum

Greinilegt að flugeldarnir hafa haft góð áhrif á heimilisfólkið því hér fóru allir í tiltekt í gær. Reyndar fengum við frábæra gesti um hádegisbil sem hafa greinilega haft svona góð áhrif líka. Annars hefur nú fleira gott fólk að norðan komið hér við í sumar, hef bara ekki alveg munað að minnast á það og hef nú fengið svolitlar ávítur fyrir.
Í gær komu sem sagt Maggi og Líney, þau voru að leita uppi hesta á suðurlandinu :) Jobba, Jón og krakkarnir, komu líka við í júlí, voru á leið norður úr sumarbústað úr Borgarfirðinum og fóru Kjöl. Hilmar, Silla og krakkarnir komu líka við á leið úr sumarbústað og svo komu Valli, Bogga og Óli en þau voru í bústað hérna rétt hjá. Takk takk fyrir, það var alveg yndislegt.

Jæja nema hvað strákarnir gerðust grænir í gær og fóru og reyttu arfa og aðrar villijurtir úr garðinum. Held að Sigurgeiri hafi þótt nóg um og snyrti hann flest beð sem hann fann. Gott að vera búinn að læra handtökin í sumargörðunum þ.e. í fyrra, enginn tími í sumar :)


Bjartmar fór og náði í skæri og klippti blómin af. Hann er búinn að fara margar ferðir í rifsberjarunnann og tína flest berin nema þau sem hann nær ekki í og þau eru alveg nógu mörg fyrir eins og nokkrar krukkur af sultu :)

Eftir garðverkin skelltu þeir sér í pottinn :)


Beggi heldur auðvitað að hann sé orðinn algóður í öxlinni og málar gluggakarma eða setur upp ljós. Ekki náðust nú myndir af því þar sem ég var svo upptekin í að laga til í tölvuherberginu því þar var ekki hægt að finna nokkurn skapaðan hlut lengur. Hann er auðvitað alls ekki góður í öxlinni enda segir sjúkraþjálfinn að hann geti í fyrsta lagi farið að vinna í lok september. Ég er hins vegar alltaf í vinnunni, hér og þar, t.d. kennsluferð norður framundan :)

Posted by Selma at 09:27 PM | Comments (0)

August 26, 2006

Blómstrandi

Skruppum aðeins á blómstrandi daga í dag og þar sá ég að ég er greinilega ekki "inn" í hundum, hef reyndar aldrei verið "inn" í neinu nema að vera með rautt hár sem fór allt í einu í tísku fyrir nokkrum árum :)

Jæja þar var hundasýning og þeir hundar sem voru áberarndi voru annað hvort svo litlir að þeir sáust varla en hinir voru svo stórir að maður mátti vara sig á að vera ekki genginn niður, þeir eru svona svipað stórir og folöld. Sá þessa stóru hunda svo á flugeldasýningunni og þar var einn sem bara töskur, sennilega fyrir bjórinn. Litlu hundarnir eru hins vegar settir í litlar hliðartöskur sem eru með neti á. Já ég greinilega fylgist ekki með :)

Fórum svo aftur í kvöld og þar var brekkusöngur í klukkustund með Eyjólfi Krisjáns og svo flugeldasýning sem var algjörlega frábær. Ég hef ekki farið á flugeldasýningu í mörg ár, oftast heima að passa hundinn því hún er skelfingu lostin (Salka er hjá Helgu), hefði ekki viljað vera með hund-folald þarna niðurfrá ef hann-það er hrætt við flugelda.
Flugeldasýningin byrjaði á að það var rauður reykur settur af stað og svo einskonar hvítur foss, ekki veit ég hvernig hann var gerður en þetta var algjörlega magnað og svo bara kom hver flugeldurinn af öðrum. Rosalega flott, vona að hross hafi bara verið inni á meðan. Þvílíkt ljósa- og hávaðasjóv. Rosalega margt fólk og algjört logn og gott veður. Þegar við komum heim og búin að koma strákunum í rúmið fór að hellirigna.

Posted by Selma at 11:04 PM | Comments (1)

August 24, 2006

Skólinn byrjaður

Skólinn er byrjaður, getur einhver sagt mér hvað varð af sumrinu :)
Vá hvað það var fljótt að líða, einhvern hef ég það á tilfinningunni að það hafi farið í ferðalög, ýmist norður til að kenna eða í frí í útlöndum eða sumarbústað.

Já sem sagt Sigurgeir er kominn í 4. bekk :) og hefur sama kennarann og í fyrra sem er frábært. Mættum í skólann á þriðjudag og mikið var gaman að koma í stofuna þeirra, það var svo heimilislegt. Magga var búin að koma með blóm og allskyns dót til að lífga uppá, virkilega notalegt að koma og sjá.

Bjartmar er kominn aftur í leikskólann eftir að vera búinn að vera í fríi síðan um hvítasunnu. Flutti yfir á aðra deild enda árinu eldri.

Beggi og ég erum áskrifendur af Heilsuhælinu og erum við mikið skárri. Hann fer á mánudag, miðvikudag og föstudag og ég á þriðjudag og fimmtudag. Annars geri ég nú ýmislegt til að reyna að fá bakið í rétt lag aftur, fór til að mynda í höfuðbeina og spjaldhryggja meðferð hjá Ingibjörgu Gunnlaugsdóttur í Borgarnesi og ég fann mikinn mun.

Posted by Selma at 04:18 PM | Comments (1)

August 20, 2006

Myndir úr Borgarfirðinum

Setti nokkrar myndir úr sumarbústaðaferð

Posted by Selma at 12:44 PM | Comments (0)

August 18, 2006

4. - 18. ágúst

Já hvað gerðist 4. - 18. ágúst, einhverjir áhyggjufullir á e-mailnum til mín, gott að vita að fólk fylgist með :)

Ekki man ég nú nákvæmlega en held endilega að verslunarmannahelgin hafi verið á þessum tíma. Alltaf fegin þegar hún er búin, er ekki fyrir það að láta smala mér saman með öðrum svo ég og mín fjölskylda erum bara heima eða finnum okkur eitthvað að gera alveg uppá eigin spýtur. Finnst reyndar frekar sniðugt að hafa Unglingalandsmót UMFÍ á þessum tíma, ég myndi fara þangað ef ég væri með íþróttagarpa mikla, það kemur :)

En sú helgi fór í að taka á móti gestum og fara í merarleiðangur, aldrei þessu vant. Takk fyrir lánið á kerrunni Helga mín en eins og áður segir einhversstaðar þá sárvantar okkur hestakerru og Helga lendir alltaf í að lána mér sína og passa svo hundinn þegar við förum eitthvað annað þar sem hundurinn má ekki vera með okkur. En fyrir þá sem vilja vita þá tókum við Gerplu uppí Miðengi og fórum með hana upp í Flagbjarnarholt i Landssveit til Álfasteins, klárlega kemur skjótt meri þar. Þaðan fórum við í Neðra-Sel, tókum Hyllingu sem vildi ekki Kolfinn og fórum með hana í Oddhól til Gruns sem er bara brúnn... en flottastur á tölti og öllu öðru auðvitað. Hann vann töltið á Landsmótinu, bara svona ef þið vitið það ekki.
Það fór ALLUR sunnudagurinn í þetta sem var bara gaman því hvað er skemmtilegra en að rúnta milli staða með hross, jú að vera á hestbaki er skemmtilegra en bara næst.

Búin að ákveða að selja jarpa ef þið vitið um einhvern sem
vill kaupa 4 vetra meri undan Hlökk og Garpi frá Auðholtshjáleigu.
Hún er flott eða verður það allavega. Getið séð myndir af henni á heimasíðunni en ég á ekki nýjar myndir af henni. Hún heitir Hending.
Nú sú brúna, hún Hugrún, er langtímaverkefni og verður sýnd á Landsmóti 2010 :)

Síðastliðna viku erum við búin að vera í bústað uppí Svignaskarði í Borgarfirði. Það var meiriháttar, flottur bústaður, flottur staður og flott veður, loksins kom sumarið.

Fórum í Langavatn að veiða, fengum 1 silung og hann var grillaður :)
Fórum í margar berjatínsluferðir, potturinn var vel nýttur og svo fórum við auðvitað víða. Fórum upp að Hvanneyri sl. laugardag á bændamarkað hvað haldiði að ég hafi fundið þar "krækiberjasaft" dísús hvað það er gott. Amma á Sandi bjó til saft og við fengum það alltaf þegar við komum þar, guðdómlega gott. Ég kláraði það.
Ég sá líka alveg meiriháttar fallegar prjónaflíkur í Ullarselinu en verðið var ekki alveg fyrir mig, langaði ofboðslega mikið í lopahúfu en hún kostaði bara 3.000 kr og ég bara gat ekki fengið mig til að eyða þeim í húfu.

Nú það komu fullt af gestum, fyrst komu Solla, Valdi, Berglind og Eyþór. Það var farið í Langavatn og síðan grillað. Mamma kom á mánudeginum og kom með okkur heim í dag. Eva Dögg og Jói kærastinn hennar komu á þriðjudeginum (voru að koma frá Búlgaríu) og gistu, þau fóru á miðvikudeginum norður. Á fimmtudagskvöld komu Jóhanna, Erla Rut, Jenný Rut og Elvar Már á leið suður. Grillað. Erla Rut átti að mæta í Háskóla Reykjavíkur í dag, var svolítið stressuð.......

En allavega frábær vika í Borgarfirðinum og heim í dag og allur þvotturinn framundan. Tvennt sem mér finnst alveg ofboðslega leiðinlegt við sumarbústaðaferðir, það er að þurfa að þrífa hann þegar maður fer, allir sveittir þegar maður leggur af stað heim og svo að þurfa að þvo þvott í 3 daga eftir að maður kemur heim. Ég væri sko alveg til að borga fyrir þrif eftir mig í sumarbústað en þvottinn get ég svo sem dundað við :)

Þannig að nú verðum við heima - allavega á mánudaginn því þá förum við bæði á Heilsuhælið því jú við erum víst bæði í sjúkraþjálfun, við megum meira segja koma með strákana með því hver á að passa þá á meðan :)

Myndir úr Borgarfirðinum koma fjótlega.

Og fyrir þá sem gleymdu afmælisdeginum mínum þá átti ég afmæli í gær :)

Posted by Selma at 08:44 PM | Comments (3)

Tóm síða :(

Vá hér er bara allt tómt, bæti úr því í kvöld, vorum að koma úr sumarbústað..........

Posted by Selma at 03:44 PM | Comments (0)

August 04, 2006

Norður-suður

Fórum norður á miðvikudag og suður í gær :)

Ákveðið var fyrir nokkru að Beggi og systkini hans færu norður þennan dag með legstein á leiði foreldra þeirra sem var smíðaður hjá Sólsteinum. Þar sem við höfðum ákveðið að taka 2 stykki hross með okkur suður varð úr að við leigðum hestakerru (verðum að fara að kaupa okkur kerru ef einhver veit um slíka) og tókum steininn með okkur á miðvikudaginn.

Hittumst í Skíðaskálanum á Skagaströnd og áttum þar góða kvöldstund í alveg frábæru veðri og grilluðum auðvitað lambalæri.

Náði myndum af þeim systkinum saman þeim Evu Dögg, Sigurgeiri og Bjartmari - alveg óskaplega fallegt fólk :)


Á fimmtudagsmorgun fóru þau systkin og komu steininum fyrir á leiðinu. Það gekk alveg glimrandi vel og steinninn, sem er bók, alveg einstaklega fallegur.
Myndir voru teknar af öllum í bak og fyrir. Setti þær inná myndaalbúmið okkar, en hér er ein af þeim systkinum, Beggi, Hilmar, Solla og Benni.


Um hádegi var brunað á Blönduós, merar tvær teknar á kerru og síðan suður. Þeim var skilað í Neðra-Sel, þar sem þær ætla að sjá til hvað þær eiga og ætla að gera í framtíðinni.

Allir þreyttir eftir "stutta" "langa" skemmtilega ferð norður.

  • 1
Flettingar í dag: 334
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 641608
Samtals gestir: 98128
Tölur uppfærðar: 23.2.2018 09:57:59

Tenglar