Í fréttum er þetta helst....

Færslur: 2006 Febrúar

28.02.2006 19:43

Febrúar 2006

February 21, 2006

Litli bróðir á afmæli í dag

Ætlaði að skrifa hérna nokkrar línur í dag en gleymdi mér alveg.
Litli bróðir minn, sem er miklu stærri en ég, á afmæli í dag :)
Til hamingju með daginn.

Snilldarhelgi, ég fór norður á föstudaginn og skildi strákana eftir heima í idol og júróvision partý :) en það var svo sem ekki af neinu að missa nema auðvitað að vera með þeim.

Kenndi alveg fullt og komst í kaffi og mat á nokkuð marga staði sem var algjör snilld, veifaði þeim sem ég þekkti og veifaði alls ekki þeim sem ég var ekki viss um að ég þekkti en átti að þekkja hmmm hmmmm agalega hallærisleg en veifa pottþétt næst.

Á leiðinni út úr Vatnsdalnum hitti ég Óla frænda minn úr Aðaldalnum og Þórdísi konu hans, þau höfðu brugðið sér suður og hann ætlaði nú að koma í kaffi á laugardeginum en þá ég ekki heima. Nú við mæltum okkur mót á Vatnsdalsvegamótunum kl. 2 en þar sem ég var aðeins of sein þá komu þau bara keyrandi fram dalinn og við spjölluðum lengi þarna á miðjum veginum, frábært að hitta þau, hefðum alveg getað verið þarna allan daginn að spjalla.
Sem sagt frábær ferð í alla staði.
Nú svo biðu mín auðvitað blóm og alles þegar ég kom heim, þeir eru svo krúttlegir :)

Á mánudagsmorgun kom Sigrún vinkona mín í heimsókn, við sem sagt tölum um það þegar við tölum saman sem er alltof sjaldan að hittast en eins og sannir íslendingar höfum við "aldrei" tíma til þess en þarna sá hún smá glufu og skellti sér alla leið í Hveragerði sem var alveg meiriháttar hjá henni og takk fyrir það. Alveg merkilegt hvað maður telur sér trú um að maður hafi aldrei tíma til að heimsækja neinn. Þegar maður loks drífur í því er það svo gaman. Þá líka uppgötvar maður alltaf uppá nýtt hvað það er manni mikils virði að eiga góða vini og vandamenn.

Svo er bara hefðbundið, Beggi að vinna, keyra fram og til baka í þokunni á Hellisheiðinni, mikið dj.... sem maður er orðinn leiður á henni, bæði heiðinni og þokunni ég tala nú ekki um þessa endalausu rigningu. Nú ég skrapp í Zeppelin í morgun, þyrfti að vera þar svona nokkra daga en finn eitthvað út úr því. Bjartmar er í sjálfstæðisbaráttu þessa dagana sem er bara fínt, hann klæðir sig sjálfur á morgnana og ef maður dirfist að hjálpa honum fer hann úr öllu aftur og í aftur, ekki alveg nógu gott því ég er nú ekki alveg sú þolinmóðasta. Hann er líka hættur með bleyju og er alveg ofboðslega duglegur, meira segir hellir sjálfur úr koppnum sem er kannski ekki alltaf eins gott :)

Síðastliðinn fimmtudag voru tónleikar hjá Tónlistarskólanum og Sigurgeir fór og spilaði með blásarasveit Hveragerðis, þau eru nokkur í henni, þeir fóru stóru strákarnir, ég var heima með Bjartmar sem var lasinn og var sofnaður kl. 18.30. Flottir tónleikar sá þá á videóinu.
Nú svo var fótboltamót á laugardeginum hjá honum og hann fékk verðlaunapening, held þau hafi öll fengið pening en það er bara fínt.

Annars allt í gúddí :)

Posted by Selma at 09:27 PM | Comments (4)

February 16, 2006

Síðan síðast

Margt gert síðan síðast :)

Í gær var ég passa þessa litlu dúllu á meðan foreldrarnir fóru á fund. Hún svaf mest allan tíman.
Þetta er auðvitað prinsessan í Neðra-Seli og þau Maggi og Svanný fóru á hestafund en ekki hvað.


Kvöldið áður fór ég á hestbak og okkur Toppu fer fram, hins vegar engin mynd til af því :)

Strákarnir fóru í sund á laugardagsmorguninn og svo fórum við í afmælið hans Þórgnýs en hann varð 11 ára 8. feb. Til hamingju með það. Það var alveg meiriháttar að hitta alla eins og alltaf og ekki er verra að komast í kökurnar hennar Jóhönnu, þær eru alveg geggjaðar.

Á sunnudaginn ákváðum við að drífa okkur í fjöruna eins og við gerðum stundum í fyrra, það var reyndar svolítið hvasst og Bjartmari fannst sandurinn ekkert sérstaklega góður í augun svo við vorum ekki lengi.

En gott að geta gefið sér stund til að íhuga :)

Við erum líka búin að uppgötva arininn, hann er alveg meiriháttar


Síðastliðinn föstudag skruppum við gamla settið norður, fram og til baka og kíktum á eina jörð......... mamma var hjá strákunum á meðan, þeir mega ekki missa af neinu í skólanum. Allt gekk vel :)

Nú svo er ég að spá í að fara norður um helgina að kenna en veðrið er nú ekki beint þesslegt en það er nú heill dagur til að ákveða sig svo við sjáum til.

Posted by Selma at 09:36 AM | Comments (3)

February 09, 2006

Skautaferð

Ég er orðin svo gleymin að ég gleymdi að segja frá skautaferðinni hans Sigurgeirs með skólanum. Bekkurinn hans fór sem sagt í Egilshöllina á skauta í síðustu viku og myndir úr ferðinni eru á heimasíðu skólans. Þetta var bara gaman sagði hann :)

Posted by Selma at 08:20 AM | Comments (0)

February 07, 2006

Myndaalbúm

Þar sem ég er nú búin að vera að hugsa um lengi að setja myndir inn og ekki nennt eða ekki haft tíma eftir því hvernig á það er litið þá ákvað ég að byrja aðeins og setti inn myndir inná 123.is úr skírn Guðmundar Hilmars. Reyni kannski að bæta inná þetta þegar ég finn tímann :)

Posted by Selma at 03:35 PM | Comments (0)

Smá pistill

Smáinnlegg hérna, svo mikið að gera að maður hefur ekki tíma til að "hanga" í tölvunni :)

Öll síðasta vika fór í að skreppa til Reykjavíkur að vinna fyrir hádegi, get ekki sagt að tíminn nýtist manni vel við það þar sem maður þarf alltaf að vera kominn heim fyrir 12:30 en hvað um það ég hef svo gaman af því að keyra Hellisheiðina sérstaklega þegar er svartaþoka og fremsti bíll fer á 50 og enginn kemst framúr, ég alveg elska það, líka þegar það er engin þoka og samt er umferðin á 50 og fremsti bíll keyrir á miðjum veginum þó það sé tvær akreinar í sömu átt, jamm og jæja ekki orð um það meir. Held meira segja Beggi sé orðinn leiður á Hellisheiðinni....

En alltént, fór og hitti Toppu sl. fimmtudag og við meikuðum það alveg, súper. Við Svanhildur fórum saman í útreiðartúr í reiðhöllinni og það var alveg meiriháttar. Og svo var auðvitað kaffi á eftir og pælingar í heimasíðugerð :) alltaf nóg að gera.

Nú við nenntum ekki norður á hið ómissandi hreppablót, barasta nenntum alls ekki en ákváðum þess í stað að halda þorrablót hér heima, buðum Magga og Svanhildi og litlu dúllunni þeirra. Fengum meiriháttar mat frá Múlakaffi en engin hljómsveit, verður bara næst.

Aftur er komin vinnuvika og hún fer að verða búin er ekki miðvikudagur á morgun og þá er aftur helgi. Þetta fer bara hring eftir hring eins og vant er.

  • 1
Flettingar í dag: 334
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 641608
Samtals gestir: 98128
Tölur uppfærðar: 23.2.2018 09:57:59

Tenglar