Í fréttum er þetta helst....

Færslur: 2005 September

30.09.2005 22:09

September 2005

September 30, 2005

32.000 kr.

Maður getur nú reiðst og það gerðist akkúrat hjá mér í gær og örugglega hefur það gerst hjá mörgum áður. Það var nú þannig að í vor fór ég með Sigurgeir til tannlæknis og hann sagði mér að fara til tannréttingarlæknis með hann því bitið var svo skakkt. Það var reyndar alveg rétt, neðri kjálkinn virtist taka mikinn vaxtarkipp í vor svo mér leist nú ekki á blikuna og ég auðvitað hringdi og fékk tíma í lok sept sem var í gær. Vöxturinn hafði nú lagast svo mikið að ég var nú alveg á því að ég ætti bara að hætta við þetta en fór samt til að vera viss.
Jæja eins og alltaf bíður maður í 1/2 tíma til klukkutíma en það voru nú reyndar ekki nema ca 20 mín og vorum inni í 5 mínútur og það var ákveðið að þetta væri bara í þokkalegu standi svo best væri að fylgjast með honum eftir ár. Fer fram og fyrir þessar 5 mínútur borgaði ég 3.600 kr. og þá reiddist ég en auðvitað getur afgreiðslukonan ekkert gert í þessu og alltaf verður vitlaust fólk fyrir barðinu á okkur kúnnunum. En ég spyr nú bara hver býr til þetta verð og af hverju borgum við alltaf þegjandi og hljóðalaust.

Ég er að hugsa um að fara að selja ökutímann sem eru 45 mín á u.þ.b. 32.000 kall. Ætli einhver myndi mæta.

Nema hvað fór í "ræktina" í gær og þar var ekki þverfótað fyrir fólki sem ég þekkti. Byrjaði á því að það er sagt "sæl Selma" ég HA og var þá ekki Ingibjörg komin þarna alla leið frá Flúðum. Ja hérna til að hoppa á Selfossi. Nema hvað hitti svo hana Helgu sem var með mér á Reykjaskóla fyrir nokkrum árum síðan :-) og ég sem sagt ákvað að mæta til hennar í morgun í blómin sem ég og gerði, hún er með rósarækt mikla. Ég fæ kannski bara vinnu hjá henni nokkra klukkutíma í viku. Það væri gaman.

Nú svo er Akranes framundan, hefði nú svo sem alveg getað nýtt helgina í eitthvað annað t.d. klára verkefnið mitt í IR og fara í mótorhjólatíma og svona sitt lítið af hverju en bara eftir helgina, þá er nógur tími :-)

Posted by Selma at 11:26 AM | Comments (2)

September 28, 2005

Margt gert í dag

Sigurgeir varð mikið glaður þegar við vorum búin að fara á Selfoss í dag og láta taka saumana úr sárinu. Þetta leit bara vel út og engin ígerð í þetta skiptið. Vonandi að þetta verði til friðs framvegis.

Nema hvað haldiði ekki að við Bogga höfum farið út að hjóla í kvöld, loksins rann þessi langþráði dagur upp að við vorum boðaðar í tíma kl. 18.30 í kvöld. Meiriháttar gaman nema svolítið kalt á puttunum.
Þá er bara að fara að drífa sig í bóklega prófið svo það sé frá og vonandi náum við þessu fyrir veturinn :-)

Þar sem þetta er fréttnæmt þá var auðvitað tekin af okkur mynd.....


Posted by Selma at 09:41 PM | Comments (3)

Mikið að gera

Það er eitthvað svo mikið að gera hérna að ég hef ekki haft tíma til að skrifa og bæti ég hér með úr því.

Síðastliðinn sunnudag fórum við með Magga Lár og Svanný að flytja Hlökk á milli bæja hér syðra. Hún var í Þúfu hjá Orra og fórum við með hana í Neðra-Sel þar sem hún verður í vetur. Ég var mikið hissa þegar ég sá folaldið sem var bara móbrúnt þegar ég sá það síðast, en það var í júní, en núna er hún orðin mikið grá.

Síðan var farið upp í Neðra-Sel og þeim sleppt þar til annarra hrossa og auðvitað var fjölskyldan öll mynduð saman :-)


Ég er svo bara að kenna alla daga og próf í Reykjavík í morgun, fyrsti nemandi minn sem fer í próf í Reykjavík. Smá stress í gangi hjá mér útaf því en það gekk auðvitað allt vel.
Svo mætti ég í líkamsræktina á mánudaginn og var að drepast í gær auðvitað. Mæting aftur á morgun. Get ekki sagt að mér finnst þetta eitthvað spennandi og myndi sko alveg örugglega reyna að losna undan þessu nema af því ég er orðin svo gömul og slæm í skrokknum að það er sennilega gáfulegt að reyna þetta, um tíma allavega.

Nú framundan er svo Landsmót lúðrasveita sem Sigurgeir fer á og annað hvort okkar með. Lagt af stað eftir hádegi á föstudag og komið heima á afmælisdaginn hans, sunnudaginn. Vonandi verður þetta bara hin besta skemmtun.

Posted by Selma at 11:28 AM | Comments (0)

September 22, 2005

Langþráða símtalið

Ætla að baka rosalega djúsí köku handa okkur Svanhildi sem við ætlum að borða á sunnudaginn því í gærkvöldi þegar ég var að kenna fékk ég loksins "símtalið" sem ég var búin að bíða eftir í 2 mánuði. Við Svanhildur höfum nú reyndar talað saman á þessum tveim mánuðum en þetta var "símtalið".
Svanhildur hringdi þegar ég var að kenna (ekki vön að hringja svona seint) og ég sagðist hringja þegar ég væri búin að kenna og hugsaði sem svo, ands..... nú er hún búin að bíða með það í allan dag að hringja í mig til að segja mér að búið sé að sóna Hlökk og hún ekki fengin. Jæja best ég láti mig hafa að hringja aftur. Hringi en fékk ekkert svar en svo hringir hún rétt á eftir og fer að tala um eitthvað vitaómerkilegt og segir svo það var sónað í dag, ó dísús segi ég nú - ertu búin að bíða í allan dag með að segja mér útkomuna. Já það er svona ca 25 daga gamalt, ha segi ég og skil ekkert og já, vá, okei er það, var nærri búin að keyra útaf og þvílíkur léttir. Loksins loksins búið að sóna og Hlökk er fylfull við Orra frá Þúfu, ekki ómerkari hesti en það. Þannig að það verða tvær gráar merar sem fæðast næsta vor. Undan Gerplu og Huginn frá Haga kemur auðvitað grá og svo fá þau Maggi og Svanhildur gráa meri undan Hlökk og Orra. Geggjað.

Posted by Selma at 11:12 PM | Comments (0)

September 21, 2005

Gekk vel

Aðgerðin gekk vel en hann var fyrstur þannig að við mættum kl. 7.30 og það gekk allt í sómanum nema hann varð veikur eftir svæfinguna eins og síðast því ég hafði ekki aulað því nógu vel út úr mér að hann hafði kastað upp eftir síðustu svæfingu. Hélt það væri kannski vegna þess að hann fór þá ekki í aðgerð fyrr en eftir hádegi og hafði þá ekkert borðað allan daginn. Okkur var sem sagt núna að við yrðum að segja þetta áður en hann færi í svæfingu því þeir settu þá ógleðislyf seinast í svæfingunni. Mjög gott að vita þetta :-)

Þráinn hittum við ekki áður en við fórum heim því hann var í annarri aðgerð en hann hringdi svo hingað í gær og sagði okkur að þarna hefði ennþá verið fitupoki til staðar og göng, þau voru bara búin að færa sig og hann hefði hreinsað þetta vel upp og minnkað örið sem fyrir var. Þannig að nú er að sjá hvort þetta hefur ekki bara heppnast, krosslegg fingur en af fyrri reynslu ætla ég nú ekkert að halda að þetta sé öruggt.
Sigurgeir er samt bara í góðum gír og mætti í skólann í gær, ekki missa af neinu.

Hjá mér er brjálað að gera, ég og frænka mín drifum okkur á námskeið í bifhjólaréttindum, þ.e. stór hjól, draumur okkar lengi, og erum núna í bóklega hlutanum og svo er bara að fara í verklegt í hálkunni :-) Annars er kennarinn eiginlega búinn að fæla mig frá þessu því þetta er barasta stórhættulegt að öllu leyti......

Nú svo er ég að kenna á Selfossi og í Reykjavík og nokkur að fara í próf þannig að það er alveg brjálað. Beggi er sem betur fer á landinu svo ekki þarf ég að kalla til her stúlkna til að passa. Annars fann ég aðra alveg aldeilis frábæra stelpu um daginn og hún kom að passa í gær því ég þurfti að fara áður en Beggi kom heim. Hún er frá Kenýa og er búin að búa hérna með fjölskyldu sinni í 10 ár held ég. Það var sko ekki málið, venjulega hefur Bjartmar farið að grenja þegar ég fer en hættir auðvitað um leið og ég er farin en í gær þá var hún búin að vinna hann á sitt band áður en ég fór og hann sagði bara bæ bæ.

Síðasti tíminn í bóklega er í kvöld og svo fer ég að kenna svolítið.
Á laugardaginn er 1 tími verklegt á hjólið og það verður nú gaman að sjá það, segi ykkur ekki hvar það fer fram....

Posted by Selma at 11:11 AM | Comments (5)

September 18, 2005

Aftur í aðgerð

Sigurgeir er að fara aftur í aðgerð á morgun, mæting kl. 7.30 - vonandi þurfum við ekki að bíða til 14.00 eins og síðast. Annars mættum við í viðtal á Landsspítalann á föstudaginn og þar hittum við nýjan lækni sem verður ekkert með þegar Sigurgeir fer í aðgerðina en hann þurfti að vita ferlið, ég var nú frekar þurr á manninn með það enda höfum við þurft að segja ferlið á þessu í hvert einasta skipti sem við höfum farið þarna inn og ég bara nennti því ekki þarna, ætli læknarnir lesi aldrei þessar skýrslur sem sendar eru með fólki fram og til baka. Jæja allavega við mætum í fyrramálið.......

Annars er nú lítið títt, við drifum okkur á Hamarinn í dag, hele familien, það var svo mikið af berjum uppi á Hamrinum að við hefðum átt að taka með okkur dollur en Bjartmar vissi þetta nú alveg því hann fór með traktorinn sinn og vagn og tíndi ber í vagninn, ég held nú reyndar að það hafi verið eitthvað lítið eftir af þeim þegar hann kom heim. Hann labbaði alveg sjálfur(var leiddur)alla leið upp.....

Hérna eru þeir eftir fyrstu brekku.....

á hraðri leið upp.....

og komnir í berjamó :-)

Posted by Selma at 08:54 PM | Comments (0)

September 12, 2005

Réttir, réttir, réttir

Við S-in fórum norður í réttirnar og skildum B-in eftir heima, einhver lumbra í Bjartmari svo það varð úr að við færum en þeir yrðu heima.

Nema hvað við mættum á réttum tíma á föstudeginum og náði ég að draga nokkrar kindur og bíða eftir safninu auðvitað. Sigurgeiri fannst hins vegar áin miklu skemmtilegri en kindurnar svo hann var þar lengi vel en fór síðan með Bergi vini sínum uppá veg að taka á móti safninu. Þegar ég náði honum loks þá var hann blautur upp að öxlum (hnjám reyndar) svo við drifum okkur í Miðhús.

Fullt af fé á laugardeginum og mikið gaman. Eva Dögg var meira segja mætt og dró fyrir Kornsá, náði nokkrum myndum af henni ...... og líka af henni og Sigurgeiri. Flott.Það var líka réttað á sunnudeginum út í Sveinsstaðarétt og við auðvitað þangað, ekki missa af neinu. Við rákum féð heim. Myndin hér að neðan er af því tilefni.

Posted by Selma at 10:09 AM | Comments (0)

September 08, 2005

Landsmót skólalúðrasveita

Haldiði ekki að Ian vilji að Sigurgeir mæti á landsmót skólalúðrasveita á Akranesi um næstu mánaðarmót. Ég hélt nú að maður þyrfti að vera búinn að vera í mörg ár í lúðrasveit til að fara á þetta landsmót en nei nei bara drífa hann í það. Það er víst unnið í hópum eftir því á hvaða stigi viðkomandi er, sem var víst gott fyrir mig að vita, annars hefði ég haldið að drengurinn þyrfti að æfa sig svolítið mikið þar til hann færi. Ég hin ákaflega stolta móðir fæ nú kannski að fara með honum.

Nú af Bjartmari er það að frétta að hann er auðvitað kominn með hor og bara búinn að vera viku á leikskólanum :/ en það lagast auðvitað þegar lengra líður.

Er ekki svo bara að drífa sig í réttirnar í Vatnsdalnum á morgun :-)

Posted by Selma at 01:01 PM | Comments (0)

September 05, 2005

Skemmtileg ferð

Fórum í virkilega skemmtilega ferð í gær vestur með suðurströndinni.
Byrjuðum á að fara í Strandakirkju en þar var messa svo við fórum í fjöruna þar og við vitann. Strákarnir misstu sig alveg við kuðunga og skeljaleit og við hlupum um á hrauninu sem nær alveg útí sjó. Mjög gaman og fallegt þarna enda frábært veður, logn og blíða.
Ákváðum svo að fara í kaffi í T-bæ og fá okkur kaffi og pönnsur en lentum þar í kaffihlaðborði þar sem var messa þá er alltaf kaffihlaðborð. Alltaf gott að fá kökur því þær eru víst ekki bakaðar hér heima. Nú svo fórum við aftur út að kirkjunni og fórum inn í hana og síðan í fjöruna aftur en þá var farið að flæða að og gott fyrir Sigurgeir að sjá muninn á því.
Síðan keyrðum við til Grindavíkur og þetta er virkilega falleg og skemmtileg leið. Margir í berjamó og að veiða í Hlíðarvatni. Sem sagt mæli með þessari leið fyrir alla. Læt hérna nokkrar myndir fljóta með.


Posted by Selma at 11:35 AM | Comments (0)

September 03, 2005

Sinfó...

Við erum orðin svo tónlistarlega sinnuð að við mættum á opið hús hjá Sinfóníuhljómsveitinni í dag. Ekki það að okkur hafi dottið það sérstaklega í hug heldur sagði Ian Sigurgeiri að það væri rosalega áhugavert fyrir hann að sjá öll hljóðfærin og ekki síst klarinett spilarana spila og kannski fá að prófa. Auðvitað gerðum við þetta og Sigurgeir fékk að prófa, verst ég var ekki með myndavélina. Þetta var bara hin besta skemmtun og ég væri alveg til í að fara á tónleika með Sinfóníuhljómsveitinni. Örugglega síðar.......

Og líka langar mig á gospeltónleikana í kvöld og langaði á tónleikana með Joe Cocker the other day - en minn tími mun koma :-)

Posted by Selma at 07:18 PM | Comments (0)

September 01, 2005

Að bíða

Hér situr maður og bíður eftir því að ná í Bjartmar á leikskólann, maður veit bara ekkert hvað maður á að gera :-)

Fór norður í fyrradag og suður í gær. Við stelpurnar hittumst á Árbakkanum og fengum okkur kökur. Æðislega notalegt, takk fyrir stelpur.

Í gær voru svo próf og síðan beint suður aftur.

Posted by Sel
  • 1
Flettingar í dag: 334
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 641608
Samtals gestir: 98128
Tölur uppfærðar: 23.2.2018 09:57:59

Tenglar