Í fréttum er þetta helst....

Færslur: 2005 Júlí

31.07.2005 22:05

Júlí 2005

July 30, 2005

Ættarmótið

Þá er komið að því að drífa sig norður í Þingeyjarsýslu á morgun.
Öll fjölskyldan að fara og mamma kemur með. Við förum beint norður í Sand á morgun og dinglum okkur þar bara í heila viku.

Beggi veit ekki hvenær hann fer til USA svo hann verður bara rólegur þar til þeir hringja. Ég kem svo auðvitað við á Blönduósi á suðurleið til að fara með nokkra krakka í próf :-)

Svo þar til næst hafið það gott.

Posted by Selma at 10:22 PM | Comments (1)

July 28, 2005

Nýr bíll

Ég held ég sé búin að snúa Begga á að koma með norður en kannski kemst hann samt ekki á ættarmótið, allavega ætlar hann að koma og fara svo bara suður beint í flug ef þarf. En það er nú ekki einfalt að fara með mér nokkurn skapaðan hlut, ég þarf nefninlega alltaf að fara á bílnum mínum því ég fer nú ekkert orðið nema hafa eitthvað uppúr því og eitt smá vandamál við vorum búin að selja alla bílana okkar nema auðvitað minn. Hér selst nefninlega allt. Það var þannig að Beggi keypti þennan forláta jeppa (hann langaði svo óskaplega mikið í jeppa) í vetur, Hilux, dísús hvílík drossía. Nema hvað það þurfti eitthvað að setja hann saman áður en hægt var að keyra hann svo hann eyddi nokkrum klukkutímum í það. En fyrir átti hann fínan station bíl af Toyota gerð, sjálfskiptan sem mér fannst alveg voðalega gott að keyra og við ákváðum að selja hann í vor og gerðum það. Svo átti hann líka húsbíl sem var fyrir 3 og þar af leiðandi ekki mjög hentugur nema að skilja alltaf einn eftir heima og þið getið rétt ímyndað ykkur hver það var :/. Jæja hann var seldur líka bara sí svona einn tveir og þrír. Ekki er nú sagan öll því um síðustu helgi fór Beggi með dót á Sorpu (í Hveró) og þá barst það í tal að hann ætlaði að selja Hiluxinn (yes) og hann seldi hann bara þar, eða næstum því, því strákurinn í næstu götu sem skiptir um dekk á mínum bíl hann bara kom og keypti hann staðgreitt næsta dag og þar með var bara einn eftir, þ.e. minn bíll sem er nú aðeins of lítill ef á að fara í ferðalag með alles.... hundana og allt. Þá var bara að fara á Selfoss og kaupa bíl sem við og gerðum í dag, 7 manna Trooper. Svo nú getum við farið á sitt hvorum bílnum.

Ekkert lát er á gestum hér, í gær kom Sædís blómakona með strákana sína. Í dag komu Valli, Jóhanna og börn á leið á landsmót. Á morgun kemur Harpa E og svo ætlar Fanney systir og hennar fjölskylda að koma annaðkvöld og vera um helgina. Ég er líka búin að baka heilan helling :-)

Læt fljóta nokkrar myndir sem teknar voru í sólinni um síðustu helgi. Sigurgeir var með konsert fyrir frændfólk sitt að vestan.....

Bjartmar fannst það ekkert voðalega spennandi.....

en við höfðum það gott í nýju garðstólunum í frábæru veðri....


og sundlaugin auðvitað nýtt til hins ýtrasta,
fá þeir ekki bara nesti í pottinn....


Í dag fórum við Sigurgeir í skólagarðana því það verður svo langt þangað til við komum aftur og það er sko engin smá uppskera, tókum með okkur aðeins af káli en ætlum að láta hitt bíða þar til við komum aftur. Virkilega flott hjá honum :-)


Posted by Selma at 10:31 PM | Comments (2)

July 27, 2005

Bið á USA ferð

Það er ekkert lát á gestagangi hér og það er auðvitað barasta frábært,
á morgun eru Valli, Jóhanna og krakkarnir á leiðinni
á Landsmót og ætla að koma hér við. Hlakka til og svo á föstudag
var Harpa E að spá í að koma í morgunkaffi, spurning hvort ég nái
að baka eitthvað svo ég geti gefið henni eitthvað gott með morgunkaffinu.

Nema hvað Beggi sem átti að vera að fara til Denver USA á morgun
fer alls ekki á morgun og veit ekki hvenær verður farið. Sumarfríið allt farið í að bíða eftir því að fara til útlanda og ég er að
hugsa um að kyrrsetja hann og láta hann koma með mér á ættarmótið
á Sandi. Ég legg allavega af stað á sunnudag, ef hann þarf ekki
að fara út um helgina held ég að ég taki hann bara með mér.

Ég er að verða búin að skanna inn allar myndir sem mér dettur í hug að einhver hafi gaman af að sjá, ég er allavega búin að hafa gaman
af að setja þær inn og þá er að sjá hvort sé ekki bara hægt að varpa þeim á tjald á ættarmótinu.

Posted by Selma at 09:46 PM | Comments (0)

July 24, 2005

Gestahelgin mikla

Hér er sko búið að vera standandi partý, ja flestir fengu nú sæti, síðan á föstudag. Eins gott að ég bakaði. Við héldum reyndar uppá afmælið hans Bjartmars í dag og það komu gestir víðs vegar að af landinu, bæði boðnir og óboðnir og meiriháttar dagur. Í gær komu Hilmar bróðir hans Begga og fjölskylda og sátum við í marga klukkutíma útí garði í góða veðrinu. Sigga Óla og Erla komu í gærkvöldi af skátamóti og gistu. Meiriháttar.

Sem sagt æðisleg helgi.

Í kvöld var fundur í Sandsættarmótsnefndinni, en ég er auðvitað í henni og er nú allt að verða klárt þar. Leiðin liggur því alla leið austur í Þingeyjarsýslu um næstu helgi. Ættarmótið verður um aðra helgi.

Helga mín í Miðengi fór með Gerplu mína undir hest fyrir mig í dag,
ég á ekki kerru, ég á reyndar bíl til að draga kerru en það er önnur saga. Ég valdi þennan eðalfína gráa hest handa henni sem heitir Huginn frá Haga, fæ auðvitað bara gráa meri næsta vor.
Er búin að setja inn nýjar myndir inná afkvæmi Gerplu en henni fæddist brúnn hestur um daginn. Svo myndaðist ég líka við að setja nýrri myndir af Hildi, sem er folaldið undan Hlökk og líka nýrri mynd af Hrund undan Hyllingu. Þið verðið á smella á nafnið á þeim til vinstri á síðunni (Hrund er inná síðunni hennar Hyllingar).
Einhvern tíman um daginn setti ég líka myndir af Hlyn ef þið viljið kíkja á hann.

Annars allt í orden.

Posted by Selma at 11:00 PM | Comments (0)

July 23, 2005

Gestagangur

Hér er algjör bongóblíða bæði í gær og í dag.

Í gær var gestadagurinn mikli, án þess að það væri afmæli eða eitthvað slíkt. Húnvetningar að fara um suðurlandið, fara úr og í sumarbústaði, og þá er sko um að gera að koma í kaffi, við vorum heima aldrei þessu vant.

Fyrst komu Guðmann, Día og stelpurnar á leið heim úr sumarbústað, Sædís, Himmi og börn voru á leið norður eftir hringferð, Berglind, Auðunn og börn voru á leið í sumarbústað í Miðdal, kannski maður fari og kíki á þau í næstu viku og svo duttu hér inn í gærkvöldi Stína og Hilmar á Hvammstanga.

Sem sagt helmingur saumaklúbbsstelpnanna búinn að koma nú síðustu daga með sínar fjölskyldur og þá eru þær hinar bara eftir að koma.

Takk takk fyrir innlitið allir þeir sem komu í gær, frábærlega gaman.

Posted by Selma at 12:32 PM | Comments (1)

July 21, 2005

Nokkrar myndir

Tók nokkrar myndir af 2ja ára prinsinum í dag við hin ýmsustu störf. Ég held hann hafi bara átt góðan dag, allavega átti ég mjög góðan dag, veðrið loksins alveg frábært og bara verið að hangsa. Bakaði reyndar snúða í morgun fyrir afmælisbarnið og setti mikið súkkulaði á þá. Honum finnst þeir alveg óskaplega góðir sérstaklega súkkulaðið :-)

Í gær áttum við líka alveg frábæran dag því þá komu Jobba, Jón og krakkarnir og það var alveg meiriháttar. Borðuðum mikið, krakkarnir fóru auðvitað í pottinn og þetta var barasta alveg meiriháttar. Þessi mynd er sem sagt síðan í gærkvöldi.

Hér er Bjartmar mættur í afmæliskaffið, búinn að borða snúð og er sennilega að halda ræðu......


að sjálfsögðu var ís í eftirrétt....


svo var ein hefðbundin fjölskyldumynd, meira segja Perla með..


síðan fór Beggi uppá þak og hélt hann þyrfti eitthvað að laga :-)


og strákarnir réðu ráðum sínum


en ég gerði auðvitað ekki neitt því það var alltof mikil sól :-)


sem sagt mjög góður dagur og afmælisbarnið dauðuppgefið þegar það fór í rúmið.

Posted by Selma at 09:28 PM | Comments (0)

Bjartmar á afmæli

Litli prinsinn á afmæli í dag, 2ja ára.

Posted by Selma at 12:22 PM | Comments (2)

July 14, 2005

Árs afmæli

Það er nú bara heilt ár, um það bil þegar ég skrifa þessar línur, frá því við fluttum hingað. Mikið er tíminn fljótur að líða. Í tilefni dagsins fórum við til Reykjavíkur þó það væri bongóblíða hérna og fjárfestum í garðhúsgögnum, þau voru komin á útsölu ég tek það fram.

Drifum okkur heim og strákarnir í pottinn, upp með borðið og stólana, kallinn fór að grilla og ég gerði ekki neitt :-) og þegar kom að því að borða þá var orðið svo kalt að við fluttum húsgögnin fínu inn í garðhús og borðuðum þar.

Perlu leist meira segja vel á þetta held ég. Loksins kemur nú ein mynd af henni. Hún er svo sæt :-)


Á morgun er svo ráðgert að fara norður "aftur", ætlum að koma við hjá mömmu hún á afmæli. Við ætlum bara að mæta með köku til hennar og fá smakk auðvitað. Ég á nú samt alveg von á því að það verði til kökur hjá henni.
Við förum öll norður, verðum hjá þeim Ólöfu og Jonna í íbúðinni þeirra, það er æði eða eins og Sigurgeir sagði, "það er svo gott að vera hér, það er svo mikil kyrrð."
Verðum við ekki að mæta á Matur og mennig, ég ætla reyndar að kenna svolítið og vera fram á miðvikudag, þá er próf. Beggi ætlar suður á sunnudaginn með 1 strák allavega og hundinn :-)


Posted by Selma at 11:23 PM | Comments (0)

July 13, 2005

Afmæli

Helmingurinn af Eyvindarstaðafjölskyldunni á afmæli í dag.
Til hamingju með daginn Fanney, Óskar og Guðmar.

Ég er að skanna inn myndir fyrir ættarmótið okkar sem verður á Sandi helgina 4.-7. ágúst. Ótrúlegt hvað maður finnur margar skemmtilegar myndir, ég tala nú ekki um af manni sjálfum, gúd hevens. Jæja hvað um það annar skanninn á heimilinu gaf upp öndina, þetta eru svo margar myndir eða ekki þolað allar þessu flottu myndir af mér ég veit ekki en það er allavega mikil vinna að skanna allt þetta inn en verður gaman að skoða þetta þegar það er búið.

Posted by Selma at 11:22 AM | Comments (0)

July 10, 2005

Nokkrar myndir

Auðvitað eru breyttar ferðaáætlanir hjá Begga svo allt fer úr skorðum aftur. Hann fer sem sagt ekki 14. júlí og veit ekki hvenær það verður, kannski 21. Ég ákvað það þá að vera ekkert að fara núna til Boston heldur fresta því um ár allavega þá verður Elfa líka komin til Boston og það verður meiriháttar að heimsækja hana.
Sumarbústaðinn var hann búinn að gefa eftir þannig að ekki verður farið í hann og og og...... veit ekki meir.

Jæja það var svo mikið gert hér á meðan ég var að kenna fyrir norðan að ég læt fljóta með nokkrar myndir frá því öllu.

Sigurgeir var á reiðnámskeiði alla vikuna í Þorlákshöfn og það var auðvitað alveg meiriháttar. Hann bauð stelpunum sem hann var með á námskeiðinu í heimsókn og hér kemur mynd af þeim, eru þau ekki krúttleg....Potturinn nýmálaði var í notkun alla daga þegar ekki var rigning og mér skilst að það hafi þá verið frá því Sigurgeir kom af reiðnámskeiðinu og fram að kvöldmat.....Þeir feðgar höfðu samt tíma til að mála garðhúsið og leggja steinana í það aftur og þeir voru ALLIR mjög duglegir við það og annað sem því viðkom t.d. að búa til holur og skurði eftir að búið var að fá þjöppuvél til að þjappa sandinum í gólfinu við litla hrifningu þess elsta. En þetta gekk allavega allt saman voðalega vel.Og auðvitað hélt Bjartmar áfram með bílana eftir að inn var komið og raðaði þeim öllum í rúmið sitt.....


Það er auðvitað engin mynd til af okkur gömlu, enginn til að taka mynd af okkur :/


Posted by Selma at 10:50 AM | Comments (0)

July 09, 2005

Komin heim

Vá heil vika er liðin og ég komin heim eftir meiriháttar skemmtilega viku fyrir norðan að kenna.
Fullt af skemmtilegum krökkum.
Frábær gæsadagur með Ólöfu Birnu.
Alltof fáar kaffiheimsóknir en margar á bensínstöðina.
Barasta góð vika en gott að vera komin heim.
Meir fljótlega.

  • 1
Flettingar í dag: 700
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 641974
Samtals gestir: 98135
Tölur uppfærðar: 23.2.2018 16:02:56

Tenglar