Í fréttum er þetta helst....

Færslur: 2005 Apríl

30.04.2005 21:54

Apríl 2005

laugardagur, apríl 30, 2005

Allir úti í allan dag

Já hér var nú bara gott veður í allan dag enda allir úti í garði. Ég fór reyndar á námskeið hjá Ökukennarafélaginu í morgunn en kom heim um hádegi og þá voru þeir feðgar að smiða veggi og þeir dunduðu við það í allan dag, þ.e. rífa veggi og smíða aðra í staðinn. Þeir voru misduglegir eftir aldri, ég held sá minnsti hafi komið minnstu í verk en varð samt mest úr verki held ég, hann stoppaði ekki allan daginn enda svo þreyttur þegar hann kom inn að hann bara grenjaði þar til hann sofnaði.

Ég hins vegar keyrði mörgum hjólbörum af mold í beðin allt í kring um húsið og sér ekki högg á mold, allavega á ég eftir að fara með margar hjólbörur í viðbót ef haugurinn á að hverfa nema ég geti selt manninum í næsta húsi afganginn. Nú ég var svo þreytt eftir þetta að ég næstum sofnaði fyrir framan Spaugstofuna og hana hef ég nú eiginlega ekki séð í allan vetur. Ég marði það samt.

Ef veðrið verður áfram svona gott á morgun þá held ég áfram með moldina, sjáum til hvenær hún verður búin......

Selma

Vinir í timburvinnslunni


Þeir voru nokkuð góðir í timburvinnslunni þeir vinirnir Sigurgeir og Jóhann og pússuðu ansi margar fjalir. Posted by Hello

Bjartmar líka með hamarinn


Annar góður með hamarinn og var líka til í að rífa niður veggi en steinar urðu nú frekar fyrir barðinu á hamrinum en veggir. Posted by Hello

Rífa niður


Það eins gott að vera ekki fyrir maður yrði bara rifinn niður. Sigurgeir ljómandi góður með hamarinn og nokkrir svona frekar þreyttir veggir rifnir niður í dag.  Posted by Hello

föstudagur, apríl 29, 2005

Mold

Sigurgeir ákvað að vera veikur í dag, með ljótann hósta svo hann var bara heima. Þá var hann settur í útivistarbann þar sem hann myndi nú ekki skána nema hann væri inni. Það tókst nú ekki þar sem það var örugglega 15 stiga hiti og ég varð auðvitað að reyna að koma moldinni, sem sturtað var niður hérna fyrir fram í gær, í öll beðin því þau eru moldarlaus og mér tókst að komast með nokkrar börur.

Hann fór líka út með pabba sínum að rífa niður eitt grindverk og það á sem sagt að fara í það á morgun að setja annað upp. Ég þarf hins vegar að fara á eitt námskeið hjá ökukennarafélaginu í fyrramálið og svo kenna eins og einn tíma. Svo kemst ég aftur í moldina. Annars voru nágrannar mínir eitthvað að öfundast út í þessa mold og höfðu áhuga á að vita hvar við hefðum fengið hana. Ég sagði eins og satt var það kom einhver maður með hana og sturtaði henni þarna fyrir framan. Og ég yrði sem sagt að reyna að klára þetta í kvöld svo henni yrði ekki mokað annað í skjóli nætur. Maðurinn sagði þá að hann hefði einmitt beðið í allan dag eftir því að ég færi í vinnuna. Ég sagði honum að hann yrði þá að bíða lengi því ég væri bara alls ekki í neinni vinnu, væri BARA heima.

Selma

Listaverið hans Sigurgeirs


Erum alveg óendanlega stolt yfir þessari handavinnu sem drengurinn kemur með heim úr skólanum. Hann mætti með þessa flottu vefmynd í gær og ég náttúrunnilega missti alveg andlitið. Ég held ég hafi ekki búið til mynd í líkingu við þetta fyrr en ég fór í Húsmó og þá var ég orðin nokkuð gömul.  Posted by Hello

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Idol

í gær þegar ég sótti Sigurgeir í skólann.
Hann fór í próf á klarinettið í gær, ég veit svo sem ekki hvaða próf hann var að taka en hann náði öllu allavega en þetta fór sem sagt svona fram þegar hann var sestur í bílinn.

ég: hvernig gekk í prófinu
hann: vel
ég: náðir þú
hann: já öllu
ég: var Ian einn eða var prófdómari
hann: nei það voru líka tvær konur og ég var alveg að fara að hlægja þegar ég var að spila
ég: nú af hverju
hann: þetta var alveg eins og í Idolinu

Selma

þriðjudagur, apríl 26, 2005

Grænt

Ég var 4 daga í burtu um síðustu helgi og það var bara allt orðið grænt þegar ég kom til baka. Tréin eru meira segja að verða græn. Svo ég fékk auðvitað græna fingur og er alveg búin að þrífa eitt beð sem er ca 1x1. Mér fer auðvitað fram því ég hef nú ekki þurft að sinna þessu mjög mikið í gegnum árin. Ef mér tekst að klára eitt svona á dag þá verð ég að öllum líkindum búin í haust :)

Selma

mánudagur, apríl 25, 2005

Góð helgi

Meiriháttar helgi og við komin heim.

Helgin var í alla staði æðisleg, margt gert, en ekki nóg klárað og lítið um kaffiheimsóknir. Sigurgeir sá reyndar alveg um þann þáttinn, gisti á þremur stöðum og hélt mikla tónleika fyrir afa sinn og Höllu í Miðhúsum, ásamt því að hjálpa til í húsunum og þvo kýr og þess háttar. B-in komu í fermingarveisluna og ég "sendi" þá bara aftur suður samdægurs.

Verð nú að segja ykkur löggusögu:
Hún verður nú frekar sjaldan á vegi mínum en virtist vera eitthvað umhugað um það í gær. Byrjaði nú á því að þegar ég var á leiðinni út á Blönduós mæti ég ekki Blönduóslögguni, á sunnudagsmorgni uppúr níu, dísús enginn friður, ég var auðvitað á löglegum eins og "alltaf" og þar sem maður sér nú alls ekki inní "þennan" löggubíl gat ég bara ekki veifað fyrr en hann var farinn hjá, sá að þetta var hann Himmi og maður veifar alltaf þeim sem maður þekkir. Nema hvað skrapp fram í Langadal í hádeginu og þar var aftur löggan á ferð og svo fór ég að kenna á Skagaströnd og hvað haldið þið þá var hann Himmi þar og loksins gat ég veifað því þá var hann kominn á jeppann. Nema hvað ekki var nú öll sagan sögð því þegar við komum á Kjalarnesið þurfti löggubíll endilega að ná því að vera á UNDAN mér frá Grundarhverfinu og ég næsti bíll sem er alls ekki í frásögur færandi en ég fer auðvitað ekki fram úr löggubíl, ætti nú ekki annað eftir nema hann myndi hleypa mér fram úr sem hann gerði ekki enda keyrði hann á 90 og ég líka. Bíllinn eða maðurinn í bílnum á eftir mér var svo viðþolslaus að komast framúr að ég hleypti honum framúr. Hann hékk gjörsamlega aftan í löggubílnum að mér datt ekki annað í hug en að þeir myndu stoppa manninn og ávíta hann. Nei nei hangir þarna og lætur sig svo bara hafa það að taka fram úr og bless, horfinn. Og þeir blikkuðu hann ekki einu sinni. Nú ég næsti bíll komst að því að löggan keyrir bara alls ekki á löglegum, hún rokkaði þetta frá 90 uppí 105 og þá gerði ég það bara líka. En mest var ég nú hissa á þessum sem tók framúr og löggan hafði ekki einu sinni gefið honum stefnuljós um að hleypa honum. Jæja við förum örugglega öll alltaf eftir settum reglum er það ekki :-)

Selma

miðvikudagur, apríl 20, 2005

Mátti til

Mátti til að setja hérna inn tvær myndir. Við fórum sem sagt fram og til baka sl. sunnudag í fermingarveislu til Jóns Árna sem haldin var í Flóðvangi. Það var æðislegt. Þeir voru þreyttir á leiðinni suður og sváfu alla leiðina.

Svo var árshátíð yngri barna í dag í skólanum og Ian vildi auðvitað að Sigurgeir spilaði og það var nú ekki málið. Það fyndna við þetta er að það virðist ekki vera neitt mál að standa þarna fyrir framan allt þetta fólk en það er svo mikið mál að fara í tónlistartímana í skólanum því það er svo mikið af "stórum" krökkum að ég fylgi honum alltaf alla leið. Skrítið. En þetta var auðvitað barasta flott hjá honum.

Á morgun ætlum við Sigurgeir að leggja land undir fót og halda norður, hann að heimsækja alla vini sína, hann er alveg búinn að skipuleggja þetta allt saman, eina nótt hjá Benna og eina nótt hjá afa og hvort við getum ekki verið líka þar sem var svo kyrrt og hljótt og þá meinar hann hjá Ólöfu og Jonna. Við byrjum allavega á að heimasækja sumarskemmtunina á morgun og svo vinn ég dálítið og kenni kannski líka. Sé til hvernig úr rætist og svo má auðvitað ekki gleyma aðalatriðinu, fermingarveislan hans Arnars Helga, við mætum sko í hana. B-in sem verða heima á morgun þeir fara bara fram og til baka á laugardaginn.

Selma

Spilað á klarinett


Minn maður að spila á klarninett á árshátíð yngir barna í dag. Það var nú ekki málið. Posted by Hello

Þreyttir ferðalangar


Þreyttir ferðalangar, tekið á leiðinni suður sl. sunnudag, eftir frábæran dag í Flóðvangi. Posted by Hello

laugardagur, apríl 16, 2005

Missti mig

Jæja mín missti sig nú alveg í Debenhams í dag, dísús hvað ég hefði getað keypt mikið en sá ekki að ég hefði nokkur not fyrir allt það sem mig langaði í og mig sem langar yfirleitt aldrei í neitt og það leiðinlegasta sem ég geri er að fara að kaupa mér föt.

Nema hvað ég fór að kenna í Reykjavík í morgun sem er ekki í frásögur færandi nema það að ég ákvað að fara með nemandann út fyrir bæinn og tók veginn í áttina að Hafravatni og ætlaði niður í Mosó. Jæja við erum svo mikið að spjalla að ég tók ekki eftir afleggjaranum og við keyrðum og keyrðum og keyrðum og mér var nú ekki farið að lítast á blikuna. Þvílíkt skítaveður og ekki nokkur maður á ferðinni. Ég held svei mér þá að við höfum verið á leiðinni á Þingvelli svo ég sneri hið snarasta við og fann auðvitað afleggjarann á leiðinni til baka. Þvílíkt og annað eins en hún fékk allavega mjög góða æfingu í að keyra í brjáluðu roki og rigningu á hálendisvegi!

Nú þar sem við erum að fara í fermingarveislu NORÐUR á morgun þá var ég auðvitað alveg fatalaus og ákvað aðeins að skreppa í Debenhams og aldrei þessu vant þegar ég er búin að sjá draumapilisið þá kemur þessi líka aldeilis almennilega kona og býðst til að hjálpa mér sem endar auðvitað með því að ég er komin með 10 buxur og 10 boli/skyrtur og ég fór heim með fullan poka af fötum. Er ekki allt í lagi að ýkja um helming, hann var reyndar bara hálfur pokinn, en hefði getað verið fullur......

Svo maður er uppstrílaður í veislunni á morgun og líka um næstu helgi því þá förum við aftur NORÐUR í fermingarveislu.........

Selma

miðvikudagur, apríl 13, 2005

Til Þýskalands

Á sunnudag ákvað ég að drífa mig til Þýskalands að heimsækja Önju, Bertil og Miru litlu og skellti mér á netið til að athuga verð. Jú jú það kostaði ekki nema 27.000 + skatta á mánudagskvöld en þar sem Beggi hélt ég gæti notað flugpunktana hans ætluðum við að skoða þetta í gær. Nema hvað það var nú allt upppantað í þau punktasæti svo ég ætlaði bara á visakortinu mínu en þá var verðið komið uppí 33.000 + skatta. Okei skella sér á það en þar sem Bjartmar var nú ekki alveg að lofa mér að dunda í tölvunni í gær ákvað ég að klára þetta bara í gærkvöldi en viti menn þá var verðið komið uppí 63.000 + skatta. Á örfáum klukkutímum. Ég ætlaði sko að nota uppstigningardag og koma á sunnudegi heim en breytti því, fer á föstudegi 6. og kem á mánudegi 9. heim og það kostaði ekki nema 25.000 + skattar.

Sýnir manni að maður á alltaf að skella sér á það sem maður sér fyrst.....

Selma

sunnudagur, apríl 10, 2005


.... hundarnir fíluðu ströndina alveg í botn líka. Posted by Hello


Fórum á "ströndina" um páskana, veðrið var reyndar ekki alveg eins gott og á Kanarí um jólin en þvílík fegurð og friðsæld.... Posted by Hello


Já það má nota heita pottinn hérna á hvaða árstíma sem er eins og þið sjáið. Þetta fannst þeim bræðrum alveg óskaplega skemmtilegt. Posted by Hello

laugardagur, apríl 09, 2005

Gera hvað

Já spurningin hvað ég hef verið að gera þessa viku, jú ég kláraði iframe verkefni, sem er vefsíða með iframe ramma, what ever. Allavega er þetta í fjarkennsluáfanganum mínum í IR og þið fáið að sjá það fljótlega. Það tók nú tímana tvenna en kláraðist og er auðvitað svakalega flott. Nú svo er ég að kenna henni Evu Dögg pössunarpíunni minni. Ég hef kennt henni á kvöldin þar sem ég hef BARNAPÍU þá, þ.e. Beggi er heima hahahahaha.

Í gær fórum við í dúndurafmælisveislu til hennar Helgu Guðrúnar Albertsdóttur sem var 4 ára, þetta var nú reyndar eins og fermingarveisla eins og Jóhönnu er von og vísa og mikið svakalega er alltaf gaman að komast í afmæli á þann bæinn. Takk fyrir.

Á morgun byrja svo framhaldssaga í fermingarveislum, fyrsti í fermingu er sem sagt á morgun síðan er ferming fyrir norðan 2 næstu helgar. Geggjað og ég hlakka svo mikið til.

Annað er nú ekki fréttnæmt held ég - ég allavega man það ekki núna..............

Selma

mánudagur, apríl 04, 2005

Myndir

Setti hérna myndir af mér með bikarinn og auðvitað er sko neðsta myndin sú fyrsta sem þið eigið að skoða og svo upp.......

Selma

Ég og Tryggvi með BIKARINN


og svo auðvitað ég með sjálfum tamningamanninum Tryggva sem tamdi djásnið sem vann til þessara verðlauna, auðvitað gerði ég ekki neitt nema eiga hana.  Posted by Hello

Ég og Beggi með BIKARINN


og svo auðvitað við gömlu saman með BIKARINN. við erum svo sæt!!!!! Posted by Hello

Ég með BIKARINN


ætlaði ég ekki að senda ykkur myndir af mér með BIKARINN, hér kemur ein af mér með bikarinn, hvenær skildi ég fá bikar aftur.... Posted by Hello

sunnudagur, apríl 03, 2005

Kaffihús

Ég verð nú að nefna það, við ákváðum að drífa okkur á kaffihús í dag þar sem MIG langaði svo ofboðslega mikið í djúsí köku og hún var auðvitað ekki fáanleg á mínu heimili svo við fórum á Kaffi Krús á Selfossi þar sem við nenntum ekki niður á Hafið Bláa sem er ferlega flottur staður hérna niður frá. Nema hvað það er auðvitað ekki í frásögur færandi nema að þegar við opnuðum dyrnar þá flæddi á móti okkur þessi svakalegi reykjarmökkur og mér varð á orði ands.... stybba er þetta og allir litu á mig!! Þetta er auðvitað fyndið að á svona pínulitlum kaffihúsum eru borð fyrir reyklausa í öðru horninu og borð fyrir reyk í hinu horninu og auðvitað þar sem staðurinn er svo lítill þá eru þessi tvö borð nærri hlið við hlið. Ég lét mig samt hafa það að anda þessum ferska ylmi að mér og auðvitað mátti restin að familíunni gera það líka. En ég ætla svo sem ekkert endilega þarna aftur.

Nú undanfarið hef ég dundað mér við það á kvöldin og alla helgina reyndar að klára nokkur framtöl fyrir vini og vandamenn og svo skaust ég til Reykjavíkur í dag til að kenna og leit aðeins við á sölusýningu Húnvetninga í Kópavoginum og hitti þar góða vini mína, voðalega gaman. Nú ég bara man ekki eftir neinu örðu merkilegu en það hlýtur að detta eitthvað inn á næstu dögum......

Selma

  • 1
Flettingar í dag: 334
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 641608
Samtals gestir: 98128
Tölur uppfærðar: 23.2.2018 09:57:59

Tenglar