Í fréttum er þetta helst....

Færslur: 2005 Janúar

31.01.2005 21:47

Janúar 2005

sunnudagur, janúar 30, 2005

Enn á ný ný vika

Þá er enn ein vikan búin og ný hafin, þetta virðist vera alltaf sami hringurinn, skildi enginn hafa tekið eftir því nema ég!!

Viðtölin gengu fínt auðvitað, Bjartmar var bara þokkalega þægur í sínu viðtali og fékk sprautu, Sigurgeiri leist reyndar ekkert of vel á það en það hafðist allt. Nú Sigurgeir fékk mjög góða umsögn í skólanum, hann "á það til" að vera fljótfær og drífa þetta af svo hann komist í næsta verkefni en er orðinn góður í lestri og stærðfræði en finnst nú ekki eins gaman að skrifa. Svo það er nú bara allt í góðu gengi. Hann byrjaði líka í klarinett á föstudaginn og finnst það mjög spennandi.

Ég hef hins vegar legið yfir heimasíðunni "minni" sem við Harpa E. erum að gera eða sko Harpa hún sér nú alveg um þetta ég sendi henni texta eða mynd svona öðru hverju og svo mösum við saman á msn-inu um þetta allt saman. O það er svo gaman að vera saman á msninu.......
Inn á milli er ég svo að setja mig inn í Dreamweaver sem er næsta verkefni mitt í fjarnámi í Iðnskólanum en það er einmitt að læra að búa til vefsíður og ýmislegt því tengt. Mér sýnist þetta vera mjög spennandi sem tekur auðvitað alveg mjög mikinn tíma en eins og allir vita þá hef ég nóg af honum því ég er bara heima.

Já ekki má gleyma því að við Hrafnhildur og Magga hittumst og ég verð nú að segja það að það var alveg meiriháttar, gaman að sjá þær aftur og knúsa þær og spjalla yfir kaffi og kökum. Hreint alveg æðislegt, takk fyrir stelpur.

Í dag var gestadagur sem byrjaði kl. 12.30 (ég var ekki búin að baka) en þá komu Njáll frændi minn og hans fjölskylda. Hann var að prufukeyra nýjan Landrover fyrir umboðið (held ég) og tók sér auðvitað rúnt í Hveragerði en ekki hvað - það er nú yfir heila heiði að fara. Svo komu Solla og Valdi og börn og fengu hér mikið af kökum og kaffi og mikið spjallað og spekulerað. Þannig afskapleg skemmtilegur gestadagur og nú liggur maður í tölvunni.......

Selma

miðvikudagur, janúar 26, 2005

Viðtalsvikan

Þetta er viðtalsvikan. Í gær fórum við Sigurgeir til læknis, í dag fer Bjartmar í eins og hálfs árs skoðun og á morgun er foreldraviðtal og svo er ég búin að vera í mörgum viðtölum við Hörpu E.

Nú það er nú komið rúmt ár frá því við fórum fyrst til læknis útaf þessu og ennþá er þetta ekki orðið gott. Það var sem sagt framleiðslugalli á Sigurgeiri og hljóp ígerði í einhver göng við eyrað, nenni nú ekki að útskýra það meir, sem endaði með aðgerð á þessu sl. vor en þar sem var svo mikil ígerð í kirtlinum (fitukirtill sem lokast ekki) þá náðu þeir honum ekki alveg svo þetta hefur verið að poppa upp af og til alveg til þessa. Ég gafst upp og við fórum aftur í gær og þá sagði læknirinn að það væri best að hann færi í aðgerð aftur til að taka þetta og þá ætti þetta að verða gott. Þannig var nú það. Sigurgeir er búinn að fá margar spurningar útaf þessu og hann segir bara núna, ja ég fæddist með þetta og það er jú alveg satt.

Svo er að bruna í Hafnarfjörðinn í kvöld að hitta Hrafnhildi og Möggu og ég verð nú að segja það að ég get ekki beðið.

Selma

mánudagur, janúar 24, 2005

Fór norður

Skellti mér norður um helgina, EIN, var að kenna svo ég skildi alla kallana eftir heima, þeir hafa svo gaman af því þegar ég fer í burtu!!!!

Fór noður á föstudegi og náði að festa mig í skafli á fyrsta bænum sem ég kom á, fín byrjun á ökukennslu. Strákarnir á bænum komu bara og drógu litla sæta bílinn minn upp, hann er nú ekki mikið fyrir snjó blessaður og greinilegt að það er ekki gert ráð fyrir því að þurfa að draga þennan bíl því það er hvergi hægt að binda í hann. Nema hvað ég náði að kenna 2 strákum 4 tíma á föstudagskvöldið og aftur á laugardeginum. Og þar sem maður er svo fljótur að gleyma hvar snjórinn ákveður að hvíla sig þá auðvitað festum við okkur aftur á laugardeginum. Þá hringir maður í bestu vini sína, þ.e. þá sem eiga JEPPA og þeir koma manni til bjargar, takk Höddi, hálf neyðarlegt að sitja fastur í skafli með ökunema með sér í bílnum. Ætli maður verði ekki bara að fá sér jeppa, maður er auðvitað ekki maður með mönnum nema eiga einn slíkan.

Ég komst svo í kaffi á nokkra staði, auðvitað ekki alla en takk fyrir kaffið. Sunnudagurinn var svipaður, kenna svolítið og síðan kaffi og KÖKUR á Árbakknum með saumó, það var æði, æði. Svo bara brennt suður í þessu leiðindafæri sem var, en sem betur fer ekki rok, bara hálka sums staðar.

Nú svo er bara þetta hefðbundna nú í morgun nema að það er starfsdagur í skólanum svo Sigurgeir er heima.
Kannski maður drífi sig eitthvað eftir hádegið ef veðrið helst gott.......

Selma

miðvikudagur, janúar 19, 2005

Geggjað veður

Jæja þetta er nú meira skítaveðrið, ekki hundi út sigandi enda hefur Perla ekki viljað fara út úr húsi hvað þá við. Og skaflarnir oj bara, við nenntum ekki einu sinni út til að fara í fimleika, bara liggjum og horfum á sjónvarpið.

Bjartmar er búinn að uppgötva að stólarnir ALLIR eru færanlegir og þeir eru nú á ferðinni allan daginn, ýmist inní sjónvarpsherbergi, eldhúsi, stofu eða forstofu. Uppgötvaði að hann gæti nú bara alveg sjálfur opnað sjónvarpsskápinn bara með því að ýta stólnum þangað, fara upp, sjá að það passaði ekki alveg, fara niður, prófa aftur og opna hurðina, fara niður, færa stólinn fyrir hina hurðina, upp og opna hana líka. Þetta var alveg stórsniðugt og geta svo fiktað í öllum tökkunum sem eru búnir að vera lokaðir inni lengi, eða maður nær ekki í þá. Þvílík uppgötvun ég tala nú ekki um uppvaskið og ýmislegt fleira sem er skemmtilegt með þessa stóla. Mamma gamla ekki eins hrifin!!!!!

Selma

sunnudagur, janúar 16, 2005

Gestir og afmæli

Vá æðislegt það komu gestir í gær en það voru Albert, Jóhanna og börn. Það var voðalega notalegt og af því hann hafði nú vit á að hringja á föstudagskvöldið til að boða komu sína þá snaraðist mín til að baka í gærmorgun, maður verður nú að eiga eitthvað með kaffinu.


Í gærkvöldi dreif ég mig svo í fertugs afmælið hennar Hrafnhildar, maður má nú aldrei missa af neinu. Hún hélt uppá það heima í litla húsinu sínu í Hafnarfirði. Alveg ágætasta útsýni úr því húsi. Það sem kom mér nú mest á óvart voru dætur hennar tvær, Jón Þór var ekki heima, þær eru orðnar fullorðnar. Ekki veit ég hvenær ég sá þær síðast en það er greinilegt að það er mjög langt síðan því ég hefði ekki þekkt þær útá götu svo mikið hafa þær breyst en samt mikið líkar mömmu sinni. Aldeilis fínt partý hjá henni, takk fyrir það.

Nú svo er ég bara ennþá að dunda við textann á heimsíðuna mína, þetta fer alveg að koma Harpa mín þ.e. Harpa E ekki Harpa H.

Selma

föstudagur, janúar 14, 2005

Sammála Nöldra

Ég verð nú að segja það að ég er nú svolítið sammála Nöldra á Húnahorninu með niðurstöðu spurningu vikunnar þar sem fram kemur að fólk vill frekar hafa lágvöruverslun með takmörkuðu vöruúrvali á Blönduósi. Ég verð nú að segja það að fólk veit nú bara ekki hvað það er að tala um fyrr en það kemst að því. Ég man ekki betur en að það hafi allt orðið vitlaust þegar Mjólkursamsalan keypti MH og kom með óætu grænu súrmjólkina og hætt var að selja grænu súrmjólkina frá KS (hún er sko í grænum umbúðum, ekki græn!!) í Kaupfélaginu/Húnakaup. Það varð allt vitlaust því það vildi enginn kaupa þessu vondu súrmjólk frá MS svo þeir í KH urðu bara að gjöra svo vel að halda áfram að kaupa inn þessa frá KS.

Ég hefði örugglega líka viljað lágt vöruverð ef ég væri ekki búin að komast að því hvað það er ógeðslega pirrandi að hafa lítið vöruúrval en hér í Hveragerði eru tvær búðir, Bónus "auðvitað" og Hverakaup og það fæst ekkert í Bónus nema það sem hægt er að koma í stórar pakkningar og Hverakaup er frekar lítil búð en hún er allavega með fleiri tegundir EN aldrei það sem manni vantar og þá þarf maður í Nóatún á Selfossi (og hún er ekkert sérstaklega ódýr, samanber samanburð á mjólkurlítra) til að finna það sem manni vantar og það er stundum ekki til þar heldur. Getur það farið í taugarnar á manni þegar maður er búinn að skrifa niður á miða hvað maður ætlar að nota í þessu fáu skipti sem maður gerir eitthvað annað en þetta venjulega og það fæst ekki í búðinni næst manni.

KH eða Húnakaup hefur nefninlega staðið sig með prýði hvað vörutegundir varðar og ég held fólk átti sig ekki alveg á því fyrr en á reynir. Vöruverð kannaði ég svo sem aldrei því ég var ekkert að pirra mig á því, það kostar líka að keyra lengri leiðir eftir vörunni sem mér finnst nú ansi oft gleymast.

Selma


mánudagur, janúar 10, 2005

Súkkulaðimúss

Dí maður hafið þið nokkurn tíman dottið ofan í súkkulaðimúss-skál og ekki getað hætt. Það kom fyrir mig í dag og ég er með uppí háls. Það var nefninlega svolítill afgangur af dessertinum síðan á laugardag þegar Gústi kom í kvöldmat til okkar og ég stóðst ekki skálina í dag og hellti mér í hana. Málið er að mig langaði svo rosalega til að gera dessertinn sem Jói Fel (var samt ekki að spá í hvar hann færi í sturtu) gerði 6. des. sl. sem er með 300 gr af 70% súkkulaði og hann er ógeðslega heví maður en ef maður fer og fær sér svona GÓÐA matskeið á háfltíma fresti þá er hann geggjað góður og það var sem sagt það sem ég gerði í dag og mig langar nú ekki í meir ég verð að segja það en það er ennþá svolítið til af honum, nóg til laumast í skálina á morgun.

Annars er nú bara ekkert að gerast hér nema snjór en hann er víst alls staðar .....

Selma

miðvikudagur, janúar 05, 2005

Ferðasagan

Sá eini sem þurfti að fara í vinnuna í dag var Sigurgeir greyið og það tók tímana tvenna að vekja hann þótt hann væri búinn að sofa frá því uppúr 18 í gærkvöldi. Við vöknuðum auðvitað fyrir allar aldir 5.30 í gærmorgun til að fara í flug og ég hélt hann myndi nú sofna í flugvélinni heim en nei alls ekki, hélt sér vakandi alla leiðina og steinsofnaði svo í bílnum á Hellisheiðinni og var borinn inn sofandi og svaf alveg til 7 í morgun. Dagurinn fór svo í að ná í Perlu austur í Landssveit og koma við hjá Helgu að kíkja á hvolpana hennar Brellu. Flottir og skemmtilegir.

En eitthvað úr ferðinni, hmmmm..... allavega hef ég komist að því að upphituð sundlaug er ekki sama og upphituð sundlaug. Upphituð sundlaug á mælikvarða ÞEIRRA er ekki sama og upphituð sundlaug á mælikvarða OKKAR. Sundlaugin við hótelið var sem sagt skítköld allan tímann en átti samt að heita upphituð.

Nú í sjálfu sér gerðum við eiginlega frekar margt og ekki neitt, við fórum á markað í Mogan á aðfangadag eins og ég sagði ykkur um daginn og það var afskaplega gaman, við fórum í alla dýragarða, það fóru allavega 3 dagar í það. Við ætluðum að fara og skoða hellana en leigubílstjórinn neitaði að keyra okkur þangað því það væri heilir 30 km þangað og kostaði alltof mikið fyrir okkur, hann vissi greinilega ekki að við værum Íslendingar og þá skiptir engu hvað hlutirnir kosta en af því það var engin skoðunarferð þangað á vegum ferðaskrifstofunnar þá ætluðum við bara að fara þangað sjálf og þar sem við leigðum ekki bíl þá ætluðum við bara með leigubíl. Maðurinn kunni nú enga ensku, þeir kunna frekar þýsku heldur en ensku því allt fullt af þjóðverjum þarna og þegar hann var loksins búinn að skilja hvert við vildum fara vildi hann ekki fara og við sem sagt fórum ekki neitt í hellana, eins og mig langaði nú. Jæja en innfæddir, eða allavega þeir sem búa þarna tala ekki mikla ensku en tala flestir þýsku fannst mér.

Svo var farið á ströndina, sem var nú ekki langt frá, þar sem ekki var hægt að vera í sundlauginni og Sigurgeir hefði getað verið allan daginn þar, verra með Bjartmar hann var eitthvað svo mikið fyrir að fara eitthvað annað en hann átti að gera.

Nú svo fórum við auðvitað í öll þau MALL sem við gátum fundið (eins og allir hinir Íslendingarnir) og þau eru nú mörg og mismunandi. Þar er auðvitað mesta fjörið á kvöldin, sérstaklega við Yumbo og Kasbah en við fórum nú oftar í Yumbo á kvöldin, bara svona til að labba um og kíkja á alla þessa listamenn/sölumenn sem eru með vörur sínar til sölu, mjög skemmtilegt. Hins vegar eru verslunarmennirnir afskaplega leiðinlegir þar, það liggur við að þeir ráðist á mann og draga mann inn í verslanirnar og bjóða manni svo eitthvað fallegt, á special price just for you my friend. sumir voru svo góðir að þeir voru meira segja búnir að leggja það á sig að læra "íslensku". Nú ef maður asnaðist til að stoppa þá komu þeir um leið og spurðu hvað maður vildi borga fyrir þetta og þegar maður labbaði í burtu þá snarlækkaði verðið, ekkert mál að fá verðið lækkað um leið. Ekki alls staðar þó og margir voru bara ágætir og réðust ekkert á mann. Þetta var allt í lagi svona til að byrja með en svo verður þetta hundleiðinlegt til lengdar. Best var að versla í Cita þar var fólk svona frekar normalt.

Við Kasbah sáum við alveg frábæran listamann. Hann málaði myndir með spreyi. Var þarna með sýningu á því hvernig hann gerði myndirnar og það var alveg ótrúlegt hvað hann var flinkur og myndirnar voru alveg geggjaðar.

Veitingastaðir eru gjörsamlega á hverju strái, þ.e. á kaktus, ekki svo mörg strá þarna en kaktusar lifa þarn góðu lífi. Maður fær samt leið á að fara út á hverju kvöldi með smábarn, bíða eftir matnum og bíða svo eftir reikningnum, Bjartmar hafði nú ekki alltaf þolinmæði í þetta en skemmtilegasta kvöldið var án efa aðfangadagskvöld þegar við fórum á bei lelo sem er þýsk/spænskur staður (ekki hollenskur eins og sagt var hér fyrr) og þjónarnir skiptust á að skemmta Bjartmari og Sigurgeir var svo upptekinn af kettinum sem var þar að maður hafði bara alveg frið við að borða. Ég mæli eindregið með þessum stað (hann er í Yumbo, hinu megin við Klörubar), við fórum aftur á hann síðasta kvöldið og það er meiriháttar góður matur þar. Nú annar staður sem okkur þótti góður og skemmtilegur var Marco Polo í Cita, þar komu hljómlistarfólk og spilaði meðan við vorum þar (auðvitað þurftum við að borga þeim nokkrar evrur, en það var þess virði) og svo var einn ágætur í Sanita senter sem ég veit ekki hvað heitir, hann er lítill og frekar ódýr.

Sem sagt margt gert og ekki mikill tími í sólinni, helst þegar Bjartmar fékk sér hádegislúrinn en við vorum ekkert að stressa okkur á morgnana heldur tókum því rólega og hann fékk sér svo lúr og eftir það var farið á "djammið".

Nú við versluðum alveg heilósköp eða þannig, nei ég held við höfum verið bara frekar slöpp í þessu miðað við allar þær ferðatöskur sem fólk rogaðist með úr flugvélinni í gær. Jeminn. En ég keypti mér auðvitað hestastyttu sem ég sá þarna og VARÐ bara að kaupa hana. Maðurinn pakkaði henni agalega vel inn fannst mér svo ég skoðaði það ekkert aftur og rogaðist með hana með mér í handfarangri alla leið heim og opnaði svo spennt pakkann í gær og hvað haldiði, hún var auðvitað brotin, einn fóturinn af og þrjú lítil brot í eyranu. Mín ætlaði sko að finna brotin og leitaði af þeim eins og nál í heystakk (þetta var nokkuð stór kassi fullur af dagblaðaræmum, þið vitið dagblöð sem sett er í pappírstætara) og hvað haldið þið ég fann þetta auðvitað allt og nú er hann bara eins og nýr.

Sem sagt afskaplega góð ferð en afskaplega gott að koma heim aftur þó það sé snjór og allt á kafi. Það var sem sagt ekki farið í búðina í morgun að kaupa sér brauð og kaffið ekki drukkið á svölunum......

Selma


þriðjudagur, janúar 04, 2005

Komin heim

Jæja þá erum við bara komin heim og vá hvað þetta var eitthvað fljótt að líða, eins og alltaf þegar maður fer eitthvað og dj.... snjór er hérna, við þurftum næstum að moka okkur inn!!

Heyriði og já takk fyrir kommentin en þar sem ég hef nú aldrei fengið komment þá datt mér sko bara alls ekki í hug að kíkja á þau á meðan ég var úti en takk takk og ég þurfti svo sem ekki að komast á netkaffihús því það var internetþjónusta á hótelinu en auðvitað héngu allir á netinu svo maður komst sjaldan þá stuttu stund sem maður hafði tíma sjálfur.

En nú er bara að leggja höfuðið á koddann og ferðasagan kemur senn......

Selma

sunnudagur, janúar 02, 2005

Gleðilegt ár

Bara stutt héðan, vildi bara óska ykkur gleðilegs nýs árs og takk kærlega fyrir það gamla.

Héðan úr sólinni er allt gott, stundum búið að vera peysuveður en annars bara fínt, það sem mér finnst best er að geta hlaupið út í búð á morgnana að kaupa nýtt brauð og kvöldin er æðisleg, maður fer út á röltið og þarf ekki að dúða sig inní úlpu og allt það. Svo er það gróðurinn maður, hér spretta kaktusarnir og allt það sem maður er að reyna að rækta heima í pottum eins og gorkúlur og ferlega gaman að sjá gróðurinn hérna.

En meira þegar við komum heim sem styttist nú óðfluga í, bara 2 dagar eftir......

Selma

  • 1
Flettingar í dag: 334
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 641608
Samtals gestir: 98128
Tölur uppfærðar: 23.2.2018 09:57:59

Tenglar