Í fréttum er þetta helst....

31.01.2010 20:42

Janúar 2010

January 24, 2010

Allir á hestbaki í dag

Jebb bara hestar alla daga :o)

Fórum samt í Miðhús í gær og strákarnir komust í rúlluflutninga með afa sínum. Þeim þótti það EKKI leiðinlegt :o)

Það fóru allir á hestbak í dag, allir að æfa sig fyrir námskeiðin sem framundan eru.
Hér er Sigurgeir með Bjartmar á Toppu.....

og Sigurgeir á Fögrujörp sem er bara dásamlegt hross, takk Óli :o)

Myndavélin var eitthvað ómöguleg svo ekki náðust fleiri myndir nema af flotta beislinu sem strákarnir gáfu mér í jólagjöf, flott beisli og besta hross í heimi hún Hátíð mín :o)

og svo fékk ég þessa mynd senda frá Angelu, þetta er EKKI ÍSBJÖRN heldur hún Hlökk sem stendur í rúllunni alla daga núna og hefur það gott í blíðunni.

Posted by Selma at 10:17 PM | Comments (0)

January 22, 2010

Aftur hraðtaktur

Jæja alltaf stuð hér.......
Bjartmar vaknaði á miðvikudagsmorgunn og sagði við mig; mamma hjartað fer svolítið hratt núna. Ég ha hvað segirðu og lagði eyrað upp að brjóstkassanum og jú tiktiktik svakalega hratt og ég náði í mælinn sem við erum með og hann sýndi einhverja vitleysu svo ég hringdi í Begga og hann kom með góðan mæli en hann sýndi 190 slög sem var bara alls ekki gott. Hann fór með Bjartmar uppá sjúkrahús til að fá hjartalínurit, læknirinn hringdi í Hróðmar og hann sagði 1 hjartatöflu og suður og við fórum suður. Sigurgeir var farinn í skólann svo hann var bara þar í góðum gír. Vorum komin suður um hádegi og þá var hjartslátturinn kominn í eðlilegan takt. Spáðum og spekuleruðum með Hróðmari um þetta og allavega vitum við núna að Bostonferðin hafði ekki tilætlaðan árangur og við vitum sem sagt ekki enn hvað það er sem veldur þessu.
Svo er nú það.......

En hér snýst lífið orðið um hesta og hestanámskeið. Við erum öll á reiðnámskeiðum. Ég er á mánudögum hjá Óla Magg í knapamerki 1, ætlum nokkrar sem vorum í fyrra að taka stöðupróf og fara upp í knapamerki 2. Ég talaði við Óla í haust og spurði hann hvort hann myndi nenna að kenna nokkrum kellingum í knapamerki 1 í vetur og já já það var ekkert mál. Ég auglýsti þetta auðvitað á Neistavefnum og við héldum að kæmu kannski 10 konur í mesta lagi. En nei nei það eru skráðar 23 konur í knapamerki 1 og 9 karlar. Alveg frábært og verður SVO GAMAN í vetur.
Nú Sigurgeir er í knapamerki 2 á þriðjudögum. Beggi var "neyddur" í knapamerki 1 líka og er á miðvikudögum, fannst rosalega gaman í fyrsta tíma og svo er Bjartmar á fimmtudögum. Svo alla daga erum við uppí hesthúsi.

Ég dreif mig líka í tónlistarnám, búin að dreyma um þetta síðan ég var í grunnskóla en þá var þetta ekki í boði á mínu heimili. Sigurgeir er búinn að hvetja mig núna svo ég ætla að prófa og mætti sl. mánudag til hans Benna. Mér finnst þetta nú svolítið flókið, ætli þetta sé ekki eins og þegar fullorðið fólk fer að læra á bíl, svolítið mikið til að byrja með en vonandi verður þetta skárra í næsta tíma. Held samt að ég kunni alveg tvær nótur.

Búið að bjóða mér á Blönduóslótið svo ætli ég skelli mér ekki bara.....

Posted by Selma at 09:32 AM | Comments (1)

January 14, 2010

Man ekkert

Get svarið það að ég bara man ekki hvað ég hef verið að gera....
Held það sé bara hestatengt.....
Nennið ekkert að lesa um það er það......

Man samt í fyrradag gleymdi ég mér bara alveg, fyrst gleymdi ég að Sigurgeir ætti að mæta í tónó, fórum nefninlega á hestbak og svo allt í einu kviknaði á perunni kl. 15 þegar hann átti að vera mættur. Mætti bara í hestafötunum. Skarphéðni er sama þar sem hann er forfallin hestakall líka.
Svo var ég of sein að ná í Bjartmar. Gleymdi að láta alla krakkana vita hvenær prófin þeirra væru í gær og gleymdi næstum saumaklúbb.....
Var svo sem ekkert betri í gær......

Strákarnir eru að prófa hestana svona til að athuga hvort þeir henti fyrir námskeiðin sem eru framundan. Það ætla allir á námskeið auðvitað og held hún Fagrajörp verði mikið til notuð í það. Hún er svo ljúf og FEIT. Flest námskeið byrja í næstu viku og það verður bara gaman. Ef þið viljið fylgjast með því þá kíkið bara á Neistsíðuna.

Posted by Selma at 11:03 AM | Comments (0)

January 05, 2010

Vilhjálmur Hólm

Litli frændi minn var skírður 27. desember og fékk nafnið Vilhjálmur Hólm. Hann fékk skírnarkjólinn minn lánaðann sem ég saumaði fyrir nærri 30 árum síðan. Alltaf eins og nýr samt, þ.e. kjólinn, nokkuð mörg börn búin að fá nafnið sitt í honum og líka mörg börn búin að fá hann lánaðann áður en Sigurgeir og Bjartmar fæddust :o)
Ég er afar stolt af því að hann sé notaður. Þarf að finna myndir af þeim bræðrum þegar þeir voru skírðir :o)
Hér er Erla Rut með Vilhjálm og amma Jóhanna að laga kjólinn til....


Annars held ég að það verði ekkert skrifað um annað en hross hér efttir......

Fór að heimsækja "ísbjörninn" minn á sunnudaginn og fékk auðvitað kaffi hjá Angelu. Hlökk er í mjög góðu standi og er bara flott :o)

Fórum svo til Helgu og Gunnars á Þingeyrum í gær að kíkja á Háfeta og í langt spjall :o)

Skóli í dag sem er bara gott því þá kemst hin hefðbundna rútína á.


Posted by Selma at 09:22 PM | Comments (0)

January 02, 2010

Gleðilegt ár

Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla.

Jæja allt tekur þetta enda og nýtt tekur við. Hef þá trú að 2010 verði gott ár á allan hátt og fer af stað inn í nýtt ár með þá staðföstu trú mína og vona að þið gerið það líka :o)

Nú við fórum upp í Efri-Mýrar í hestasmalamennsku í "hlýjunni" miðvikudaginn 30. des.
Svolítið kalt en náðum nú alveg Hátíð og Toppu en Fagrajörp lét nú ekki ná sér. Hér er Bjartmar búinn að ná Toppu ....

og hér kemur hann með hana inn í hesthús...

og Sigurgeir og Raggi með Hátíð....

en svo ég skrifi nú aðeins um hesthúsið þá keyptum við það saman ég og Beggi og hann er búinn að vera í ALLT HAUST að "ditta" að því, sem er mjög vægt til orða tekið. Hann er búinn að vera þarna upp frá í allt haust að LAGA, ég mætti mjög sjaldan í þau verk og þá einungis til að skipta mér af. En hann tók kaffistofuna í gegn svo það er gaman að fá sér kaffi og kakó þar núna...

og af því kaffistofan var orðin svo fín þá vildi hann ekki hafa hnakkana þar lengur og tók eina stíuna undir hnakkageymslu....

og af því þetta var 17 hesta hús (núna 14) og ekkert pláss fyrir okkur að leggja á og stússast með hestana þá tók hann út 2 bása og það er bara allt annað, svo þar geta krakkarnir dundað við að kemba og leggja og alles og við líka auðvitað ......

Algjörlega frábærlega flott hjá kallinum, held hann sé nú orðinn svolítið þreyttur á þessu núna sem ég skil mjög vel, ekkert smáverk að laga þetta allt en það er líka svo miklu skemmtilegra að vera í fínu húsi þar sem öllum líður vel, bæði hrossum og mönnum. Ég segi nú bara takk takk fyrir alla þessa vinnu. Ekkert smá flott og gaman að koma í svona fínt hús.

Jæja en áramótin gengu í garð og hér voru 22 í mat á gamlárskvöld. Systkini mín, Valur, Fanney og Eiður komu og áhangendur þeirra og líka Maggi og Halla. Algjörlega frábært kvöld. Við Jóhanna græjuðum matinn, ofninn var reyndar að stríða mér og kjötið var ekki alveg tilbúið þegar það átti að vera tilbúið en það var enginn að flýta sér svo það skipti ekki svo miklu máli. Allir fengu að borða og fóru svo á brennu. Komu heim og fengu ísinn sem ég bjó til, svo var skotið upp í gríð og erg fram yfir miðnætti.
FRÁBÆRT kvöld, takk takk fyrir að koma.

Hér eru þeir feðgar að gera sig klára í að skjóta upp....

fleiri komnir út......

og svo komu allir inn, strákar eru í meirihluta í þessari fjölskyldu :o)

Elvar kominn í náttfötin og fór bara að púsla :o)

þessir mættu í morgunmat á nýársdag :o)


Flettingar í dag: 657
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 641931
Samtals gestir: 98132
Tölur uppfærðar: 23.2.2018 15:36:25

Tenglar