Í fréttum er þetta helst....

31.12.2005 22:19

Desember 2005

December 29, 2005

Jólin koma og fara

Alltaf sama sagan jólin koma og svo eru þau búin. Við höfðum það bara notalegt um jólin. Mamma kom og við höfðum þetta bara allt svona frekar með hefðbundnu sniði.
Bjartmar var voðalega glaður með alla bílana sína sem hann fékk og Beggi og Sigurgeir með stóra legó orustuskipið sem við gáfum Sigurgeiri, þeir dunduðu við að setja það saman á aðfangadagskvöld þegar Bjartmar var sofnaður. Við vorum bara öll glöð og ánægð með allt sem við fengum og takk fyrir það.

Set hérna inn nokkrar myndir.........

Sigurgeir fékk loks frið til að setja pakkana undir jólatréð, Bjartmar fékk sér smá lúr um miðjan daginn.....

Hér er litli prinsinn alsæll með bílana sína alla...

og við rauðhærðu S-in glöð með okkar...

og stóru strákarnir gátu ekki beðið eftir því að fara að púsla saman skipinu

sem leit svona út daginn eftir, ekkert smá flott :)

Ýmislegt var gert sér til dundurs á jóladag á meðan ég og Bjartmar sváfum :)

og mamma las Margréti

púslið var klárað á annan í jólum....

og síðan var haldið á jólaball á Hótel Örk sem Lions sá um, flott ball með hljómsveit og alles. Bjartmar var gjörsamlega heillaður af jólasveinunum að hann leit ekki af þeim allan tímann meðan þeir voru.....

en eftir að þeir voru farnir bauð hljómsveitin krökkum að koma og taka lagið og auðvitað fór minn maður og söng eins og eitt lag:)

Posted by Selma at 10:34 PM | Comments (0)

December 24, 2005

Gleðileg jól :)

Smá stund aflögu til að setja inn jólakveðju til ykkar, gleðileg jól og hafið það alveg ofboðslega gott um jólin, það ætlum við að gera.

Tók mynd af jólahúsinu okkar áður en fór að rigna. Hér var nefninlega snjór í gær en hann er allur farinn núna.

Verð auðvitað að setja hér inn mynd af snillarsmíð þeirra feðga, þeir bjuggu til þetta æðislega jólakerti, það er með ljósum og gáfu mér í gær, hreinasta snilld og mikil viðhöfn þegar ég fékk það. Fór til Reykjavíkur að ná í mömmu seinni partinn í gær og á meðan kláruðu þeir þetta og ég átti svo að hringja rétt áður en ég kæmi sem ég og gerði. Þá voru þeir búnir að slökkva öll ljós og þetta blasti við uppljómað þegar ég kom. Mikið ofboðslega sem þetta var fallegt, takk fyrir krúttin mín.

Nú svo var þetta hefðbundna í gærkvöldi að skreyta jólatréð og stóru strákarnir settu saman kertastjaka..... :)Posted by Selma at 02:52 PM | Comments (1)

December 19, 2005

Piparkökur og jólatré

Meiri rigningin alltaf hreint.......

En allavega Beggi er kominn heim en hann missti af piparkökumáluninni, sem fór fram á föstudeginum. Strákarnir tóku sig ágætlega út við þetta í nokkurn tíma. Bjartmar var hins vegar duglegri að borða þær og er enn ;)

Nú svo á laugardeginum var farið í jeppaferð þ.e. ég og mínir strákar, Beggi missti af þessu líka, eldri bræður mínir, fjölskyldur þeirra og Elliði og Bergþóra fórum að ná í jólatré uppí Hvalfjörð. Það vildi nú ekki betur til en það var skítaveður en við vorum sem betur fer öll á "jeppum", ég var reyndar ekki alveg gjaldgeng því ég var bara að Izusu en allir aðir á Nissan, jeminn. En þar sem ég var sú eina sem mætti á "réttum tíma" fékk ég að fara með.
Albert, Guðmundur og Elliði, ég tók eðlilega myndina og var í jeppanum, það er ekki þessi guli þarna á bakvið :)


Það var skítaveður, rok og rigning en skárra inn á milli trjánna. Svo er þetta líka bara spurningin um að vera almenninlega klæddur sem við vorum öll. Við fundum tré og fórum svo og fengum okkur kakó og smákökur sem þau voru með. Gamall bóndabær er þarna á jörðinni sem okkur var boðið að hafa afnot af ef við vildum, ekki veit ég nú hvað þessi staður heitir en það voru margir sem voru komnir þarna til að höggva sér jólatré, þó veðrið væri leiðinlegt, skiptir greinilega ekki máli. Við notfærðum okkur það auðvitað og sátum þarna nokkra stund. Engin mynd var tekin af trjáleiðangrinum sjálfum þar sem veðrið var EKKI gott en hér er ein úr kaffidrykkjunni. Sem sagt mjög skemmtileg ferð.


Posted by Selma at 11:35 PM | Comments (0)

December 14, 2005

Gluggagægir

Má til með að setja hérna inn 3 myndir. Bjartmar fékk þá frábæru hugmynd að fara á bakvið rimlagardínuna og kíkja inn. Þetta var voðalega fyndið fannst honum, ekki mér, en auðvitað varð að mynda gluggagæginn.

Sigurgeir ákvað að skrifa jólasveininum og biðja um gameboy í skóinn ásamt 3 leikjum, veit nú ekki alveg hvaðan hann fékk hugmyndina, skilst samt að það hafi verið einhver í bekknum hans sem fékk aðeins meira en hann í skóinn en ég sagði honum að sá hlyti að hafa verið óskaplega þægur alveg allt árið. Nema hvað hann skrifaði í fyrrakvöld en hefur ekki fengið neitt svar svo hann skrifaði aftur í kvöld. Ég ætla bara að skrifa jólasveininum líka og biðja hann um að koma alls ekki með þetta gameboy eða hvað þetta nú er. Bara halda sínu striki í skómálum.

Nema hvað hér sváfu þeir eftir hádegið, lengi. Það voru jólatónleikar hjá Sigurgeiri á Heilsustofnuninni í gærkvöldi kl. 20.00 og við þangað auðvitað. Hélt að ég slyppi alveg við að fara en Sigurgeir var nú ekki á því að láta mig sleppa við það svo ég dröslaði Bjartmari með mér því ég hélt þetta tæki ca hálftíma en nei nei ekki búið um 21 svo ég bað eina mömmuna að skutla Sigurgeiri heim því Bjartmar var auðvitað orðinn vitlaus og ég sá ekki helminginn sem krakkarnir voru að spila. En samt flott og gaman að sjá þau spila saman, krakkana hér, þ.e. þau sem eru hjá Ian á blásturshljóðfæri og þau sem koma úr Villingaholtshreppi, sem Ian er með líka. Hann fékk þau kl. 19.00 og æfði þau saman þarna í klukkutíma og útkoman var bara fín.

Ég er að reyna að laga til í tölvuherberginu en það gengur nú misjafnlega. Mikið rosalega er leiðinlegt að taka svona til. Mér sýnist þetta geta verið svona vikuvinna ef heldur sem horfir.

Á morgun er ökupróf hjá einni á Selfossi svo strákarnir verða sendir til hennar Guðrúnar, hérna niðri á enda, á meðan. Bjartmar þekkir Einar úr leikskólanum svo það ætti að takast, hennar vandamál á meðan allavega. Já talandi um leikskólann það var jólaball í dag, saknaði leikskólans á Blönduósi í þessu tilviki því jólaballið er bara í leikskólanum og ekkert pláss fyrir foreldra :(

Beggi kemur á laugardaginn, spurning kl. hvað og hvort hann nái að komast með okkur í jólatrésleiðangurinn sem við ætlum með stóru bræðrum mínum og þeirra fjölskyldum.


Posted by Selma at 09:19 PM | Comments (0)

December 13, 2005

Bakstur

Við bökuðum svolítið í gær, Bjartmar var mjög hjálplegur bæði við bakstur og að borða kökurnar á eftir. Sigurgeir fékk gesti svo hann mátti ekki vera að því að hjálpa til. Líka alveg nóg að hafa einn hjálparmann :)


Það var föndurdagur í skólanum um daginn og krakkarnir í kórnum sungu nokkur lög. Við ætluðum að fara í föndrið en Sigurgeir missteig sig svo þegar hann kom af klarinett æfingu að við fórum bara heim með bakstur á fætinum en drifum okkur þegar kórinn átti að syngja. Þá var hann alveg orðinn góður :)

Nú Bjartmar les blöðin vel og vandlega og bendir á allt það sem hann vill fá í jólagjöf. Það vildi ég að kæmi svolítið minni pappír inn um lúguna á degi hverjum, maður hefur ekki við að fara með hann í blaðagáminn. Þvílík sóun.....

Já og svo hringdi Beggi í gær og sagðist verða svolítið lengur, hann átti sem sagt að koma heim á morgun en kemur heim...... ?

Annars allt í góðu :)

Posted by Selma at 09:44 AM | Comments (1)

December 09, 2005

Jólagjöfin í ár

Ég sá jólagjöfina mína í ár bara allan pakkan, hún er algjörlega glæsileg, bara eftir að plata kallinn uppúr skónum með það, kannski svolítið í stærri kantinum en ég er nú alveg tilbúin að sleppa jólagjöf næstu 10 árin fyrir þessa.

Það var nefninlega þannig um daginn þegar ég heimsótti Svanný og Magga að það komst einhver vindótt hryssa í umræðuna og ég auðvitað alveg galopnaði augun og hafði mikinn áhuga. Nú svo var það ekki rætt meir og hringir ekki Svanný og segir mér merina komna heim í hús hvort ég komist nokkuð til að kíkja á hana. Ég skellti mér í morgun, fór á bak og hef ekkert komist niður úr skýjunum síðan. Svo það verður voðlaega dýrt símtalið við Bergþór í kvöld þegar hann hringir, hann nefninlega skrapp til Þýskalands í morgun og verður ca viku að vinna. Bara líka til að sleppa við bakstur og það dæmið allt saman.

Nú annað er nú ekki markvert, það gengur ekkert að setja upp jólaseríur eða baka, maður er einhvern veginn aldrei heima og þó maður sé heima finnur maður sér eitthvað annað að gera. Á morgun förum við mamma og Gummi bróðir á jólatónleika með Frostrósum, Beggi sleppur við það líka :) og strákarnir fá athvarf í Furuhjallanum hjá Sollu og Valda á meðan.

Jú um síðustu helgi fórum við á jólahlaðborð í boði Ökuskólans í Mjódd. Það var á Kaffi Reykjavík og var það mjög notalegt. Langt síðan við höfum farið á jólahlaðborð.

Nú svo er ótrúlega stutt í þessi jól, mér fannst sem ég hefði heimsins mesta tíma til að gera allt en nei það verður bara eins og vant er þetta allt verður bara ekki gert og jólin koma samt og ég og við ætlum bara að njóta þeirra.

Posted by Selma at 02:04 PM | Comments (1)

December 01, 2005

Morgunkaffi og jólaföndur

Hef bara ekki komist í að segja ykkur að ég skrapp í Neðra-Sel á þriðjudagsmorguninn að heimsækja þau Svanný og Magga Lár og átti ég alveg meiriháttar góðan morgunn þar með þeim. Kíkti auðvitað í leiðinni á hana Hugrúnu mína sem kom í síðustu viku og verður í tamningu hjá þeim einhverjar vikur. Hún lítur bara líka vel út en er alveg rosalega klárgeng og á hún nú ekki langt að ná í það blessunin.

Nú svo í morgun þá var jólaföndur hjá Bjartmari í leikskólanum og auðvitað mætti maður þar og föndraði svolítið. Hann málaði piparköku og vildi bara nota græna litinn, afi í Miðhúsum yrði nú glaður að frétta það. Læt nokkrar myndir fylgja hér með af föndrinu og eina mynd af listaverki eftir hann :)

Gaman saman

Þeir vinirnir Bjartmar og Einar

Grænt grænt grænt skal það vera

Listaverkið hans Bjartmars

Flettingar í dag: 700
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 641974
Samtals gestir: 98135
Tölur uppfærðar: 23.2.2018 16:02:56

Tenglar