Í fréttum er þetta helst....

31.12.2004 21:45

Desember 2004

sunnudagur, desember 26, 2004

Ljúft

Vá hvað þetta er ljúft og ekki söknum við vetrarríkisins að heiman það er alveg öruggt. Gott að vakna á morgnana og fara út og setjast með kaffibollann, Bjartmar er reyndar nokkuð árrisull þó hann fari nú ekki að sofa á "réttum" tíma, hann vaknar samt um 8 leytið. Það gerir svo sem ekkert til. Við erum búin að rölta hér um og fara á ströndina auðvitað sem strákarnir fíla gjörsamlega í tætlur. Mikið er það notalegt, þar er oftast gola svo ég er nú ekki alveg að farast en EKKI úr bolnum auðvitað, það er ekki gott fyrir fólk að sjá svona mikið HVÍTT í einu. Nú aðfangadagur var ekki mjög hefðbundinn, við fórum á markað í Mogan og þar hefðum við getað keypt allt fyrir prútt, mjög gaman ef maður hefði verið í einhverri þörf fyrir að kaupa eitthvað en það var gaman og svakalega skemmtilegt mannlíf. Nú við fórum út að borða á aðfangadagskvöld og lentum á hollenskum veitingastað og þar sem við vorum mjög snemma (17.30, það fer enginn út að borða fyrr en um 20.00) þá vorum við ein og þar sem Bjartmar var ekki á því að sitja kyrr við borðið sáu þjónarnir um að skemmta honum, aldeilis frábærlega skemmtilegt. Síðan var bara spásserað um og skemmt sér til 21.00 og þá fórum við heim að taka upp ALLA pakkana sem við tókum með en það voru bara bækur og það er gott að hafa það notalegt með bók í hönd.

Annars er þetta bara frábært og geggjað notalegt þó það sé ekki sól allan daginn, það er allavega ekki rigning, ekki enn. Bestu kveðjur úr sólinni á Kanarí.

Selma

mánudagur, desember 20, 2004

Gleðileg jól

Gleðileg jól til ykkar allra og hafið það sem allra best.

Selma

Þá er komið að því

Vá það er bara komið að því, flug á morgun. Mikið rosalega er tíminn fljótur að líða. Ég held við höfum keypt ferðina í júlí og svo er þetta bara runnið upp.

Sem sagt allt tilbúið, búin að koma jólapökkunum á sinn stað, fara með kortin í póst, koma hundunum fyrir hjá MJÖG GÓÐU FÓLKI og pakka niður. Er þá ekki bara allt tilbúið.

Við verðum á Club Sunshine Apt sem er bara vonandi fínt, þið getið séð það á sumarferðir.is þar er hægt að sjá videó af því. Nú svo ef vel gengur að losna við kallana til að fara í tölvuna þá sendi ég kannski línu úr sólinni. Adlrei að vita.

Selma

fimmtudagur, desember 16, 2004

Ógó gaman

Mikið rosalega var gaman að vera leynigestur í saumó!! Fór norður á þriðjudag því það voru 3 strákar í prófi í gærmorgunn og það gekk auðvitað alveg ljómandi vel, ekki að búast við örðu svo sem. Nú það vissu fáir af því að ég væri fyrir norðan svo ég rétt komst sem leynigestur í saumó sem mér fannst alveg svakalega gaman. Reyndar mætti ég Sigrúnu Sig strax þegar ég kom á Blönduós og aldrei þessu vant þá tók hún eftir því hverjum hún mætti og hringdi í Jobbu sem vissi auðvitað af því að ég væri á staðnum. Lofaði að segja ekki neinum. Svo þegar ég fór útúr bænum mæti ég ekki Tryggva og Harpa H. hringir svo skömmu síðar og spurði hvar ég væri því Tryggvi hefði séð til mín. Ég skrökvaði að henni að ég væri sko bara í Hveragerði. Nei nei Tryggvi hefði sko séð mig alveg örugglega því rauði hausinn var bara um allt. Ég bað hana innilega afsökunar á þessu þegar í saumó var komið. Mikið rosalega fannst mér nú leiðinlegt að skrökva svona. En það var alveg meiriháttar að hitta stelpurnar aftur, ALVEG MEIRIHÁTTAR stelpur, heyrið þið það.

Annars bara 5 dagar í flug.......

Selma

mánudagur, desember 13, 2004

Fín ferð

Já já þetta var aldeilis fín ferð norður og eins og fyrri daginn fær maður ekki frið á götum bæjarins en núna var það Þverbrautarliðið sem sá til mín og hringdu. Þau voru að úða í sig jólakræsingum á Árbakkanum og ég í það auðvitað.

Svo var bara kennt útí eitt en ég mátti samt vera að því að fara fram að Þingeyrum og kíkja á hrossin mín, varð auðvitað að fara og fylla mig af hestalykt til að fara með hingað suður. Hér er enga hestalykt að finna hahahahaha.

Komin heim seint og um síðir í gærkvöldi, það var algjörlega fljúgandi hálka frá Blönduósi og alveg niður í Norðurárdal þannig að textavarpið var bara alveg rétt aldrei þessu vant, maður fer nú samt ekkert eftir því frekar en fyrri daginn.

Á eftir er svo jólasýning fimleikafélagsins og basar svo ég þurfti að baka heila köku í morgun þegar ég vaknaði, ekki nennti ég því í gærkvöldi. Maður er nú svo sem ekki lengi að skella í eina köku svona þegar maður tekur sig til við það.

Selma

miðvikudagur, desember 08, 2004

Norður jíbbí

Já já norður um helgina að kenna, fer maður ekki bara í harkið þar fyrst maður fær ekkert hér. Verst að ég þarf eiginlega að hitta svo marga og gera svo margt að ég má bara ekki vera að því að kenna. Jæja finnum eitthvað út úr því.

En að örðu. Ég verð nú að kvarta yfir þessum KB banka hér, það er hvorki búið að mála hann bláan eða setja upp jólaseríur svona eins og gert er á Blönduósi auðvitað. En ég hef nú aldrei komið inní hann þannig að ég veit ekki nema inni séu heil kynstrin öll af jólaskrauti. Er nú samt að velta fyrir mér hvort þetta sé vegna þess að það eru miklu meiri peningar á Blönduósi heldur en í Hveragerði, ég er nefninlega ennþá með öll mín viðskipti í KB banka á Blönduósi. Kannski ég ætti að færa þau og sjá hvað gerist.

En hér gerist ekkert svo það er ekki hægt að skrifa um neitt. Er núna reyndar að komast á það stig að ég verði að fara að bögga einhvern til að passa hundkvikindið um jólin, ef einhver gefur sig fram þá yrði ég svakalega glöð. Annars neyði ég einhvern til að taka hana í fóstur.

Selma

mánudagur, desember 06, 2004

Fimleikar og bakstur

Jæja enn ein helgin farin framhjá og styttist óðfluga í Kanaríferð, jibbí, hlakka ógó til.
Nema hvað eins og sést á myndunum hér að neðan þá var heilmikið um að vera. Á laugardagsmorgun fórum við í fimleikafjörið í íþróttahúsið, Sigurgeir vildi auðvitað sýna okkur hvað hann er orðinn góður í fimleikum, ég sé hann nú reyndar frekar fyrir mér í kúluvarpi eða eitthvað en allar íþróttir eru af hinu góða þó ég sé nú ekki að eyða miklum tíma í þær,hmmmm.
Þetta var bara voðalega gaman en held Bjartmari hafi fundist skemmtilegast, hann hljóp þarna um víðan völl enda nóg plássið.

Allur sunnudagurinn fór í bakstur og Sigurgeir liðtækur í því, við skreyttum að vísu ekki piparkökurnar en það verður bara gert núna næstu daga. Svolítið góð mynd þessi efsta þar sem hver dundar við sitt, sumir lesa blöðin, aðrir spila á spil og aðalmaðurinn er auðvitað að búa til piparkökukarla og kerlingar.

Selma


en aðrir á heimilinu fundu sér eitthvað annað til dundurs, hver með sitt áhugamál eða þannig. Posted by Hello


Síðan var sunnudagurinn tekinn í bakstur og Sigurgeir mjög liðtækur í því. Hann eiginlega gerði þetta allt saman, ég svona mæli í þetta.... Posted by Hello


Og auðvitað sýndi Sigurgeir okkur hvað hann var búinn að æfa sig mikið í vetur og gat t.d. alveg labbað afturábak á þessari slá, ég hefði nú ekki leikið þetta eftir. Posted by Hello


Það var fimleikafjör á laugardagsmorguninn og við mættum auðvitað. Bjartmari fannst auðvitað rosalega gaman að hlaupa á stóru dýnunni. Ég lét það nú ekki eftir mér !
Flettingar í dag: 700
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 641974
Samtals gestir: 98135
Tölur uppfærðar: 23.2.2018 16:02:56

Tenglar