Í fréttum er þetta helst....

30.10.2004 21:36

Október 2004

fimmtudagur, október 28, 2004

Tæland og aftur Tæland

Guess what, aftur fór hann til Tælands, hvað er þetta eiginlega við Tæland sem er meira spennandi en Hveragerði...... þar er alltof heitt, alltof mikið af pöddum, alltof mikið af hrísgrjónum og pöddum sem detta ofaní matardiskinn, alltof mikið af ódýrum vörum og svo mætti lengi telja! og við hér hmmm ??

Á mánudaginn vissi Beggi sem sagt að hann var að fara til Tælands í gær, ekki par hrifinn en fór nú samt. Á flugmiðanum stendur að heimkoma sé 7. nóv en ég veit nú betur og segi + 10 þannig að hann kemur heim ca 17. nóv. Allt í lagi með það svo framarlega að hann komi fyrir jól eða áður en við förum til Kanarí. Þannig að við keyrðum hann til Keflavíkur og fórum svo aðeins í kaffi til mömmu, í kleinurnar!

Heyriði það er bara enginn tími til að baka þessa dagana, eða réttara sagt maður bara nennir því alls ekki og dagurinn í dag fer í að spá í veðrið, það nefninlega snjóaði hérna í nótt og einhver sem var búinn að segja mér að það snjóaði aldrei á suðurlandi eða allavega ekki fyrir jól og svo bara er rosalegt föl hér núna og ég verð að fara með bílinn á ný dekk svo maður dansi nú ekki hérna um göturnar, kannski þetta verði nú bara farið þegar bíllinn er kominn á dekkinn, örugglega.

jamm og jæja..... best að reyna að klára þetta verkefni í Photoshop ég er nú að reyna að klambra því saman og þarf að skila því um helgina.

Selma

mánudagur, október 25, 2004

Bíóhelgin mikla

Jæja það var bara enginn tími fyrir bakstur þessa helgi því það var stanslaus gestagangur á laugardaginn og ég varð meira að segja að fara í frystikistuna og ná í köku til að hafa með kaffinu en ég nefninlega bakaði svolítið MIKIÐ fyrir afmælið hans Sigurgeirs og það lenti eitthvað af því í frystinum. Það er auðvitað alveg voðalega gott, þ.e. að eiga kökur í frystinum og betra ef maður vissi af því að einhver ætlaði að koma í heimsókn. Laugardagurinn var sem sagt gestadagurinn mikli, en það er svo skrítið með það, eins og þið vitið, að það kemur enginn í margar vikur og svo virðast allir fá sömu hugmyndina sama daginn og allir mæta. En nú var það svo heppilegt að það kom enginn á sama tíma þannig að maður hafði tíma fyrir alla. Beggi var ekki heima, var að búa til bíl í Reykjavík og kom heim einhverntímann eftir háttatíma.

Nú svo var það bíódagurinn mikli í gær. Geggjað veður þannig að við Sigurgeir fórum hérna upp fyrir með hundana og hittum þar krumma á steini, hundarnir urðu brjálaðir og vildu í krummann, en hann bara sat og sat og krunkaði á okkur og Sigurgeir vildi endilega fara og tala betur við hann en ég hélt hann myndi rjúka í okkur og vildi alls ekki skoða hann nánar. Þannig að þetta var algjört bíó fyrir hundana þó þær fengju nú ekki að elta hann. Hmm kannski greyið hafi verið vængbrotinn, en mig langaði allavega ekki að hann réðist á okkur.

Svo var brunað til Reykjavíkur með Sigurgeir í bíó, hann fór með frændsystkinum sínum í Kópavoginum á Pókimon 5 eða hvað þetta nú heitir allt saman og það var víst voðalega gaman. Ég og Bjartmar fórum ekki fyrr en hann vaknaði og aldrei þessu vant þá bara svaf hann og svaf og ég varð að vekja hann svo við misstum ekki af matnum og bíóinu. Vorum sem sagt boðin í mat hjá Sollu og Valda og Berglind passaði strákana á meðan við fórum í bíó. Mikið rosalega er nú gaman að kaupa sér popp og kók og fara í bíó þ.e. ef myndin hefði verið skemmtileg en við ákváðum með 3 atkvæðum gegn 1 að fara á myndina með Denzel Washington og Meryl Streep og gúúd hevens maður, dj.... sem hún var leiðinleg. Ég hefði nú auðvitað viljað fara á myndina með Richard Gere því hann er svo ógó sætur.
Við vorum ekki komin heim fyrr en um hálf tólf svo það verður geðvonskudagur í dag þar sem allir voru þreyttir í gær.

Og þá er nú bara að baka í dag.......

Selma

föstudagur, október 22, 2004

Aftur helgi

Vá aftur er hann helgi kominn hingað, er hann svona oft hjá ykkur líka! og ég hef bara ekki skrifað í marga daga, jeminn. Nema hvað ég hafði svo mikið að gera á miðvikudaginn að fara til Reykjavíkur eða réttara sagt Álftanesið að ég fór bara 2var þangað sama daginn. Við ákváðum nefninlega að hittast 3 "gamlar" gellur, þá meina ég ekki gamlar í merkingunni aldur heldur erum við búnar að vera vinkonur með hléum alveg síðan á Húnavöllum en það er nú ekkert svo ýkja langt síðan það var eða þannig. Með hléum á ég við að við verðum ekki óvinkonur inn á milli heldur hittumst við með mislöngu/stuttu millibili. Þetta var alveg mjög svo notaleg stund og verð ég að koma þarna í björtu því húsfrúin á Álftanesinu er svo annáluð fyrir blómarækt sína að hún kemst bara í öll blöð á suðurnesjum og um daginn fékk heimilið umhverfisverðlaun bæjarins. Geri nú aðrir betur.

Nú daginn eftir var ég svo ofboðslega þreytt því það var víst komið langt fram yfir minn venjubundna háttatíma (sem er 22.00) þegar ég kom heim á miðvikudagskvöldið að ég bara meikaði ekki að hugsa um neitt, nema hjálpa Helgu með eins og eitt bókfærsluverkefni svona pínulítið og setja upp slatta af gardínum. Í gær gerði ég bara ekki neitt, nema að vera heima auðvitað og kenna einn tíma.

En merkilegt nokk hér fylltist húsið af strákum bæði í gær og fyrradag eða sko það komu 2 vinir Sigurgeirs og það er eitthvað sem ég hef ekki átt að venjast síðan ég flutti hingað. Sigurgeir er nefninlega allt í einu dottinn í gírinn með að biðja strákana að koma HEIM til sín en ekki fara eitthvað sem er bara í góðu lagi. Ætli hann sé orðinn leiður á að hanga einn heima með mömmu sinni allan daginn eða búinn að uppgötva að það er verkfall og hann hittir enga krakka allan daginn. Talandi um verkfall, nei annars hætti við, mér hættir við að blóta svolítið svo ég ætla ekki að tala um þetta h....... verkfall, að þetta skuli líðast árið 2004. Já talandi um strákana, þeir eru flottir og spurðu svo í kaffitímanum hvort ég ætti ekki snúða, fengu snúða í afmælinu hans Sigurgeirs, þeir væru svo rosalega góðir, nei þá átti ég nú ekki lengur því það var búið að borða allt sem ég hafði bakað á afmælinu hans Sigurgeirs og ég bara hef ekki nennt að baka síðan. Ég hef nú alveg haft tímann en bara fundið mér eitthvað annað að gera t.d. fara í tölvuna, hmmmm.

Svo ætli maður baki ekki bara snúða í dag.

Já og meðan ég man þá var víst jarðskjálfti hérna í gær og ég hélt að það hefði bara verið þvottavélin sem væri orðin vitlaus. Ég sat nú bara í sófanum og var að lesa blað og allt í einu heyrðust smá skruðningar eins og ef maður setur of mikið í þvottavélina og hún fer af stað eða að STÓR vörubíll keyrir framhjá og ég hugsaði hmm ég var nú búin að taka úr þvottavélinni þetta hlýtur að hafa verið jarðskjálfti og spáði svo ekki meira í það fyrr en ég spurði nemanda minn um 4 leytið hvort það hefði komið jarðskjálfti. Jájá nokkuð snarpur víst en mér fannst þetta nú ekkert voðalegt en vona nú að það komi ekki snarpari svo allur "kristallinn" minn detti ekki úr nýju hillusamstæðunni!!!

Selma

þriðjudagur, október 19, 2004

Ekki fleiri NÝ húsgögn í þetta hús!

Nú kaupi ég bara ekki fleiri húsgögn í þetta hús, það er nokk ljóst, búin að fá nóg af gölluðu, vitlausum lit eða eitthvað. Það er nú ekki í frásögur færandi að fólk kaupi sér húsgögn auðvitað en ég verð að segja ykkur þetta. Við erum auðvitað búin að fylla húsið af húsgögnum síðan við komum hingað og viti menn alltaf gallað. Fyrst keyptum við borðstofuborð í vetur á útsölu hjá Tekk, geggjað flott borð og 6 stóla og stilltum þessu hér inn, voða flott. Einn góðan veðurdag kom hár hvellur og stærðar sprunga kom í borðið. Það var hringt og kvartað og þeir komu nú bara og tóku það aftur og við fengum nýtt borð. Í haust ákvað ég að keypt yrði hillusamstæðu í Ikea svo ég gæti raðað öllu draslinu "mínu" einhvers staðar til að þurrka af því endrum og eins. Eftir miklar vangaveltur hér heima var þetta allt klappað og klár og stormaði öll fjölskyldan í Ikea. Það var lítið til af því sem við vildum og það sem var til var gallað og þegar út í bíl var komið kom í ljós að þeir höfðu stungið lyftaragafflinum í gegnum pakkninguna. Inn með hana aftur en engin önnur til og af 4 einingum fórum við með 1 heim og biðum í heilan mánuð eftir restinni. Ég þurfti þá allavega ekki að þurrka af á meðan.
Nú svo varð auðvitað að kaupa sjónvarpsskáp undir allt tækjadótið dvdið, videóið, sjónvarpið, spólurnar og snúrurnar það er nú ekkert smá. Nema hvað fundum fínan skáp og ég spyr afgreiðslumanninn þegar hann er að setja þetta út í bíl hvort þetta sé nokkuð gallað, ég hafi slæma reynslu af slíku. Nei, nei aldrei slíkt hjá þeim en það hefur komið fyrir að við höfum afgreitt vitlausan lit. Ég grandalaus eftir fyrri reynslu og bruna með þetta heim sæl og glöð. Gleðin rennur af mér á sunnudagsmorgni þegar setja á þetta saman. Maður lifandi haldið þið ekki að þetta séu tveir litir á skápnum, keypti kirsuberja en fékk birki og kirsuberja. Okkur féllust hendur og ég var gjörsamlega mát, eina ferðina enn. En ákveðið var að setja þetta bara saman, þannig að sjónvarpsskápurinn er með birkilitaðar hliðar og framhliðin er kirsuberja. Það á örugglega enginn annar svona skáp! nema sá sem kaupir hitt settið......

Selma

mánudagur, október 18, 2004

Mynd af Sigurgeiri og Hlökk

Ég er sem sagt búin að eyða öllu kvöldinu með Hörpu (hún á að vera að lesa) í að koma þessari mynd inn, vona að það gangi betur með allar næstu svo hún þurfi ekki að sitja fleiri kvöld yfir þessu með mér.
Þetta er tekið núna í haust þegar við fórum norður og Sigurgeir vildi fara að kíkja á Hlökk. Fórum því út að Þingeyrum og löbbuðum til hrossa. Það var afskaplega gaman að koma þangað eins og alltaf.


hér kemur mynd af prinsinum og gömlu minni Posted by Hello

laugardagur, október 16, 2004

þrír mánuðir

Jæja vitiði hvað, ég uppgötvaði það í gær að ég eða við erum búin að vera hér í þrjá mánuði og ég segi nú bara VÁ. Ég er búin að komast að mörgu á þessum þrem mánuðum en ég nenni ekki að telja það upp hér, nema ég verð að segja ykkur að ég gerði verðkönnun í fyrsta skipti á ævinni, því þess þurfti maður ekki fyrir norðan, maður verslaði bara við Húnakaup og þá var maður ekkert að spá í það hvað hlutirinr kostuðu. En ég gerði þessa líka furðu uppgötvun um daginn þegar ég gáði að því hvað 1 lítri af mjólk kostaði hérna á suðurlandinu og jú það munar heilum 16 krónum á dýrasta og ódýrasta. Hann er dýrastur á Selfossi í búðinni við hliðina á mjólkurstöðinni þar sem hann er settur í fernuna. Hann kostar heilar 89 kr. í Nóatúni á Selfossi, BARA 73 í Bónus auðvitað - ég fer alltaf þangað til að styðja þá kalla greyin og 79 í Hverakaup, finnst ykkur þetta ekki hallærislegt.

Annars er nú lítið títt, það var ekki rigning í gær og í morgun var alveg geggjað haustveður og ég fór að kenna og vá við vorum vissar um að það yrði alveg frábært veður í dag en nei það rigndi. Ég fór til R. og sukkaði peningum út og suður. Maður þarf nú ekki annað en að stíga út úr bílnum þá fjúka peningar í allar áttir þ.e. þessir á kortinu, ekki eins og maður gangi með seðla á sér lengur. Vantaði nokkurn slatta af gardínum og hillum af ýmsum gerðum og ýmislegt annað auðvitað. Ætla að setja upp hillu hérna fyrir framan tölvuna og setja þar mynd af okkur saumó því við erum svo gekkt flottar á henni. Ég er alveg búin að láta prenta hana út, stækkaða auðvitað. Nú þetta gekk allt vel - kom heim með fullan bíl af drasli og tóm kort en passaði mig auðvitað á að koma ekki heim fyrr en um kvöldmat og þá var maturinn bara tilbúinn á borðinu, þeir klikka ekki karlarnir á heimilinu!

Ég sá að sumarfríin eru búin og fólk er greinilega hætt að fara út á land um helgar í sumarbústaðina eða með fellihýsin, húsbílana eða hvað þetta heitir nú allt saman því það var sama hvar ég kom alls staðar var gjörsamlega sneisafullt af fólki. Maður getur orðið alveg ær yfir þessu, maður olnbogar sig áfram bæði á bílastæðunum og í búðunum, skildu allir hafa verið í sömu erindagjörðum og ég?? Ég sé það í hendi mér að ég á auðvitað að fara á mánudegi þegar allir eru í vinnunni en þá þarf ég að drösla strákunum með mér og það er eitt af því sem mér finnst alveg ömurlegt að bjóða þeim uppá þannig að ég reyni sem mest að sleppa við það. Það gerist nú samt stundum.

En meir síðar.
Selma

fimmtudagur, október 14, 2004

Ekki rigning

Ótrúlegt en satt en það er ekki rigning hérna núna, kannski rignir ekki alla daga hérna á haustin.

Jæja ég bloggaði nú ekki gær þar sem vannst bara alls enginn tími til þess. Ákváðum að skreppa til höfuðborgarinnar í gær eftir hádegi og af því það er svo gott að koma á Álftanesið þá fórum við þangað til Jóhönnu mágkonu minnar, sorry Ella við komum greinilega ekki til þín, en næst! Maður fær líka pottþétt köku með kaffinu þar því Jóhanna er snillingur að baka og mér finnst alveg voðalega gott að komast í kökur stundum, ekki nenni ég að baka þær og ef svo er þá fara þær í frystikistuna og eru þar bara þangað til ég hendi þeim. Ekki það að ég hafi bara heimsótt hana til að fá köku, langaði bara að fara til hennar.
Nú heim þurfti ég að vera komin kl 17 því þá þurfti ég að kenna og hann Ragnar kom að passa. Ég nefninlega auglýsti eftir barnapíum í haust einhvern tíman og var lengi að velta fyrir mér hvort ég ætti að auglýsa eftir strák eða stelpu en það fór svo að ég skrifaði: óska eftir stelpu til að passa svona endrum og eins. Nema hvað sá fyrsti sem hringdi var Ragnar og næsti var Eva Dögg þannig að ég réði þau bara bæði og það er bara fínt.

Nú svo fór ég aftur kenna kl. 9 í gærkvöldi, lenti í kaffi hjá foreldrum drengsins og var bara ekki komin heim fyrr en seint og síðir, virkilega gaman. Svo MIKIÐ að gera hjá mér.

Svo er nú það, verð að tala við Hörpu um að setja inn myndir, hún var auðvitað búin að sýna mér þetta og ég búin að gleyma og hef EKKI gaman að fikta mig áfram og miklu fljótlegra er að tala við hana þá geri ég það bara og vonandi kemur mynd af MÉR fljótlega og alls engum örðum fjölskyldumeðlimum.

Selma

þriðjudagur, október 12, 2004

Bloggið virkar

Ég verð að segja það að þetta svínvirkar, nú þarf ég aldrei að hringja í neinn, fara neitt eða senda mail til að segja fréttir af mér og mínum því þetta lesa bara allir, held ég eða þannig.
Já já Harpa mín þetta er miklu flottara og svo er allt hitt bara eftir, nógur tími, alveg að koma jól og jólapróf og svoleiðis það er svo gaman.

Nema hvað það gerðist nú ekkert í dag nema að Sigurgeir fór að heiman, vá maður, segi ég nú bara því það hefur ekki gerst síðan hann heimsótti Benna í bústað og þá ætlaði hann að gista eina nótt en var alveg fjórar, á þriðja degi kom hann og náði í tannburstann því það var ekki hægt að vera tannburstalaus í marga daga. Hann, sem sagt, fór til vinar síns og var alveg heila 4 tíma. Ég var svo andlaus á meðan að ég skúraði bara allt draslið. Miðið er það nú leiðinlegt jobb og ótrúlegt að það sé ekki búið að finna upp eitthvað sem gerir þetta fyrir mann, það er kannski búið en ég hef bara ekki séð það. Hér með auglýst eftir þeim sem vita um slík tæki.

Já sem sagt rigning og aftur rigning hér, ég held ég sé búin að fá meiri rigningu síðan ég flutti hingað heldur en allan tímann sem ég átti heima í Hún. Svo maður fer auðvitað ekki út fyrir hússins dyr, slepptum klettaklifrinu í dag, fór að kenna aldrei þessu vant og já Sigurgeir var ekki heima.

SelmaHaloscan commenting and trackback have been added to this blog.

mánudagur, október 11, 2004

Koma sér í gang

Jæja hvernig væri að koma sér í gang, ég reyndar var nú svo v...... að ég hélt að þetta væri bara ásamt hinu í vinnslu hjá henni Hörpu en þegar ég fór til hennar um daginn (úps það var örugglega í ágúst eða kannski í september) spurði hún mig að því hvort ég væri ekki að nota þetta á fullu, ha hvað sagði ég er þetta ekki bara þarna. Jú jú auðvitað á netinu. Get svo svarið það að ég var ekkert að spá að þetta væri komið á netið þannig að ég verð að haska mér af stað og segja ykkur allar fréttirnar sem héðan koma daglega eða þannig.

Annars er auðvitað ekkert að frétta hérna - Beggi fór AFTUR til Tæ, ? hvort eitthvað meira spennandi sé þar en hér, ég bara veit ekki en hann kemur allavega alltaf aftur.... Í fyrstu ferð kom hann með heimabíókerfi, dröslaði því með sér alla leið en ekki er nú búið að setja það upp því það á eftir að smíða skápinn fyrir allt sjónvarps-vídeó-bíó draslið og ég er auðvitað guðslifandi fegin því það ærir mig þá ekki á meðan. Í næstu ferð kom hann með nýjan síma handa mér því Bjartmar ofnotaði minn gamla þegar ég fór að heimsækja Guðrúnu og Gústa í sumarbústað sl. ágúst og hefur ekki borðið þess bætur síðan þ.e. síminn, Guðrún og Gústi sluppu held ég. Nema hvað síminn er auðvitað með tælenskum stöfum og þess vegna get ég ekki sent nein sms lengur því ég veit ekki hvað er hvað. Nei joke það eru líka OKKAR stafir á honum en mjög flottur sími.

Nú svo er auðvitað kennaraverkfall og allir að verða galnir auðvitað og erum við þar engin undantekning, maður nennir nú ekki endalaust að fara í sund, við Sigurgeir og hundarnir auðvitað, erum reyndar tekin uppá því núna að klífa Hamarinn bæði utan frá og innan og þá á ég við að við förum hér upp á Kambinn sem er steinsnar frá Kambahrauninu auðvitað og klífum upp hann eftir göngustígnum og förum svo yfir, niður hinu megin og fyrir endann og aftur heim. Þetta tekur nú bara alveg heilan klukkutíma. Í dag fórum við öfugan hring þannig að við klifum niður hann, þ.e. hérna megin. Slagveður allan tímann, voðalega notalegt.
Nú Bjartmar er orðinn "stærri" en þegar þið sáuð hann síðast og farinn að hlaupa, hann á það til að reiðast, ekki veit ég hvaðan hann hefur það en þá leggst hann niður og lemur hausnum í gólfið eða bara jafnvel í næsta vegg og fer svo að hágrenja. Þetta hlýtur að ganga yfir og versna, maður veit ekki.
Af mér sjálfri er svo sem ekkert nýtt ég er BARA HEIMA. Er reyndar farin að kenna í "Hveragerði", maður þekkir svo gott fólk á Blönduósi og víðar.
Segi þetta gott í bili en verð náttúrulega að vera duglegri við þetta svo Harpa á Haukagili verði ánægðari með mig, ég er allavega búin með verkefnið í Photoshop sem ég er í í fjarnámi frá IR, þurfti ekki að skila því fyrr en um næstu helgi þannig að nú hef ég tíma í þetta.
kveðja
Selma
Flettingar í dag: 700
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 641974
Samtals gestir: 98135
Tölur uppfærðar: 23.2.2018 16:02:56

Tenglar